06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

100. mál, jeppabifreiðar

Eiríkur Einarsson:

Það er nú búið að geta þessa máls í framsögu af n. hálfu, og vissi ég náttúrlega, að framsagan mundi verða í samræmi við þær brtt., sem fyrir liggja frá n., og frv. sjálft. En í nál. hef ég áskilið mér rétt til þess að fylgja brtt. eða fylgja þeim ekki, eftir því sem mér sýndist, eins og málið horfir nú við, þar sem ég er ekki alls kostar ánægður með það. Ég vil láta þess getið, að mér finnst frv. í sjálfu sér vera réttmætt og verðskulda, að það verði lögfest, en vil jafnframt, að því fylgi sem minnst lagaboð um ráðstöfunina. Það er nú aðalatriðið fyrir mér. — Það, sem þarna fer helzt í taugarnar á mér, er bráðabirgðaákvæðið. Ég er hræddur um, að þegar gefið er slakt á með lagasetningunni sjálfri um úthlutunina og búið að rétta einum fingurinn, þá komi fleiri til sögunnar. Ég veit, að þeir, sem hafa greitt fé fyrir þessa væntanlegu bíla, eiga rétt á að fá fé sitt endurgreitt. En að þeir, þótt þeir slæddust inn á þessa skrá, eigi rétt á því að fá jeppa nú, tel ég allt öðru máli gegna. Bændur, sem þar eru komnir á skrá eiga vitanlega forgangsrétt, því að ég sé ekki ástæðu til að vera að þessu basli, nema það sé gert í ákveðnum tilgangi, þ.e. í þágu landbúnaðarins.

Að því er snertir brtt. hv. þm. N-Þ., um læknabifreiðar, er það að segja, að þar er um fá tilfelli að ræða. Ég tel, að frv. eigi að vera til þarfa bænda yfirleitt, og tel það sýna frámunalega þröngan skilning á frv. að telja ekki, að héraðslæknar bænda í hinum dreifðu héruðum eigi sama rétt. Ég álít, að þeir eigi að hafa forgangsrétt, því að það, sem bændum er brýnust nauðsyn, er að fá héraðslækni til sin. Við erum of grónir ofan í bókstafinn sjálfan, eigi þetta að vera nokkurt álitamál.

Ég er sem sagt í rauninni fylgjandi þessu frv., en vildi láta þessar aths. koma fram varðandi þau atriði, sem ég er ekki ánægður með.