06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

100. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Við 1. umr. um þetta mál benti ég á, að mér þætti eðlilegt, að þessu yrði breytt að einhverju leyti. Nú hefur hv. 7. landsk. (GÍG) áskilið sér rétt til að bera fram brtt. í sambandi við skipun n. Í frv. er ætlazt til, að þetta sé 5 manna n. Ég sé ekki, hvers vegna á að setja 5 menn í þetta. Ég man, að þegar „Hagamúsunum“ svo kölluðu var úthlutað, kostaði það yfir 36 þús. kr. að úthluta þessum fáu bílum, og formaðurinn sjálfur fékk 16 þús. kr. fyrir það. Þetta er árangurinn af þessum nefndarstörfum, sem verið er að setja upp á þennan hátt. Ég held, að það sé nóg að hafa þarna einn mann frá Búnaðarfélaginu, annan frá stéttarsambandi bænda og þriðja manninn skipaðan öðruvísi og hafa þannig aðeins þrjá menn. Ég benti einnig á, að mér þætti dálítið óeðlilegt, að kostnaður við nefndarstörfin væri greiddur af hlutaðeigandi aðilum, þannig að landbn. ættu að borga kostnaðinn fyrir sinn fulltrúa. Vildi ég beina því til hv. landbn., hvort hún sæi sér ekki fært að breyta þessu þannig, þar sem ætlazt er til, að 4 nm. séu kosnir af Búnaðarfélagi Íslands og stjórn Stéttarsambands bænda, að þeir ynnu kauplaust hjá n. Mér óar við að sjá á landsreikningnum svona upphæðir eins og 36 þús. fyrir úthlutun á 125 bílum á örfáum dögum. En annars geri ég það ekki að neinu kappsmáli.

Í 1. gr. hefur verið sett ný mgr., sem mun eiga við, að undir þetta komi einnig þeir bílar, sem byggðir eru í Evrópu, aðrir en jeppabílar. Mér finnst þetta vera ákaflega víðtækt. Geta þá komið undir þetta form alls konar bifreiðar hentugar til flutninga. Og geta þá ekki, ef þessi gr. stendur svona, komið undir þetta allar vöruflutningabifreiðar, sem fluttar eru til landsins til landbúnaðarþarfa? Hvað fer nú mikið af flutningabifreiðum til landbúnaðarþarfa? Ég held, að erfitt yrði að greina á milli, hvað mikið færi til landbúnaðarþarfa og hvað til annarrar notkunar, þannig að mér finnst þessi brtt. hafa skemmt þetta.

Í 2. mgr. 1. gr. hefur verið sett í stað orðanna, „sem heimilt er að flytja til landsins til landbúnaðarþarfa“: „sem heimilt er að flytja til landsins ár hvert“. Það er ákveðið með lögum, hverjir það eru. Það er fjárhagsráð. Í sömu mgr. stendur: „Með innflutningi þessum skal að því stefnt að fullnægja svo fljótt sem verða má þörfum landsbúa....“ — í stað orðanna „þörfum bænda“, sem hafa þá ekki lengur afskipti af því, hvernig bifreiðainnflutningur yfirleitt er til landsins. Þetta verður því að teljast breyt. heldur til hins lakara.

Í 3. gr. eru í stað orðsins „Bifreiðar“ sett orðin: Fjóra fimmtu hluta þeirra bifreiða. Þannig að bændum er ætlað að sitja að 4/5 allra þessara bifreiða, sem fluttar eru inn. Það er sannarlega til landbúnaðarþarfa, að fluttar eru inn mjólkurbifreiðar, sem flytja mjólk á milli. Það eru orðnir stórir tankbílar. Og það er kannske til landbúnaðarþarfa að flytja inn sérleyfisbifreiðar, sem fara eingöngu um landbúnaðarhéruðin.

Þó finnst mér verst brtt. við 4. gr. Þar er sett inn, að í stað orðanna „að og frá heimilum sínum meiri hluta ársins“ komi: og annarra heimilisþarfa. Verður upphaf gr. þá þannig:

„Nefndin aflar sér árlega svo áreiðanlegra upplýsinga sem föng eru á um tölu þeirra býla á landinu, er geta haft full not jeppabifreiða til flutninga og annarra heimilisþarfa.“

Verða það ekki hér um bil öll héruð landsins, sem geta haft þess full not? Það hefur víst verið meint áður, að þeir væru látnir ganga fyrir, sem hefðu einhverja vegi og gætu notað þetta meiri hluta ársins. Mér skilst, að undir þetta eigi að koma allir, sem geta haft not af bifreiðum 3–4 mánuði. En þá eru hér í 7. gr. — og það er athugaverðast af þessu öllu — felld niður orðin „samkv. þeim reglum, er um ræðir í 6. gr.“, og þar með er niður felldur leiðarvísir um það, hvernig eigi að úthluta bílunum. Þetta finnst mér versta brtt. frá n. Áður bar n. að fengnum upplýsingum að úthluta bifreiðunum samkv. fyrirmælum 6. gr., og þau eru hér í 5. lið hennar. En verði þetta samþ., á hún bara að úthluta bifreiðunum án þess að hafa nokkurn leiðarvísi og þarf ekki að fara neitt eftir 6. gr. Þetta finnst mér vera til hins miklu lakara. Virðist það hafa verið gert af ásettu ráði að láta n. ekki vera bundna af ákvæðum 6. gr. um úthlutun bifreiðanna og stafar af því, að vald það, sem n. er gefið, er miklu meira, en það var áður. Áður hafði n. aðeins vald til að úthluta jeppabifreiðum, en nú öllum bifreiðum, sem koma inn undir 1. gr., þegar búið er að breyta henni. — Ég verð þess vegna á móti þessum brtt. yfirleitt og kýs heldur að fylgja frv. eins og það liggur fyrir hér, nema eitthvað komi fram í umr., sem ég get sannfærzt um, að sé til bóta.