05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

100. mál, jeppabifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég tók fram áðan, að ég mundi ekki setja mig upp á móti skipun Alþ., en ég vildi draga í efa, að ekki mætti finna lausn á þessu máli án þess að setja nýja n. á laggirnar. Mér hefur verið tjáð, að Búnaðarfélag Íslands hafi úthlutað hluta þeirra bíla, sem nýbyggingarráð fékk til ráðstöfunar á sínum tíma, og hefur ekki verið mikið fundið að því. Yfirleitt vildi ég óska eftir því, að viðskiptan. úthlutaði leyfum yfirleitt, enda er það verk hennar að úthluta þeim vörum, sem koma til landsins, til kaupenda. Þessi nefndarskipun mun eflaust kosta eitthvert. fé fyrir ríkissjóð, t.d. laun þessa eina manns, sem Alþingi kýs. Nú, þótt Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda greiddu fulltrúum sínum í n. laun, fá þeir samt laun sín úr ríkissjóði óbeint. Vitaskuld verður þessi kostnaður greiddur beint eða óbeint úr ríkissjóði, sem úthlutunin mun kosta. Ég gæti einnig hugsað, að ef horfið verður að þessu ráði, að skipa sérstaka n., komi aðrir atvinnuvegir í kjölfarið, t.d. sjávarútvegsmenn, og heimti, að þeir skipi n. til þess að sjá um úthlutun á innfluttum veiðarfærum, og iðnaðarmenn vilji fá n. til að úthluta hráefnum til iðnaðarins. Ég trúi því ekki, að ekki sé heppilegra að losna við enn þá nýja nefnd.