06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér mikið inn í umr. hæstv. fjmrh. og hv. þm. Str., en samt þykir mér rétt að benda þar á einstök atriði í fáum orðum.

Það er dálítið gaman að því, þegar sjálfstæðismenn og sósíalistar eru að brigzla hvorir öðrum um það, að þessum og þessum l. hafi hinir komið á. Hæstv. fjmrh. segir t.d., að sósíalistar eigi fræðslulöggjöfina, en við setningu hennar, eins og annarra slíkra þrætulaga, var samstjórn þeirra að verki, og ekki er vitað, að mikill ágreiningur hafi verið á milli þeirra þá.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hin mikla verðhækkun, sem hófst árið 1942, væri hv. þm. Str. að kenna og stefnu hans. Ég vil nú minna hann á, að það var fullkomið samkomulag um það við herstjórnarvöld þau, sem þá voru í landinu, að þau tækju íslenzka menn úr vinnu hjá sér áður en síldveiði og heyskapur byrjaði, svo að þau drægju ekki vinnuaflið frá framleiðslustörfunum og hægt væri að stunda þau eins og venjulega. Sem skilyrði var það sett af herstjórnarinnar hálfu, að íslenzka ríkisstj. fækkaði mönnum við „óprodúktiv“ störf, en þá unnu um 800 manns við störf eins og byggingu kvikmyndahúss á Akranesi og prentsmiðja hér í Reykjavík, sumarbústaða, t.d. í Hvammi í Skorradal og víðar o.s.frv. Og þegar ríkisstjórnin fór að ganga eftir því síðast í maí við hernaðaryfirvöldin, að þau hefðu brugðizt í þessu efni, þá var því svarað til, að ekki hefði verið fækkað af Íslendingum sjálfum í „óprodúktivu“ vinnunni. Og það var Ólafur Thors, sem setti sig á móti því, að það væri gert, og þær afleiðingar, sem það hafði, er því ekki hægt að kenna hv. þm. Str.

Þá vildi ég segja hér svolítið dæmi. Það er nú verið að úthluta í fjárhagsráði þeim vélum — og nú fyrst —, sem landbúnaðurinn þarf að nota í sumar, þar á meðal dráttarvélum af fleiri gerðum. Ein er langbezt og þar að auki nærri 1.000 kr. ódýrari, en hinar tegundirnar af sömu stærð. Þetta er fyrsta flokks tæki, sem hægt er að nota svo að segja við öll störf á heimilinu, jafnvel til þess að skilja mjólkina, með því að setja það með drifinu í samband við skilvindu. En aðeins helmingur þeirra dráttarvéla, sem á að miðla bændum, er af þessari tegund. Hinn helmingurinn er af öðrum gerðum, sem ekki er hægt að nota nema til fárra hluta og eru auk þess frá 1 og upp í 2 þús. kr. dýrari. — Þetta er sem sagt úthlutun fjárhagsráðs. Ef bændur fengju að ráða, mundu þeir ekki líta við þessum vélum. En þörfin er svo mikil, að þeir neyðast til að kaupa þær, þar sem komið er í veg fyrir, að þeir fái aðrar miklu betri. Það var þess vegna ekkert ofsagt í því hjá hv. þm. Str., að enn verði að fá að vera frjálsir að því, hvað þeir kaupa.

Hæstv. fjmrh. talaði um það, að við yrðum að „mjaka okkur áfram meðan unnt væri.“ Það er nú svo, að á meðan stj. fylgir ekki annarri fjármálastefnu, þá verður ekki komizt hjá því að leggja á skatta. Og þessi skattur er sjálfsagður, og ég vil láta í ljós, að ég er þakklátur fyrir, að þetta frv. er fram komið, og ég undrast það eitt, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki sjá nauðsyn þess þegar um áramót. Og það gleður mig, að dm. hafa nú séð það, sem þeir sáu ekki þá, er nafnakall gekk um svipaða till., er þeir töldu óþarfa og felldu. Hins vegar er það vitanlegt, að benzínskatturinn kemur hart niður á framleiðslunni. Hefði frv. okkar 3. landsk. um landsverzlun með benzín og olíu verið samþ. á sínum tíma, hefði verið hægt að lagfæra það. En síðan er búið að láta tugi milljóna í fjárfestingu til þess að dreifa olíum og benzíni um landið frá þremur aðilum, sem allir eiga tanka og geyma á sömu stöðunum, en möguleikar að selja mismunandi litt benzín við mismunandi verði eða hafa mismunandi verð á benzíni eftir því, hvort það fer til óþarfaeyðslu eða til notkunar í þágu framleiðslunnar. Hefði verið horfið að okkar ráði um einkasölu á benzíni, hefði þetta verið vandalaust. En nú standa benzíntankarnir úti um landið, kannske 3 á sumum stöðunum, hver við hliðina á öðrum og allt er skipulagslaust. En e.t.v. mætti láta eitt félagið selja þessa tegundina og annað hina, með því að knýja þau inn í eins konar samlag, það gæti komið til athugunar. En eins og þessu fyrirkomulagi er nú háttað, er ekki hægt að koma við misjöfnu verði. En ég vil þakka ríkisstj. fyrir þá yfirbót, sem hún gerir með ákvæðum þessa frv. fyrir það skemmdarverk, sem Sjálfstfl. og sósíalistar gerðu gagnvart brúasjóðnum, er þeir lögðu hann niður, því að nú er hann tekinn upp aftur, og þá koma möguleikar til þess að koma upp slíkum mannvirkjum, eftir því sem í sjóðinn safnast.

Þá vil ég minna á það, að það var komið svo fyrir tveimur árum, að talið var alveg nauðsynlegt, vegna millilandaflugs hér yfir landið, að hafa annan toll á flugvélabenzíni en því, sem fer til venjulegrar eyðslu í landinu. Það var litið svo á, að flugvélarnar mundu þá velja aðrar leiðir, ef benzín væri miklu hærra, tollað hér en annars staðar. Því var ákveðið, að; hækkun, sem þá var gerð í tollinum um 4–5 aura, skyldi ekki ná til flugvélabenzíns. Afleiðingin hefur orðið sú, að millilandaflugvélar hafa mjög aukið ferðir yfir okkar land. Ég vil því biðja hv. n. að athuga þetta, hvort vogandi. sé að hækka tollinn á flugvélabenzíni vegna millilandaflugsins.

Að öðru leyti mun ég fylgja þessu frv., — en sem sagt, ég tel, að athuga beri þetta með flugvélabenzínið og eins hitt, hvort hægt væri að selja benzín með tvöföldu verði, en þá mætti skatturinn vera meiri og ekki hækka. um 22 aura, heldur um 60–70 aura á benzíni til lúxusbíla. Enn fremur tel ég, að athuga beri af n., hvort möguleikar séu á að selja benzín líkt og áburð með sama verði um land allt. Það væri mjög æskilegt, væri það mögulegt. Það hlýtur að liggja fyrir hjá olíufélögunum, hve mikið benzín hefur verið selt frá hverri stöð og við hvaða verði, og ætti að verð auðvelt reikningsdæmi að leysa, hvaða meðalverð þarf að fá. En með þessu mundi vera mjög létt á vörubílunum fyrst og fremst, sem annast flutninga út um landið, því að verðmunur allur hvílir þyngst á þeim, en með því að jafna verðið, má flytja þungann yfir á fólksbifreiðarnar, sem eru flestar hér í Rvík og benzínið hér ódýrast í landinu.

Þetta þrennt vildi ég benda n. á til athugunar, enda þótt málið sé flutt af n., og vona, að hún taki þetta til athugunar á milli 1. og 2. umr.