06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Það er auðvelt að finna galla á þeirri fjáröflunarleið, sem hér er um að ræða, og kann enginn sér hægara verk að vinna. Hitt liggur samt fyrir, að jafnvel þeir, sem — og á ég þar sérstaklega við hv. þm. Str. — telja tormerki á að hækka benzínskattinn, hafa ekki í sambandi við það fjárlfrv., sem nú liggur fyrir þinginu, slakað neitt til á kröfum sínum fyrir kjördæmi sitt, og ég veit ekki til, að hv. þm. Str. hafi heldur lagt fram neinar till. til sparnaðar, sem gætu þá bjargað þessu ástandi.

Skattar og tollar eru oft og tíðum tvíþættir, eins og hann tók fram, að vissu leyti réttmætir og að vissu leyti ranglátir. Á það ekki við um benzínskattinn einan, heldur marga aðra skatta og tolla. Ég held satt að segja, að það hafi oft klingt við, að það væri undarlegt, að benzínskatturinn skyldi ekki vera hækkaður. Það er vitanlega æskilegt að hafa lága skatta, en í litlu þjóðfélagi, sem vill lifa yfir efni fram, eins og við Íslendingar, sem viljum eyða meira, en við öflum, er ekki gott að forðast það að leggja á borgarana óvinsæla skatta og tolla.

Hv. þm. Str. (HermJ) var að tala um fjármálastefnu. Honum verður nú ákaflega tíðrætt um fjármálastefnuna upp á síðkastið, en skyldi hann nú, hv. þm. Str., vera laus við það að hafa 1942 markað þá stefnu í framvindu kaupskrúfunnar, sem er ein orsök vandræðanna í dag. Hv. 4. landsk. þm. (BrB), sem gleðst mjög, sem vonlegt er, af liðveizlu hv. þm. Str., sagði, að þetta væri sama og lækkun á gengi, og vitanlega er öll dýrtíð lækkun á krónunni. Það veit hvert barnið, en núv. ríkisstj. hefur ekki búið til nema fæst af þeim l., sem íþyngja fjárlögum nú og í fyrra og hitteðfyrra. Það er því alveg ranglátt að tala um, að hún hafi einhverja sérstaka ófarnaðarstefnu upp tekið. Hún hefur reynt að verjast stórum áföllum meðan unnt er. Hún er að reyna að koma í veg fyrir það, að framleiðslan stöðvist, en það krefst fórna, eins og allar ríkisstj. mundu komast að raun um. Hv. þm. Str. sagði mig lítinn þátt hafa átt í því að koma með góð ráð í þessum efnum. Ég man nú ekki til þess, að hann hafi komið með neitt úrskerandi í þessum málum, því að ég tel ekki verzlunarmálafrv. hans eða hans hv. flokksbræðra neitt aðalatriði fyrir þjóðarbúskapinn. Það gæti orðið til þess að gera skömmtunina eilífan augnakarl í þessu landi, alveg eins og innflutningshöftin urðu til við að koma á annarri skipun innflutningsmálanna.

Í tilefni af því, að hv. 4. landsk. minntist á það, að þessi ríkisstj. hefði hækkað fjárl. um á annað hundrað milljónir króna, þá skal ég benda á það, að hann á sinn þátt í því, því að um 100 millj. kr. á fjárlagafrv. nú eru beinlínis sökum dýrtíðar, þar af um 20 millj. kr., sem hengdar eru um háls þjóðarinnar af hv. 4. landsk. Fiskábyrgðarl. voru sett án þess að séð væri fyrir eyri til að standa undir þeim. Þar eru 20 millj. kr. og svo 80 millj. kr. í alls konar niðurgreiðslur, svo að sé þetta þannig sem hv. 4. landsk. sagði, þá hefur ríkisstj. aðeins hamlað á móti þeim myllusteinum, sem hv. 4 landsk. byrjaði að hengja um háls ríkissjóðs með fiskábyrgðarl., sem hann bar fulla ábyrgð á. Þegar á að henda öllu þessu á bak núv. ríkisstj., þá verður að minna á þetta alvarlega spor, svo að ef um syndir er að ræða, þá dregst núv. ríkisstj. m.a. með syndir hv. 4. landsk. Og fleira er það, sem hann átti þátt í að hlaða á ríkissjóð, t.d. skólalögin, sem árlega kosta um 35 millj. kr., og geri ég þó ráð fyrir, að fólk liði eins vel án slíkra skólalaga. En þessir menn, sem nú eru að gagnrýna ríkisstj., verða að gæta að því, að hér er um að ræða afleiðingar þeirra eigin gerða, svo að þeir geta ekki sett sig í neinn dómarasess hvað tolla og skatta snertir, því að þeir eiga sinn þátt í útgjöldunum, sem þarf að mæta, og hefði hv. 4. landsk. ekki átt að undrast á þessu frv. því að blað hans boðaði 30–40 millj. kr. skattaálögur, þótt ekki yrði úr því. Þegar ég nú á þátt í því að reyna að halda þessu öllu gangandi og ekki er gert mikið af þeim sterku hér í þá átt, þá er það meðal annars af því, að ég veit, að aðrar leiðir til lausnar á annan veg eru, eins og Alþingi er nú samansett, alveg útilokaðar. Hv. 4. landsk. minntist á gengislækkun. Er hann nú t.d. reiðubúinn að fara þá leið? Vill hann losa fjárlagafrv. við fiskábyrgðina með gengislækkun. Það mætti með gengislækkun og líka lækka tollana. Ég spyr nú hv. 4. landsk.: Mundi hann vilja fara þessa leið? Hún hefur sína kosti og sína ókosti, en ég veit að það eru stórir hópar hér á Alþ., sem mundu reka upp ramakvein, ef slíkt ætti að lögfesta, en það væri gott að fá álit hv. 4. landsk. — Annað er til, og það er, ef öllum verklegum framkvæmdum væri frestað í eitt ár, þá má slaka til sem nemur þeim 30 millj. kr., sem fara eiga til verklegra framkvæmda, sem flestar eru þannig, að þær gætu að skaðlausu dregizt í eitt ár, en ég veit, að stórir hópar manna eru á móti því. Sama yrði upp á teningnum, ef hætta ætti niðurgreiðslunum. Það mundi einnig mæta mikilli andstöðu hér og um allar þessar leiðir má sameiginlega segja, að um þær fæst ekki samkomulag hér á Alþingi. Því verður að reyna að mjaka þessu áfram meðan við erum að átta okkur á því, að við erum á allt annarri bylgjulengd en þjóðirnar í kring. í bréfi frá Sölumiðstöðinni eru tilfærð orð ungs sölumanns, sem var að reyna að selja fiskafurðir austur í Palestínu, þar sem hann segir, að það sé ekki gaman að selja vöru, sem er dýrari en það, sem allir aðrir bjóða. En þetta eigum við nú við að stríða með flestar okkar vörur.

Mér þykir rétt að láta þessar aths. koma fram, því að það er engin ástæða til þess fyrir mig að taka við sérstökum ákúrum um fjármálastefnuna frá hv. þm. Str. og hv. 4. landsk,. án þess að segja nokkur orð til andsvara.