06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

100. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað þetta mál og þær brtt., sem lágu fyrir hér í d., bæði frá hv. þm. N-Þ. og hæstv. fjmrh. Það virtist vera, að hér væri komið í dálítið óefni, og n. velti því fyrir sér, hvernig helzt mætti komast út úr þeim erfiðleikum, sem búnir eru að mæta þessu frv. Við vitum, að það hefur verið mesti vandi að útbýta þessum áhöldum og skipta þeim milli manna, og fáir hafa viljað gefa sig í þetta, en með þessu frv. er mjög mikil bót ráðin á því með þá jeppa, sem eiga að fara til landbúnaðarins; hvernig á að koma því fyrir, og reglur settar um það, sem setja þetta í fastar skorður. N. sá það, að ef losað væri um böndin í þessu frv. með því að gefa undanþágur eins og kom fram í Nd., þá væri vafasamt, hvernig færi um þetta. Ef héraðslæknar fengju sérstaka undanþágu, þá var ekki hægt annað, en veita hana einnig ljósmæðrum, og gátu þá komið fleiri koll af kolli. Því var það, að n., þeir 4 nm., sem á fundi voru, var sammála um að ráða bót á þessu með því, að nefnd tæki að sér að útbýta jeppum, sem til landsins kæmu eða slíkum bifreiðum, sem geta heitið öðru nafni, en eru þó af sams konar gerð og þeir. En það er ekki ætlunin, að landbúnaðurinn hirði allt, þó að það sé meginstefnan, að jepparnir séu einkum hæfir til þess að vera í sveitum, hvort sem er til jarðyrkjustarfa eða til að vera á vegum þar, en drossíurnar aftur hæfari til að vera á hinum betri vegum í bæjunum, heldur þótti rétt, að jeppa fengju einnig þeir menn, sem hafa þörf fyrir þær bifreiðar. Varð það ofan á, að nm. gengust undir það, að það yrði 20%, sem gengi til annars, en landbúnaðarins af þessum tækjum, sem innflutt væru. 3. brtt. skýrir enn betur, hvaða bifreiðar heyra undir þetta hugtak, sem til skipta koma fyrir þessa n., og er þar ekki eingöngu hugsað til þess, að það sé aðeins til ferðalaga, heldur til annarra heimilisnota, og var því sett hér í staðinn, að það væri til annarra heimilisþarfa, en aðdrátta. 3. brtt. voru menn alveg sammála um og var það talið leiða af sjálfu sér, að 4. brtt. kæmi hér inn. — Og svo er það 5. brtt. N. leit svo á, að nauðsynlegt væri að fylgjast með sölu þessara bifreiða ekki aðeins frá fyrstu hendi, heldur áfram og líta eftir, að þær væru ekki seldar á svörtum markaði, heldur væru þær yfirleitt seldar þeim mönnum, sem helzt þurfa á þeim að halda. En eftir upplýsingum, sem hér komu fram, fyrst frá hv. 1. þm. N–M. (PZ) og síðan frá hæstv. fjmrh., þá var þannig komið, að margir voru búnir að fá leyfi fyrir bifreiðum þessum og ýmsir búnir að borga þar að mestu eða öllu leyti. En til þess að ekki væri hætta á því, að menn færu nú að hlaupa í að borga þær og ná sér í réttindi á þann hátt, var sett hér það bráðabirgðaákvæði frá n. hendi, að þeir aðilar, sem áður hafa fengið gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir þessum bifreiðum og búnir eru að borga þær að mestu eða öllu leyti fyrir árslok 1947, skuli ganga fyrir að öðru jöfnu. N. vildi gera nokkra úrlausn þeim mönnum, sem hafa látið peninga í þetta, og finnst sanngjarnt, að þeir gangi fyrir þeim, sem ekki hafa lagt fram neitt fé til þessara kaupa. — Ég vona, að þessi brtt. frá n. geti gert það að verkum, að hv. þm. N–Þ. (BK) geti tekið till. sína aftur, og sömuleiðis geri ég ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. muni einnig geta gert það, ef þessi brtt. yrði samþykkt.