05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

100. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) sagði hér áðan, vil ég segja nokkur orð. Hann spurði, hvort n. hefði athugað þá leið, að úthlutun bílanna færi fram heima í héruðunum. Já, úthlutunin mun fara fram þar samkv. frv. eins og það nú liggur fyrir. Búnaðarfélagastjórnirnar munu taka á móti umsóknum og úthluta bílunum til umsækjenda, hafi ekki verið sótt um fleiri bíla, en úthluta skal. Nú er sótt um fleiri bíla, en úthluta á í héraði. Skal þá leitast við að láta þann aðilann fá bifreið, sem mesta þörf hefur fyrir hana. En það getur stundum verið erfitt að ná samkomulagi um hluti sem þessa. Það hefur stundum komið fyrir, að varpað hefur verið hlutkesti um það, hver skuli hljóta farartækið. Hefur þá oft svo brunnið við, að sá aðilinn, sem sýnilegt var, að hefði hvað minnsta þörf fyrir að fá bifreiðina, hlaut hana. Það þarf því til öryggis að hafa eins konar yfirúthlutun til að tryggja það, að deiluatriði, sem upp kunna að koma, verði leyst með meiri sanngirni og frekara öryggi, en verið hefur til þessa í þessum málum. Er þetta gert í þessu frv. samkv. grundvelli 6. gr. frv. — Um hitt atriðið, hvort 4 eða 5 menn skuli eiga sæti í n., skal ég ekkert um segja. Það varð samkomulag um þetta í n., og ég sé enga ástæðu vera fyrir hendi til að breyta þar nokkru um.