18.12.1948
Neðri deild: 46. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Einar Olgeirsson:

Ég vil leyfa mér að taka það fram, að það er alls ekki til að flýta fyrir afgreiðslu mála að ætla að afgreiða þau með svona hætti. Og ég vil vekja athygli þeirra hv. þdm., sem styðja ríkisstj. að málum, á því, að afgreiðsla mála án þess að vísa þeim til nefndar brýtur algerlega í bága við þingvenjur og anda þingskapa. ríkisstj. getur ekki kvartað undan því, að stjórnarandstaðan hafi gert sér það að leik að tefja fyrir málum hennar. Ég veit ekki til þess, að það séu dæmi til þess í þingsögunni, að nokkur ríkisstj. hafi átt það eins mikið undir stjórnarandstöðunni að hraða málum sínum í gegnum þingið eins og núverandi ríkisstj., og ég hygg, að það sé líka einsdæmi, að stórmál eins og það, sem nú hefur hlotið afgreiðslu, fari svo að segja umræðulaust í gegnum 2. og 3. umr. Ef ríkisstj. ætlar að svara þessu með því að brjóta þingvenjur og hætta að vísa málum til nefnda, þá skal það ekki flýta fyrir málum hennar.