02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Eiríkur Einarsson:

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu, en langar þó til að gera grein fyrir skoðun minni í meginatriðum.

Mér þykir engin furða, þó að svo sé um flm. þessa frv. og brtt., sem fram kemur við það, að þeir vilji láta rannsaka og heimila, eftir því sem tök eru á, að þessi fallvötn verði hagnýtt, því að á öllum þessum rafveitum er það vitanlega lífstákn, að alla langar til og fýsir mjög að verða aðnjótandi þeirra gæða, sem vatnsorkan getur veitt til ljósa og hita og annarra nota. Mér fyndist því engin fjarstæða, þó að lagasetningu um heimild til nýrra raforkuvera væri skipað í heildarkerfi fyrir allt landið og rannsakað, hvar væri tiltækilegust vatnsorka til þess að fullnægja þörfinni á þessum og öðrum stað um byggð ból landsins, bæði í kaupstöðum og kauptúnum. Og þegar svo heildaryfirlit lægi fyrir og séð hefði verið fyrir fjáröflun til framkvæmda, væri byrjað á þessum framkvæmdum í þeirri röð, sem hagkvæmast væri, til þess að allt fengi notið sín sem bezt. Auðvitað yrði þetta gert með það fyrir augum, að sem flestir kæmu til greina, sveitirnar líka, en framkvæmdaröðinni yrði að haga í samræmi við þörfina og aðstæður til virkjunar, þannig að þetta kæmi að sem almennustum notum á hverjum stað, bæði að því er stærð kauptúnanna snertir, ræktunarmöguleika og annað slíkt, sem til mála kæmi, og svo auk þess, hvar virkjunin er nærtækust og auðveldust. Þegar á allt er litið, er mér fyrir mitt leyti ómögulegt annað, en að vera því samþykkur, að slík heimild, sem farið er fram á í frv. og brtt., verði samþ., eftir því sem tiltækilegt reynist og fé verður fyrir hendi. En því fleiri möguleikar, sem verða til rafvirkjunarframkvæmda, því meir knýjandi er nauðsynin á því, að hin fræðilega forusta málanna sé í svo traustu og öruggu horfi, að skakkaföll verði ekki í framkvæmdinni, að þarna verði ekki togstreitumál, heldur sem hagkvæmast fyrirkomulag málanna, þessi staður eða hinn þurfi að öllu athuguðu að ganga fyrir, o.s.frv. Maður hefur þegar nokkra ástæðu til þess að slá varnagla hvað þetta snertir. Ég og mínir líkar, sem erum fulltrúar fyrir nokkur kauptún, sem eru komin vel á veg með að fá vatnsorku, ættum sízt af öllum að vera blindir fyrir því, að það eru fleiri slíkir til, sem óska þess vegna sömu þarfa. Líkt má segja um sveitirnar. En hvaða sveitir og hvaða kauptún eru sérstaklega til þess fallin að geta orðið að almennum notum, það er hverju sinni rannsóknarefni, sem á ríður, að ekki valdi óeðlilegri togstreitu, þegar á hólminn kemur.

Ég vildi með þessum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og hvers vegna ég er samþykkur frv. því, sem hér liggur fyrir til umr.