22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

100. mál, jeppabifreiðar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki fundið þörf á því að lengja umr., en þar sem þetta frv. heyrir undir n., sem ég er form. í, vildi ég benda á, að hér er átt við, að þessum bifreiðum sé úthlutað til landbúnaðarþarfa. Eitthvað er flutt inn af jeppum til annars, en landbúnaðarþarfa. Verð ég að segja það, að héraðslæknar og ljósmæður verða nauðsynlega að fá þessar vélar, og verð ég líka að segja, að ef eitthvað er flutt inn til annars, en landbúnaðarþarfa, þá kæmu þeir til greina, sem leggja stund á heilbrigðismálin, og ýmiss konar læknar mundu þá ganga fremst. Það mætti athuga, og lofa ég að tala þá við hæstv. ríkisstj., en vara við, ef fara á að breyta þessu hér í d., þegar liðið er á þingtímann, og minni bara á, hversu erfiðlega gekk í Nd. að koma þessu í gegn. Það væri að brugga málinu banaráð, ef koma á í gegn breyt. þeirri, er hér um ræðir, og sá, sem flytur till., ber ábyrgðina. Og ég held, að við hv. þm. N–Þ. gætum fengið úrlausn fyrir héraðslækni þann, er hann á við, þótt þetta væri ekki sett inn í frv. Ég er tregur til að stofna málinu í vanda með því nuddi, sem verið hefur um, hvernig úthluta eigi vélunum, þegar samkomulag virðist vera að komast á nú, og vil því ekki hætta við hálfgert verk og verða að byrja aftur á næsta þingi.