03.05.1949
Efri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

204. mál, einkasala á tóbaki

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég geri það af kurteisissökum að svara hv. 6. landsk. (StgrA), þó að ekki sé ástæða til þess. Ég get get sagt honum það, að ýmsir menn eru svo hagsýnir, að þeir draga úr tóbaksnotkun sinni við hækkunina, og hið sama má segja um hækkunina á víninu. Ef við lítum á þessi deyfilyf, vín og tóbak, þá sjáum við, að það er engin nauðsyn að nota þau, og ég þekki marga menn, sem ekki nota þau, en eru samt jafnvígir og hinir. Þetta er svo til komið, að menn á æskuskeiði byrja á að nota þetta af eftirhermuhvöt. Svo var um mig, og ég hygg, að fleiri hafi sömu sögu að segja. Það er hreinn óþarfi fyrir hv. þm. að segja, að sjómenn séu meiri tóbakshákar en aðrir. Þeir, sem vilja kaupa tóbakið á háa verðinu, geta gert það, en hinir spara við sig. — Það hefur verið sagt, að sjómenn smygluðu tóbaki inn í landið, en ég veit hitt, að sjómenn kaupa tóbak handa sér í erlendum höfnum og þurfa því minna að kaupa hér heima. Þetta eru fríðindi, sem sjómenn hafa, og kemur því þessi hækkun minna niður á þeim sjómönnum, sem eru í siglingum, heldur en öðrum, svo að umhyggja hv. þm. fyrir sjómönnum, þó að hún sé eflaust vel meint, kemur að litlu haldi, þar sem hækkunin bitnar minnst á þeim. Ég verð því að segja, að þessi andstaða hjá hv. þm. er ekkert annað en venjuleg stjórnarandstaða. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm., hverjir vilji missa vegina, brýrnar, hafnirnar, skólana o.s.frv. Það vill enginn missa af því, sem gerir landið byggilegra, en til að afla þess má ekkert láta ónotað. Og nú er 30 millj. kr. greiðsluhalli á fjárl., svo að eitthvað verður að gera til að hafa upp í hann. Ég hef ekki orðið var við annað, en að hv. 6. landsk. og flokkur hans hafi komið fram með till., sem miða að hækkun fjárl., en það ber þá einnig að koma fram með till. til tekjuöflunar. (StgrA: Það hefur líka verið gert.) Ég hef nú ekki orðið var við það á þessu þingi, en ég hef orðið var við hækkunartill. Ég sé því ekki annað en að andstaða kommúnista við þetta frv. sé hrein stjórnarandstaða. Þeir bera enga ábyrgð á fjárl., og að hafa þau sem vitlausust er að þeirra dómi bezt.