22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

100. mál, jeppabifreiðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil nú fá upplýsingar um ýmis atriði þessu frv. viðvíkjandi. Frv. gerir ráð fyrir innflutningi á jeppum og setur reglur um, hversu þeim eigi að úthluta. Innflutningsáætlunin gerir ráð fyrir 3 millj. kr. til innflutnings á jeppum, og þá nemur útflutningurinn 417–418 millj. kr. alls. En auk þess ætlar hún aðeins 750 þús. kr. til innflutnings á öðrum bifreiðum. Og það þekkjum við, að nokkrir læknar hér í bæ hafa fengið bíl á hverju ári og sumir tvo. Er það andskoti hart, að héraðslæknar hafa eigi fengið einn bíl á sama tíma og sumir læknar í Rvík hafa fengið tvo, en svo eiga héraðslæknar að þurfa að notast við jeppa, er fluttir eru inn í allt öðrum tilgangi. Vil ég biðja hæstv. dómsmrh. o.fl. að athuga þetta.

Svo er það annað, sem ég vil fá upplýst. Hér hef ég í vasanum bréf, er gefur upplýsingar um nöfn á 96 mönnum, sem allir hafa í höndum leyfi frá nýbyggingarráði fyrir jeppa, bæði innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. 41 þeirra hafa greitt 12 þús. kr. hver upp í jeppaverðið. Nú vil ég spyrja hæstv. dómsmrh., sem er góður lögfræðingur: Hafa eigi þessir menn siðferðislegan og lagalegan rétt til að fá bíl? Geta þeir ekki fengið hann dæmdan sér? Ráðið, sem var skipað með l., lætur í té leyfi fyrir bíl og segir, að hann verði borgaður af þeim 300 millj. kr., sem landsmenn áttu inni erlendis og ætlaðar voru til hinnar svo kölluðu nýsköpunar. Mennirnir hafa leyfin í vösunum, fara til innflytjandans, og hann geymir hinar 12 þús. kr. upp í jeppaverðið. En þeir fá engan bíl. Nú spyr ég: Ef fara á að flytja inn jeppa til bænda, hvað á þá að verða um þá 41, sem eigi eru bændur, stráklingar og aðrir hér í Rvík, sem sumir aka lúxusbílum, þó að þeir vilji líka fá jeppa? Hvað á að gera við þá? Ef þeir hafa rétt, á þá að sniðganga þá með frv.? Þetta vildi ég fá upplýst. Þó hafa einhverjir spurt um þetta í n., og mun hún víst athuga málið. En mér skilst, að hér geti orðið árekstrar. Ég mundi í sporum þessara manna ekki hika við að fara í mál við hæstv. ríkisstj. Ef ég hefði gjaldeyris- og innflutningsleyfi og peninga í sjóði, þá mundi ég fara í mál. (BÓ: Það er ekki víst, að þú ynnir það.) Ég held, að þetta hafi verið gert í umboði stj. Ég vildi gjarna fá þetta upplýst, og því fremur sem hér eru nú viðstaddir fyrrv. form. nýbyggingarráðs, hæstv. fjmrh., dómsmrh. og fleiri lögfræðingar.