07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls nú á þessu stigi. Ég mun fylgja þessu frv. af eftirgreindum ástæðum, þótt ég hefði kosið að hafa það mun ýtarlegra. Í fyrsta lagi tel ég þetta vera mjög réttláta skatta og tel það lýsa smásálarskap og takmörkuðu hyggjuviti að leggjast á móti þeim. Í sambandi við þetta vil ég taka fram, að þótt hæstv. ríkisstj. sæi sér ekki fært að hafa framlagið til vegasjóðs nema 4 millj., en við í fjvn. lögðum til, að það væri 7 millj., þá hefur hún nú hækkað það um 2 millj. og 600 þús. Einnig vil ég benda á, að hæstv. ríkisstj. hefur hækkað framlag til brúasjóðs um 400 þús. kr. Þetta sýnir, að brýn þörf er fyrir þennan skatt, og mér er næst að segja, að hlutaðeigendur fái hann fyllilega goldinn aftur með bættum vegum og fleiri brúm. Ég hygg, að það sé af miklum misskilningi, þegar fulltrúar dreifbýlisins hér á þingi eru að berjast fyrir því, að umbjóðendur þeirra greiði ekki þennan skatt af landbúnaðarvélum. Ég vil spyrja þessa hv. þm., hvort þeir vildu heldur litlar eða engar samgöngubætur í dreifbýlinu og hafa landbúnaðarvélarnar undanþegnar skatti eða samgöngubætur og skattlagt benzín til vélanna? Mér er kunnugt um, að jafnvel hérna á Suðurlandsundirlendinu þurfa margir bændur enn að flytja mjólkina á hestum, stundum langar leiðir, að vegunum. Það er því skammsýni að vilja ekki hækka skattinn á framleiðslunni einnig, því að miklu þægilegra er fyrir bændur að bera töluvert hærri skatt á benzínið sem ætlaður er til vegagerða, heldur en að vera vegalausir. Mér finnst því að þessi skattur eigi að koma jafnt á öll þessi aktæki og tel, að allar þessar tekjur, sem ríkissjóður fær af benzíni, bílum, gúmmíi og þvíumlíku, eigi að renna óskiptar til vega- og brúargerða, en heldur ekki meira. Væri þá ákveðin upphæð, sem ekki þyrfti um að deila, ætluð til þessara þarfa. Það er mjög eðlilegt, að ökutækin sjálf séu látin bera þennan kostnað, því að eftir því sem betri eru vegirnir, þeim mun minna slit á bílnum og minni eyðsla á benzíni. Þetta er gert t.d. í Englandi. Þar hafa þeir byggt upp alla sína steinsteyptu vegi vegna þvílíkra skatta og eru aldrei í vandræðum með framlög til vegabóta.

Hv. þm. Str. lagði að jöfnu að leggja þennan toll á ökutækin eins og farið væri að leggja slíkan toll á hráolíu til bátaútvegsins. Þetta er hinn alvarlegasti misskilningur, því að vegir bátanna sjórinn, verða ekkert sléttari, þótt tollur sé þar á lagður. Alveg það sama gildir um toll á flugvélabenzíni.

Út af þeim orðum, sem féllu við 1. umr. og snerta afgreiðslu fjárl., mætti halda margar og langar ræður. Ég vil aðeins benda hv. þm. Str. á, að þegar atkvgr. fór fram um sparnaðartill. n., voru felldar till. upp á 1 millj. og 550 þús., og var það gert með miklu og öruggu fylgi hv. Framsfl.

Þá hafa þeir framsóknarmenn borið fram kröfur til hækkunar á fjárl., sem nema hátt á aðra milljón. Mér þykir það því næsta hart, að þessi hv. þm. skuli ráðast á afgreiðslu fjárl., þar sem hans menn hafa sannarlega átt sinn drjúga þátt í því, að hækka þarf skatta til þess að koma þeim saman. Mér dettur samt ekki á hug, að hv. þm. Str. vilji láta fjármál þjóðarinnar komast í algert öngþveiti, en er mjög hissa á því, að hann skuli láta háseta sína gera slíkt sem þetta.

Ég vildi þá aðeins benda á út af till. frá hæstv. ráðh., sem að vísu er tekin aftur til 3. umr., þar sem gert er ráð fyrir, að í stað orðanna „skal verja fjárhæð“ komi „renni fjárhæð“, hvort hv. fjhn. vill ekki athuga þetta nánar. Ég mundi fella mig mun betur við, að þessu yrði alveg sleppt, þannig að b-liður 4. gr. yrði þá þannig: Til viðhalds og umbóta akvegum, sem svarar 21 eyri o.s.frv.

Ég skal svo ekki ræða þetta nánar, en ég vil láta það koma skýrt fram, að ég tel rétt, að í framtíðinni verði öllum tekjum, en ekki meiru, af benzíni, bílum, gúmmíi og þvíumlíku varið til viðhalds og uppbyggingar vega og brúa.