07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

173. mál, eignarnámsheimild á Efri-Skútu og Neðri-Skútu

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af mér, hv. þm. Ísaf. og hv. 2. þm. N-M., og það er flutt eftir beiðni bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar, sem hefur á fundi sínum fyrir nokkru síðan ákveðið að leita þessarar heimildar og var öll sammála um það. Jarðirnar í Siglufjarðarbotni eru allar orðnar eign Siglufjarðarkaupstaðar nema þessar tvær, sem nú er farið fram á, að bærinn taki eignarnámi, sem eru jarðirnar Efri- og Neðri-Skúta, og svo Staðarhóll, sem er utar með firðinum. Þessar jarðir eru allar í eyði. Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta frv., vegna þess að höfuðrökin, sem bæjarstj. færir fram fyrir þessari ósk sinni, eru prentuð á fskj. Það hefur fundizt heitt vatn þar, og hefur Siglufjarðarkaupstaður mikinn hug á að hagnýta það til sundlaugar a.m.k. og jafnvel til hitaveitu, ef tækist að fá það mikið af nægilega heitu vatni. Byrjað er að reisa hafnarmannvirki á svokallaðri Leiru innst í Siglufirði, og er þegar búið að starfa þar fyrir á aðra milljón króna. Má gera ráð fyrir, að þau lönd, sem að þeim mannvirkjum liggja, hækki vegna þeirra mjög í verði, einkanlega jörðin Neðri-Skúta, og yrði það að teljast ógeðfellt, ef slíkur gróði lenti í höndum einstakra manna.

Ég vildi leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.