22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

100. mál, jeppabifreiðar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það er vitað mál, að þegar nýbyggingarráð hætti störfum, voru útistandandi allmörg leyfi. Ég veit ekki um tölu þeirra á þessu tímabili. En alloft munu þeir, sem leyfi fengu, hafa verið búnir að borga umboðsmanni fabrikkunnar upp í bílinn, en það kom nýbyggingarráði auðvitað ekkert við. Ráðið hafði ekki með það að gera. En það mælti með við viðskiptan., að leyfin væru gefin út, eins og háttur var á. Ráðið gat sent meðmæli um innflutningsleyfi til hennar, sem alloft voru tekin til greina. En jepparnir voru eitt af því, sem viðskiptan. gekk fram hjá, og lét þá mæta afgangi, án þess að hún gæfi skýringu á því. Ég kvartaði undan þessu við hæstv. viðskmrh. og þótti þetta leitt, því að ég hafði veitt forstöðu þessari stofnun, sem gaf út leyfin, en hann hefur eigi séð sér fært að uppfylla loforðin. Ég hef fengið bréf frá nokkrum bændum, sem tjá mér, að þeir hafi leyfi í höndunum frá nýbyggingarráði, sumir hafa greitt þau, og spyrja um, hver þeirra hlutur muni verða, og ég hef eigi getað veitt þeim nein fullnaðarsvör, en það verður að leysa þetta mál. En úr því að nú hefur verið stigið það spor að flytja inn jeppa, hljóta þeir, a.m.k. bændur í sveit, að hafa forgangsrétt til að fá fullnægju fyrir þeim leyfum, er þeir óréttilega hafa verið dregnir á tálar með. Ég hef verið óánægður með þessa aðferð og finnst fullkomið sanngirnismál, að í fyrsta lagi fái þeir bændur úrlausn, sem þarna eiga hlut að máli, og í öðru lagi er svo hitt, að það er siðferðisleg skylda, ef eigi lagaleg, en af því að jepparnir eru ætlaðir til landbúnaðarþarfa, þá er hærri réttur sveitanna eftir frv. Mér þykir leitt, að hæstv. viðskmrh. er eigi viðstaddur hér í d., því að hann mundi geta svarað þessu og lýst skoðun stj. En ég hef margoft bent á, að þeir, sem haft hafa innflutningsleyfi í höndum og enn eigi fengið þau afgreidd, hefðu forgangsrétt til hins nýja innflutnings, ef til kemur.