09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú talað á móti brtt. okkar hv. þm. V-Húnv. (SkG) og talaði um, að þar væri hróflað við ákveðnum tekjustofni og vildi gera mikið úr því, hve þessi till. rýrði þennan stofn. Ég lít hins vegar svo á þetta mál, að þetta yrði ekki til þess að rýra þennan stofn sérlega mikið, því að mikið af benzíni og mestur hluti þess er keyptur í Rvík og annars staðar, þar sem verð er það sama og þar, og mér er kunnugt um það, að lúxusbílar fara með mikið benzín, og kemur ekkert af þessu til frádráttar. Það er hins vegar alveg rétt, að þetta mundi rýra tekjurnar um nokkra tugi þúsunda, en það er þó ekki nema réttlætismál, þar sem um mikinn aðstöðumun er að ræða.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að það kæmi til tals að semja við olíufélögin um verðjöfnun, en ég lít svo á, að úr því geti ekkert orðið, að þau taki upp hjá sér verðjöfnun, því að ef ég hefði átt von á því, hefði ég ekki borið upp þessa brtt., og þrátt fyrir till. hefðum við orðið að borga 10 aurum meira fyrir benzínið hjá okkur, en þeir hérna á lúxusbílana sína hérna í Rvík, en till. er blátt áfram spor til verðjöfnunar.