07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér hefur verið bent á, að orðalag b-liðar 4. gr. frv. væri ekki nógu ótvírætt, en það hljóðar þannig:

„Til viðhalds og umbóta akvegum skal verja fjárhæð, sem svarar 21 eyris innflutningsgjaldi af hverjum lítra af benzíni og tekjum samkvæmt b-e-lið 1. gr.

Mér var bent á, að þetta kynni að verða skilið þannig af einhverjum, að til vegaviðhalds og umbóta á akvegum mætti ekki verja meiru, — að það væri takmarkað við þetta. En með því að það var ekki meining mín, þegar frv. var samið, vildi ég umbæta þetta orðalag þannig, að fyrir orðin „skal verja“ komi orðið:

renni. Þá mundi liðurinn hljóða þannig: Til viðhalds og umbóta akvegum renni fjárhæð, sem svarar 21 eyris innflutningsgjaldi af hverjum lítra af benzíni og tekjum samkvæmt b- e- lið 1. gr. — Þá getur enginn misskilið þetta þannig, að aldrei megi yfir þessa fjárhæð fara. Mun ég leggja fram við þetta skriflega brtt., til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni.

Eins og hv. frsm. benti á í sambandi við flugvélabenzínið, stendur 7. gr. óhögguð í þessu frv., eða réttara sagt: Þó að þetta frv. verði samþykkt, stendur 7. gr. l., eins og hún hefur verið í l. frá 1932, óbreytt. Og það er ekki tilætlun stj. að breyta neitt til að því er skattlagningu á flugvélabenzín snertir.

Að því er snertir aðrar undanþágur, sem hv. þm. Str. minntist á, vil ég taka fram, að ég get ekki lýst yfir öðru en því, að hafður verður hinn sami háttur á og hingað til gagnvart framkvæmd 7. gr. l. frá 1932. Stendur ekki til að breyta þar neitt um, og sú framkvæmd þeirra laga, sem átt hefur sér stað; mun þess vegna eiga sér stað framvegis meðan ég hef umsjón með þeim málum. — Ég vænti þá, að þeir, sem bera það fyrir brjósti, að flugvélabenzín falli ekki undir þetta, geti látið sér nægja það, sem fram hefur komið í þessu efni, og að d. fallist á þá brtt., sem ég ætla nú að afhenda hæstv. forseta.