02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég er nú þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Barð. (GJ), að þetta mál eigi miklu frekar heima í hv. iðnn. en í fjhn., og má segja, að af þeim sökum hafi fjhn. afgreitt málið eins og hún hefur gert. Þetta er sem sagt ekki fjárhagsleg kvöð á ríkissjóð, heldur í raun og veru ekki annað en samþykkt um að bæta einum nýjum lið í rafveitukerfi landsins. Ef þannig er á málin litið, er þetta mjög sambærilegt við samþykkt á hafnarlögum og því ekki annað en heimildarlög fyrir ríkisstj.

Þennan skilning, sem þó er ekki einstæður, legg ég í þetta frv. og vil benda hv. þm. Barð. á atriði, sem staðfesta þennan skilning. Það eru l. nr. 92 5. júní 1947, um orkuveitur, sem eru að formi til mjög svipuð eða alveg eins og það frv., er hér liggur fyrir. Í þeim er ríkisstj. heimilað „að fela rafmagnsveitum ríkisins að reisa 2.400 hestafla orkuver við Fróðá í Fróðárhreppi, 1.500 hestafla orkuver við Gönguskarðsá og koma upp aðalspennistöð fyrir Voga og Vatnsleysuströnd á Reykjanesi.“ Mér hefur verið skýrt frá, að þetta frv. hafi verið borið fram af hv. þm. Snæf. (GTh). Þetta frv. varð að lögum, og hefur þá að öllum líkindum verið litið svo á, að það færi ekki í bága við 9. gr. raforkul. Það má að vísu til sanns vegar færa, að ekki sé fyllilega farið eftir 9. gr., en mismunurinn er þá sá, að Alþ. veitir fyrir fram heimild til að framkvæma ákveðna virkjun áður en fyrir liggur kostnaðaráætlun eða fé er fengið til framkvæmda. Það kann þó að vera, að þetta sé ekki rétt túlkun.

Ég er í miklum vafa, hvort rétt sé að veita þessa heimild. Ekki af því, að ég telji eigi rétt að virkja, heldur vegna þess, að hér er verið að veita heimild til lántöku og framkvæmdar, sem ekki á að framkvæma á næstu árum, heldur kannske að löngum tíma liðnum og ekki er víst, að hægt sé að framkvæma. Ég hef litið á þetta sem hreint formsatriði og fylgi mitt við málið er undir því komið, hvort lofað er gaumgæfilegri athugun á öllum kostnaði áður en hafizt er handa með virkjun og að eigi sé í hana ráðizt fyrr en nægilegt fé er til framkvæmda. Ótti minn byggist á því, að þeir, er slíkar heimildir hafa fengið samþ., hafa hafið framkvæmdir án þess, að nokkur fjárhagsgrundvöllur hafi verið fyrir hendi, sumir jafnvel án þess að tryggja nokkurt fé, að ég nú ekki tali um framkvæmdir, sem gerðar hafa verið alveg út í bláinn, eins og t.d. Siglufjarðarvirkjunina, sem kosta átti 7–8 millj., en er komin upp í 15 millj. Er þetta ekki rétt með farið, hv. þm. Siglf.? (ÁkJ: 13 millj.) Mig minnir, að það séu nú 15 millj., en þetta er nú ekkert aðalatriði.

Á þessu byggist beigur sá, er ég hef í sambandi við samþykkt mála sem þessara, og ef ég ljæ málinu fylgi mitt, þá er það á þeirri forsendu, að gaumgæfilega sé athugað, hvort fjárhagslegur grundvöllur sé til staðar áður en byrjað er á framkvæmdum. Ég gæti því mjög vel hugsað mér að fylgja brtt., sem færi í þá átt, að ekki mætti hefja verkið fyrr en áætlanir væru til staðar og nægilegt fé fyrir hendi.

Út af brtt. hv. þm. Dal. (ÞÞ) vil ég segja það, að mér finnst mjög eðlilegt, að hann komi með slíka till. fyrir sitt kjördæmi. Ég hygg, að slík till. ætti ekki að spilla neitt fyrir framgangi málsins, því að það er eins og í frv., að þar vantar allan fjárhagslegan grundvöll. Báðar virkjanirnar yrðu þá aðeins heimildarlög fyrir ríkisstj.