07.05.1949
Efri deild: 100. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 4. landsk. skal ég taka það fram, að ég skal gjarna verða við tilmælum hans að kalla n. saman, ef það er vilji d. að fresta framgangi málsins, sem mér hefur annars skilizt, að ætlunin væri að koma í gegnum allar umr. í dag. En ég vil þó benda hv. þm. á það, að þetta atriði um atvinnuréttindi bílstjóra á ekki heima í þessum lagabálki, og er fráleitt að binda saman þá hættu, sem atvinnubílstjórar segja, að atvinna þeirra sé í, og afnám benzínskömmtunarinnar. Til þess að verja stéttina fyrir offjölgun þyrfti eilíflega benzínskömmtun. Hins vegar er rétt að athuga, hvað unnt er að gera til þess að verja réttindi þessara manna.