09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv., sem er á þskj. 644, er til breyt. á eldri lögum, aðallega um hækkun á benzíni eða skatti á því um 22 aura lítrann. Ríkissjóð vantar nú tekjur, og fyrir því er gripið til þessa ráðs. En ég tel, að á þessu sé mikill galli, því að þetta komi svo misjafnt niður á landsmenn. Vitanlega nota allir landsmenn benzín, en þó misjafnlega mikið, og fer það aðallega eftir staðháttum. Sumir verða að byggja alla aðflutninga sína á benzíni, og kemur þetta því mjög hart niður á þeim. Þannig er það t.d. í mínu kjördæmi. Ég hef að gamni mínu gert yfirlit yfir það, hverju þessi skattur mundi nema hjá okkur Vestur-Skaftfellingum, og tek 3 bíla, sem eru í keyrslu fyrir Kaupfélag Skaftfellinga. Mundi þessi skattur nema sem hér segir:

Hjá Z–10 kr. 3.330.00, Z–15 kr. 3.735.00 og Z—30 kr. 3.007.00 beinn útgjaldaauki.

Að meðaltali er þessi útgjaldaauki 3.660 kr. Þeir, sem reka fleiri bíla við svipaðar aðstæður, verða því mjög tilfinnanlega fyrir þessum útgjöldum. T.d. félag, sem rekur 10 bíla, mundi þurfa að greiða aukin útgjöld, sem nema um 3.342 þús. Nú fylgist það einnig að, að benzín hjá okkur er dýrara, en annars staðar á landinu, því að í yfirliti Olíufélagsins, þar sem getið er um benzínverð á landinu, sést, að í Rvík er það selt á 72 aura lítrinn, en hæst er það hjá okkur, eða 91 eyrir lítrinn. Þetta sýnir, að Olíufélagið miðar verðið við lengdina, þannig að þangað sem erfiðast og lengst er að koma því, þar er það dýrast, og það er hjá okkur. Til þess að draga nokkuð úr þessu misrétti, hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 669, þar sem ég legg til, að aftan við 2. gr. bætist ný málsgr., svolátandi:

„Af innflutningsgjaldi því, sem um ræðir í 1. gr. a-lið, skal endurgreiða eigendum vöruflutningabíla 10 aura á hvern lítra benzíns, sem þeir færa sönnur á að hafa keypt til rekstrar vörubíla sinna á þeim útsölustöðum, þar sem benzínverð er hærra, en lægsta útsöluverð benzíns á landinu á sama tíma.

Endurgreiðslan skal þó aldrei vera meiri en svo, að benzínverðið, að frádreginni endurgreiðslunni, verði jafnt verðinu á þeim útsölustöðum, þar sem það er lægst.“

Þetta er spor í rétta átt til þess að leiðrétta það misræmi, sem er í benzínverði landsins, og vona ég, að þm. sjái sér fært að verða við þeirri ósk minni að samþ. þessa brtt.