05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

122. mál, sala Hafnarness

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það liggur ljóst fyrir, og hafa áður verið samþ. hér frv. svipaðs eðlis. Það fer fram á, að Hafnarhreppi verði heimilað að kaupa jörðina Hafnarnes af ríkissjóði, en í landi þeirrar jarðar stendur eina kauptúnið í sýslunni. Það hefur verið tekin upp sú regla, að þyrfti ríkið síðar meir að halda á landinu, þá fengi það það aftur við sama verði. Um þetta hefur enginn ágreiningur orðið á þeim stöðum, sem þetta hefur verið látið gilda um, svo sem Dalvík og Sauðárkróki, þar sem ekki hefur komið til þess, að ríkið hafi þurft á landinu að halda aftur. En svo getur farið, að upp komi ágreiningur um kaupverð, ef ríkið þarf aftur á landinu að halda, ekki sízt af því, að landið getur verið mjög misverðmætt eftir því, hvar það er. Til þess að fyrirbyggja þetta höfum við í n. hugsað okkur það, að þegar ríkið selur þetta land, þá verði lóðirnar metnar sérstaklega og færðar til höfuðstóls og að óbyggt land þar sé metið sér og auk þess verði land, sem er lengra frá og notað er sem beitiland frá Hafnarnesi, virt sér. Ef ríkið vill svo fá aftur einhvern hluta landsins, er auðveldara að sjá, hvað sá hluti er metinn hátt. Við leggjum því til, að frv. verði samþ. óbreytt, og var n. öll sammála um afgreiðslu þess.