22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

100. mál, jeppabifreiðar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð vegna spurningar hv. 1. þm. N–M. (PZ), hvort þeir menn, sem hefðu leyfi í höndum og jafnvel hefðu borgað það, ættu eigi siðferðislegan og lagalegan rétt til að fá jeppa afgreiddan. En hér er í rauninni um tvær spurningar að ræða, og vísa ég hinni fyrri heim til föðurhúsanna. Ég veit, að svo vandaður og góður maður, sem ég veit, að hv. 1. þm. N–M. er, hefur eigi síður vit siðferðislega en ég. Minn dómur er því eigi fremur markverður en hans. Svo er nú hæstv. fjmrh. á sömu skoðun og hv. þm., og það má gleðja þennan hv. þm. En ég er ekki málunum kunnugur og læt mér nægja umsagnir þessara tveggja ágætu manna. En eigi væri óeðlilegt, þegar hafður er í huga jeppinn, sem gekk til umsjónarmannsins á Þingvöllum, að úrskurða mætti þá líka um aðra jeppa. Varðandi hinn lagalega rétt þá er eðlilegast það, sem hv. þm. N-M. sagði, að þessir menn höfði mál gegn stj., ef þeir telja sig hafa hann, verði skorið úr þessu með málsókn. En ég verð að telja litlar líkur til, að þeir telji hinn lagalega rétt fullöruggan, þegar ekki einn þeirra hefur enn, þó að svo sé um liðið, höfðað mál gegn ríkisvaldinu, þótt þeir telji sig órétti beitta, því að hv. þm. N-M. er eigi málsjúkari en aðrir, en telur þá hafa rétt til þess, og þeir höfðu tækifæri. En ef þeir vissu, að þeir mundu vinna málið, þá mundu þeir höfða það. Annars er eigi ástæða til að svara þessu frekar, því að þessum aðilum er opin leið til að fá skorið úr þessu hjá dómstólunum. Og sízt er ástæða til þess fyrir mig.

Varðandi þau ummæli hv. 1. þm. N-M., að ég leggi kapp á, að héraðslæknar fengju jeppa þá, sem bændunum væru ætlaðir, þá vitna ég til hv. dm., að ég hef ekki sagt neitt svipað í þessa átt, og ég veit, að ég hef enga ástæðu til þess. En eðlilegt er og sjálfsagt, ef á að tryggja læknum jeppa, að taka það fram í frv., því að óvist er að, að öðrum kosti væri það hægt. Þetta voru ummæli mín, en hv. 1. þm. N-M. vill snúa þessu upp í fjandskap minn við málið. En hitt er annað mál, að ég geri ráð fyrir, að meginþorri héraðslækna landsins hafi nú þegar einhvern bílakost og þurfi því eigi bíl. Yrðu, því ekki of margir, sem þyrftu að keppa við bændur í þessu efni, en eðlilegt er, að opin leið yrði fyrir lækna að fá jeppa. Nú eru ætlaðar 3 millj. kr. til jeppainnflutnings, en aðeins 750 þús. kr. til innflutnings annarra bifreiða. Halda menn þá, að það veitti ekki af þessum 750 þús. kr. til ýmissa endurbóta eða nokkuð yrði afgangs til innflutnings á jeppum? Ég held ekki, að hægt sé að skoða till. hv. þm. N-Þ. sem fjandskap við bændur, þótt læknar fengju jeppa, sem hægt væri að kaupa fyrir þessar 3 millj. kr. Og eftir eftirsókninni eftir fólksbílum að dæma held ég, að ekki yrði mikið eftir af þessum 750 þús. kr. til annars innflutnings. Hv. 1. þm. N-M. beindi til mín fsp. varðandi lækna í Rvík. En sé það rétt, að einhverjir þeirra hafi fengið bíl ár eftir ár og sumir marga og síðan selt þá með okurverði, þá verð ég að telja það hneyksli, er eigi megi liggja í þagnargildi. Og ég vil enn skora á hv. 1. þm. N-M. að láta uppi hér í hv. d., hverjir þessir læknar eru og hvenær þeir hafa fengið þessa mörgu bíla á árinu og fyrir hversu mikið þeir hafa selt þá og hve mikið þeir hafa á því grætt. Ef hann hefur fengið þekkingu sína á þessu sem ríkisskattanefndarmaður, þá ætti hann að snúa sér til ríkisstj. til þess að reyna að sjá um, að svona hneyksli verði upprætt.