07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég tel, að maður sé ekki síður skyldugur til þess að leiðrétta sín eigin orð en annarra, ef maður kemst að þeirri niðurstöðu, að þau gætu verið réttari á annan veg, en þau voru mælt. Á ég við það, að þegar ég talaði um þetta mál í gær og talaði um, hvers vegna þetta frv. væri borið fram, komst ég víst svo að orði, að það væri flutt vegna illrar nauðsynjar. Ég sagði það þá og tel það að vísu rétt hvað frv. snertir að nokkru leyti, en ekki að öllu leyti, því að þótt benzínskatturinn sé hækkaður vegna skemmti- og sællífistækja, lúxusbílanna, tel ég það ekkert illa nauðsyn, og ríkissjóður þarf alltaf tekjur, svo að ég álít það ekki illa nauðsyn, þó að benzínskatturinn sé hækkaður þar. En það var hitt atriðið, sem ég minntist á í gær og vil nú aðeins hafa orð á aftur, þó að það verði kannske þýðingarlaust, og það er sá hluti benzínskattsins, sem lendir á nauðsynjatækjum, þ.e. búvélum og flutningavélum og fleiri tækjum, sem flest eru hin mestu nauðsynjatæki, og tek ég t.d. mjólkurflutninga til neyzlu höfuðstaðarbúa. Ég tel það því mjög mikil vandræði, ef ekki er hægt að koma í veg fyrir hækkun á benzínskattinum gagnvart þessum aðilum, því að það bitnar auðvitað á neytendum ekki síður. Ég skal nú ekki eyða fleiri orðum á þetta, en ég vil þó skjóta því til hv. n. og hæstv. ráðh., sem hvort tveggja eru af góðum vilja gerð, hvort ekki sé hægt að flokka þessa skatta nánar. Maður verður vitanlega spurður að þessu af viðkomandi aðilum, og þá er bezt að vita ákveðið, hvort þetta hafi ekki verið athugað og þá, að það sé ekki hægt.

Ég vildi láta þetta koma fram á þessum fundi og helzt að fá svör við því, hvort þetta sé gerlegt eða ekki.