09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hefur fengið afgreiðslu í Ed., er flutt fyrir hönd fjmrh. af fjhn. þeirrar d. Efni frv., sem er breyt. frá l., er um hækkun á benzínskatti í 31 eyri hvern lítra, eins og segir í 1. gr. — 4. gr. ákveður, hvernig verja skuli þeim tekjum, sem með þessu er aflað, þannig að viss hluti rennur í brúasjóð og hitt í viðgerðir og umbætur á akvegum. — 1. og 2. gr. eru samhljóða og í l. nr. 27 frá 1947. 3. gr. fjallar um innheimtu á bifreiðaskatti, eins og segir í aths. með frv. eins og það var upphaflega lagt fyrir Alþ. — 4. gr. frv. er samhljóða 8. gr. í l. nr. 84 frá 1932, en hún var felld niður með lagabreyt. 1947. — Þá er ákvæði til bráðabirgða, sem kveður svo á, að næsta bifreiðaskattsár sé frá 1. apríl 1949 til 31. des. 1949, að báðum dögum meðtöldum. Fyrir því verður skatturinn á þessu skattári aðeins þrír fjórðu af því, sem það er venjulega. Eins og kunnugt er, greiðist bifreiðaskatturinn eftir á og er því innheimtur 1. apríl frá næsta 1. apríl á undan.

Ástæðan fyrir þessari hækkun er fyrst og fremst þörf ríkissjóðs fyrir fjármagni og ekki hvað sízt hin vaxandi þörf fyrir fjármagn til viðhalds á vegum, sem hefur vaxið mjög við aukinn fjölda ökutækja. Skatturinn 4–5 aurar nam á s.l. ári krónum 3.596.336,71 og mun benzínnotkun þá hafa verið um 40 milljón lítrar. Þar sem innflutningur benzíns fer nú vaxandi, má gera ráð fyrir, að benzínskatturinn nemi um 12,4 millj. árlega, þegar búið er að hækka hann. Þá er gert ráð fyrir í fjárlfrv., að bifreiðaskattur, þar með talið gúmmígjald, nemi 3,5 millj., eða samtals 15,9 millj. Þar frá dragast 2 millj. í brúasjóð og 2 millj., sem enn er óráðstafað. Þá verða eftir 11,9 millj., sem samsvarar nokkuð viðhaldskostnaðinum, en hann fer nú vaxandi, eins og segir í grg., og var mestur 1947, 13.9 millj., en 11,7 millj. 1948. Nú var gert ráð fyrir 9 millj. þegar fjárlfrv. var lagt fyrir, en vegna þeirrar reynslu, sem fengizt hefur, liggur fyrir brtt. um að hækka það framlag um 2 millj., svo að það verður alls 11 millj. og er það ekki of mikið í snjóavetrum, en þá vex viðhaldið mikið. Þegar svo horfir, að vegaviðhald vex svo og framlag til nýbyggingar vega, þá eru engin undur, þó að hækkað sé verð á benzíni, þar sem benzíneyðsla stendur í beinu sambandi við slit á vegum. Og ef nú þessar 11 millj. kr. bætast við fé það, sem ætlað er til lagningar nýrra þjóðvega, þá er þar um 18 millj. kr. að ræða í vegaviðhald og vegalagningar. til slíkra framkvæmda sem hér um ræðir þarf mikið fé, og eru þó brúargerðir ekki taldar hér með. Á það hefur verið bent, að benzínverð er lægra hér, en í nálægum löndum, sem hafa þó járnbrautirnar sem samgöngutæki auk bílanna. Þeir hafa nokkuð til síns máls, sem segja, að skatturinn ætti að standa undir viðhaldi veganna og að einhverju leyti undir lagningu nýrra vega. Brúarsjóður var numinn úr gildi árið 1947, en nú er aftur ætlazt til, að nokkur hluti af benzínskattinum renni til brúasjóðs.

Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að þdm. skilji, hvílík nauðsyn ríkissjóði er á fé til slíkra framkvæmda og leyfi því, að málið nái fram að ganga.

Sú aths. var gerð við þetta í Ed., hvernig færi með undanþágu til flugvéla, en lög nr. 84 frá 1932 eru ekki hreyfð með þessu frv. Í þeim l. eru, ákvæði um það, að skatturinn skuli greiddur aftur, ef sannað er, að benzínið sé ekki notað til bifreiða, en framkvæmdin á þessu hefur verið sú, að skatturinn hefur aldrei verið innheimtur af flugvélabenzíninu, og þannig mun það verða framvegis. Af flugvélabenzíni er aftur á móti goldinn tollskrárskattur og svo sérstakur flugvallarskattur, er flugráð innheimtir, en um það er ekki getið hér.

Ég mælist svo til þess, að hv. þd. flýti þessu máli, þar sem ég þykist þess fullviss, að meiri hl. þdm. vilji gera frv. að 1., því það er ætið svo, að þegar hækka á skatt á vöru, sem brúkuð er daglega, er bezt að flýta því sem mest, svo að menn geti ekki safnað að sér óeðlilega miklum birgðum af vörunni. Ég vænti þess svo, að umr. sé lokið um málið og að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.