04.05.1949
Neðri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

204. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur orðið ásátt um að hækka nokkuð verð á tóbaki. En með því að það hefur verið ákveðið af Alþ., eftir að einkasala á tóbaki var upp tekin, frá því fyrsta, innan hvaða ramma verðið mætti vera, þótt því að sjálfsögðu hafi verið breytt, þá þótti hlýða að leggja þetta frv. fram, um, að í stað þeirra ákvæða, sem gilt hafa hingað til, megi hér eftir leggja frá 10–350% á tóbak, eftir því sem henta þykir fyrir hverja tegund. Sams konar undanþágur og verið hafa áður viðkomandi álagningu á tóbaki, sem ætlað er til annarra nota en venjulegrar tóbaksnotkunar, eiga að gilda framvegis, og er þar um að ræða tóbak, sem notað er til sauðfjárbaðana og annars slíks.

Eins og gefur að skilja, er ekki hægt að breyta heildsöluverðinu án samþykkis Alþ. Og meðan það er í ráði að fá þessu breytt, er ekki hægt að hafa afgreiðslu frá heildsölu tóbaksverzlunarinnar, fyrr en því máli er lokið. Þess vegna eru það tilmæli mín til hv. þd., að þessu máli verði hraðað í gegnum þessa hv. þd. svo sem unnt er, til þess að ekki þurfi að verða dráttur á afgreiðslu eða stöðvun á verzluninni með þessa vöru.

Ég þarf ekki að lýsa því, að það, sem veldur því, að gripið er til þessa ráðs að hækka nokkuð tóbaksverðið, er fjárhagsafkoman hjá ríkinu, sem eftir afgreiðslu fjárlagafrv. við 2. umr. sýndi um 30 millj. kr. halla, og má þó búast við, að ekki hafi öll kurl verið komin til grafar, sem krefjast útgjalda, þegar þar var komið málinu.

Skal ég svo ekki orðlengja um þetta frekar, en vænti, að hv. þd. sýni þessu máli skilning og að hæstv. forseti sjái sér fært að afgr. málið með þeim afbrigðum, sem þingið vill heimila.