09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera örstutta aths. við það, sem hæstv. fjmrh. sagði. Ég vil leiðrétta það, að Sósfl. hafi farið með völdin og enn fremur það, að hann eigi sök á dýrtíðinni. Ég held, að dýrtíðin hafi vaxið með hægasta móti meðan sósíalistar áttu sæti í ríkisstj., en þá fyrst kom kraftur í þann vöxt, þegar núv. ríkisstj. tók við. Og ég verð að segja það, að núv. ríkisstj. er sérstaklega fundvís á álögur, sem sleppa þeim auðugustu í landinu, en kemur í staðinn niður á þeim fátækustu. Ég treysti ekki verðlagseftirlitinu, þegar í baráttuna er komið við olíuhringana, en það hefði þurft harða baráttu við olíuhringana, til þess að þeir gengju ekki á hlut almennings í landinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri rétt að hækka benzíntollinn. Þá komum við að því, á hvern álagningin eigi að vera. Benzínskatturinn er nú lagður á bændur, sem nota bíla til að flytja afurðir sínar, og á atvinnubílstjóra, sem lifa á því að flytja fólk og vörur. Hins vegar væri hægt að hafa skattana þannig, að þeir hittu þá, sem eiga lúxusbílana. Það er ekkert hægara, en að leggja á bifreiðaskatt, sem er hæstur á dýrustu og fínustu bílategundunum og því hærri skatt, því nýrri sem þeir eru, svo að þeir, sem fá nýjar bifreiðar og nota þær til að leika sér, beri mjög háan bifreiðaskatt, en skatturinn lækki, því eldri sem bifreið er og að miklu minni skattur sé á litlum bílum og öðrum slíkum, sem ekki er hægt að telja lúxusbíla. Það er vel hægt að koma bifreiðaskatti þannig fyrir, að hann lendi fyrst og fremst á þeim, sem ríkastir eru, ef hæstv. stj. hefði hugsað um það, en hún bara vill ekki gera slíkt. Hún hugsar þetta ekki nema sem álögur á almenning.

Svo vildi ég að síðustu segja nokkur orð út af þeim brtt., sem liggja hér fyrir og því, sem hæstv. ráðh. sagði í því sambandi. Ég vil vekja athygli á einu, sem ég álít, að hér verði að athuga. Það er vissulega hægt að framkvæma jöfnun á verðinu, en aðeins af hálfu verðlagseftirlitsins með verðjöfnun á þann hátt, að leyft sé að leggja á í Rvík meira en sem nemur skatthækkuninni, en minna út um sveitir, en það er hlutur, sem ekki mætti gera, það er óréttlátt. Það mundi þýða það, að þessi skattur yrði enn þá hærri, en ætlazt er til í þessu frv. á þeim, sem nota benzín í kaupstöðum, t.d. í sambandi við flutning á fiski og öðrum vörum, svo að ég álít, að ef svona till. yrði samþ., þyrfti að setja þá brtt. inn í frv., að það væri bannað að hækka benzínverð á nokkrum stað um meira en það, sem nemur skatthækkuninni, því að það væri óréttlátt og það sama og að ýta skattinum yfir á bæina. Ef það ætti að gefa eitthvað sérstakt eftir í þessu sambandi, t.d. bændum, sem erfiðasta og lengsta leið eiga að sækja og hafa því við mesta erfiðleika að stríða, þá verður ríkið að gera það sem slíkt og minnka þá tekjur sínar að sama skapi. Það gengur ekki að láta þá, sem nota benzín í bæjunum almennt, borga slíkt. Ég mun athuga það í sambandi við framhald málsins, ef samkomulag fengist um slíka brtt., ef sú till. yrði samþ., sem fram er komin.