06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

100. mál, jeppabifreiðar

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. tók réttilega fram, að þegar málið var endanlega afgr. frá n., var ég ekki viðstaddur á fundi. Hins vegar lét frsm. n. mig sjá nál. og brtt., þegar hann hafði frá því gengið, áður en það var afgr. í prentun. Ég fyrir mitt leyti er sammála nál. og brtt. og mun fylgja þeim við atkvgr. hér í d. Þó er ein þeirra þannig, að mér þætti gott að gera til öryggis nokkurn áskilnað í sambandi við hana, en brtt. er um það, hverjir eigi að vinna það vandasama verk að úthluta þessum jeppabifreiðum. Brtt. gerir ráð fyrir því, að n., sem kosin er af sérhagsmunasamtökum bænda, úthluti öllum jeppabifreiðum, bæði þeim, sem bændur fá, og eins hinum, sem ekki er ætlazt til, að fari til þeirra. Má að sjálfsögðu um það deila, hvernig n. þessi eigi að vera skipuð, og sýnist vera dálítið álitamál, hvort rétt sé að leggja allt í hendur þessarar bændanefndar. Ég gæti kannske hugsað mér aðra skipun á þeirri n., að svo miklu leyti sem um er að ræða úthlutun til annarra en bænda. Mér er þetta þó ekki svo fast í huga, að ég vilji bera fram við það neina brtt. á þessu stígi málsins, en vil áskilja mér rétt til þess við 3. umr. að hreyfa um þetta brtt., ef ég kynni að sjá ástæðu til þess.

Mér þótti aðeins rétt að láta þetta koma fram.