04.05.1949
Neðri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

204. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vildi aðeins standa upp til þess að mótmæla því, að það sé fyrir gerðir ríkisstj., að menn hafa kannske minnkað við sig brennivínskaup. Hún hefur nú ekki staðið á torgum og gatnamótum til þess að prédika bindindi, hefur enda haft annað að gera, og hafa til þessarar starfsemi valizt ýmsir aðrir góðir menn. En þótt svo væri, að áfengiskaup minnkuðu eitthvað, held ég, að það þyrfti ekki að vera nema hálft hryggðarefni. Annars er það ekki ríkisstj. að ákveða árferði eða aflabrögð. Það vita allir, að hér hefur brugðizt annar höfuðatvinnuvegurinn hátt á annað ár, og það segir til sin, og gæti þá orðið vandi á fyrir hv. 2. þm. Reykv. (EOl) að finna þá stjórn, sem gæti fyllt upp í þau skörð. En megi nokkuð marka sögu þeirra manna, sem hafa litið í kringum sig í nálægum löndum, á alþýða manna hér ekki við verri kjör að búa, en annars staðar. Hitt vita svo allir, að á vissum tíma, þ.e. stríðsárunum og eftirstríðsárunum, var peningaflóðið meira í þessu landi, en dæmi eru til um áður. Nú er ástandið orðið allt annað, því miður. Það sýnir skorturinn á lánsfé hjá bönkunum, að þessir peningar hafa mikið minnkað. Þetta frv. er viðleitni í þá átt að reyna að tryggja það, að gjaldþol ríkissjóðs bili ekki þrátt fyrir örðugar aðstæður.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, en vildi aðeins mæla gegn þessari staðhæfingu 2. þm. Reykv., að ríkisstj. eigi alla sök á dýrtíðinni. Um það mætti margt fleira segja, en ég býst víð, að sá tími nálgist óðum, að hv. 2. þm. Reykv. geti þar opnað hjarta sitt fyrir stærra söfnuði, en hér er til þess að hlusta á hann, og mun því vera bezt að láta þetta mál ganga sinn gang.