07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég heyri það, að menn eru farnir að tala um fjárl. og ég býst við, að mönnum fari að leiðast undir slíkum umr. nú. Hér liggja fyrir 3 stórmál, sem d. er að reyna að koma áfram, og ef þessum umr. heldur áfram, þá verður mér ekki rótt í sætinu.

Hv. þm. Barð. var að beina því til mín sem form. n., að athuguð væri milli umr. 4. gr. frv., sem hann tók til, b-liður. N. er búin að afgr. málið frá sér, og þar að auki skildist mér, að ætlunin væri að koma málinu út úr d. í dag, svo að ég get vel gefið skýr svör um það, hvað mig snertir, að ég mun ekki kalla saman fund til að ræða þetta atriði, nema fyrir liggi skrifleg brtt. frá hv. þm. um þetta efni.

Þá er það út af því, sem hv. 1. þm. N–M. (PZ) sagði, að n. hefði ekki látið álit sitt í ljós um tvö atriði. Annað atriðið var um jafnaðarverð á benzíni um land allt, en hitt atriðið var um svokallað benzín með tveimur litum, til þess að hægt væri að hafa betra eftirlit með sölu á benzíni með tvennu verði. Á fyrra atriðið var a.m.k. minnzt í n. Ég get ekki sagt, að það hafi komið mikið til umr., því að n. hefur ekki fundið hvöt hjá sér til þess að koma með till. í þessa átt og um hvorugt atriðið. Ég vil upplýsa það, að í sambandi við jafnaðarverð á olíu í landinu, þá tel ég, að það þurfi ekkert lagafyrirmæli til þess að framkvæma slíkt. Þetta er hrein verðlagsframkvæmd, sem hefur fordæmi í verðlagningu á olíu á undanförnum árum, þar sem t.d. hráolía hefur verið seld með jafnaðarverði um land allt, að vísu með nokkuð mismunandi verði á ýmsum stöðum, en að ákaflega miklu leyti jafnað samt sem áður, eins og þeir vita, sem hafa fylgzt með olíuverðinu, þar sem olíuverðið var hér í höfn 20 aurar, en var selt á Norðurlandi á 51 eyri, ef ég man rétt. Ég álít þetta atriði út af fyrir sig hreint framkvæmdaratriði, sem ekki þurfi að setja sérstaka lagastafi um. Ef ríkisstj. hefur áhuga fyrir því, að slík framkvæmd verði gerð, þá er henni innan handar að koma henni á. Ég verð því að beina því til hv. þm., að ef hann vill, að þessi atriði komi fram, þá verður hann að gera sér grein fyrir því, að þau koma ekki fram í n. og að hann verður að bera fram brtt. um þetta efni, ef hann telur ekki, að þessi skýring, sem ég hef gefið á fyrra atriðinu, sé nægileg.