22.04.1949
Efri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

100. mál, jeppabifreiðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil bara benda hæstv. dómsmrh. á það, að hér í landinu er til stofnun, sem mun heita bifreiðaeftirlit ríkisins, er skrásetur allar bifreiðar og hæstv. dómsmrh. á ákaflega góðan aðgang að. Þar munu vinna milli 10 og 20 menn, og þeir munu geta gefið þessum hæstv. ráðh. upplýsingar um það; hverjir hafa átt vissa bíla á ýmsum tímum. Skrifstofustjórinn í fjmrn. er í yfirskattanefnd Rvíkur og hefur orðið að bæta við skatta hjá einstökum mönnum vegna bílasölu á svörtum markaði. Svo að það eru hæg heimatökin hjá hæstv. ríkisstj. að vita um þetta, ef hún vildi — ef hún vildi.