28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

173. mál, eignarnámsheimild á Efri-Skútu og Neðri-Skútu

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. Það, sem farið er fram á, er, að 2 af 3 jörðum á Siglufirði, sem enn eru í einstaklingseign, geti orðið eign bæjarfélagsins, þ.e.a.s. að bænum verði veitt heimild til að taka þessar jarðir eignarnámi. Bærinn telur þessa eignarnámsheimild nauðsynlega, bæði vegna þess, að gert er ráð fyrir að leggja í mikinn kostnað við að bora eftir heitu vatni á annarri jörðinni, en auk þess eru þessar jarðir að vaxa stórkostlega að verðmæti vegna framkvæmda bæjarfélagsins, og þykir eðlilegt, að sú verðmætisaukning komi bæjarfélaginu til góða. Af þessum ástæðum og fleirum hefur n. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.