09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af brtt. á þskj. 669 vil ég benda hv. n. á það, að ef hún yrði samþ., yrði allstórt skarð höggvið með því. Hér er um að ræða marga, sem þættust kaupa benzínið hærra verði og hefðu keypt, ef þetta gat væri skilið eftir í l. Og ég vil benda hv. flm. á það, að með þessu. frv. er ætlazt til þess að fá ákveðnar tekjur í ríkissjóð, þó að seint komi, og með þessum tekjum á að standa undir gjöldum úr ríkissjóði, sem þessir flm. eru samþykkir, að greidd séu. Og það er ekkert samræmi í því, þegar þeir viðurkenna, að þeir vilji eyða svo og svo miklu í þetta eða hitt, og svo hinu, að þegar búið er að koma með till. um tekjur til þess að geta gert það, sem þeir æskja eftir, að gert sé, að fleygja þá fram brtt., sem gera þetta ónýtt.

Þessi skattur, þó að hár sé, gerir ekki betur en að fylla nokkuð af því, sem vantar til þess, að fjárl. standi. Það hefur verið stungið upp á verðjöfnunarleið, en ég held, að þetta sé ekki rétta leiðin, og þess vegna er ég því mótfallinn, að till. verði samþ. Það væri miklu betra að fara og tala við stjórnir olíufélaganna og vita, hvort þær geta ekki bætt úr þessu.

Mér hefur skilizt, að hækkunin ætti að vera meiri, en hún í raun og veru er, einkum þegar þess er gætt, hvaða verkefni henni er ætlað að sinna.

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) var að tala um vaxandi dýrtíð, sem ég veit, að á sér stað í dag og átti sér stað í gær, en hún átti sér ekki síður stað, þegar hann og flokkur hans fór með völd í landinu. Hitt má með sanni segja, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að stöðva þessa hringrás dýrtíðarinnar, en hún á rætur sínar dýpra að rekja, en hv. þm. vildi vera láta. Í blaði hans var frá því skýrt, að ríkisstj. væri nú með 30–40 millj. kr. nýjar skattaálögur. En það, sem skeð hefur er, að tóbak og brennivín er hækkað. Allt í einu er þessi flokkur orðinn á móti því, að tekjurnar séu teknar af þessum vörum. Ég játa það, að ég hef ekki haft neina sérstaka ánægju af því að hækka þetta, en það var nauðsynlegt. Sama er að segja um benzínið. En hvaða skatta er hægt að leggja á án þess að þeir snerti einhvern? Hann minntist á olíufélögin; við hefðum farið þá leið að láta ekki olíufélögin, sem hefðu af nógu að taka, bera þetta, heldur almenning. Ef verðlagsyfirvöldin inna sína skyldu af hendi og eru fær um það, þá ætlast ég til, að olíufélögunum sé ekki hlíft við þessum skatti og sé ekki leyft að selja með svo ósvífnu verði. Ég vil að minnsta kosti ekki gera ráð fyrir því að óreyndu. Og þó að þetta kunni að koma þungt niður, kemur það a.m.k. ekki of þungt niður í sumum tilfellum. Það ætti hv. þm. að vita, sem talað hefur manna mest um lúxusbíla og lúxuskeyrslu, bæði í blöðum og hér í þingsalnum. Nei, benzínskatturinn er miklu réttlátari, en margt annað. Annars þætti mér það náttúrlega kærast að þurfa ekki að koma með neinar till. um skatta, en þá yrðu líka hv. þm. að koma með einhverjar till. til lækkunar á útgjöldum fjárl., því að þá væri hægt að láta kyrrt liggja að gera tolla- og skattahækkanir. En meðan hv. þm. gera það ekki, er það leiðinleg, en óhjákvæmileg skylda að koma með einhverjar tekjuleiðir til þess að mæta útgjöldunum.