10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er ekki búið að útbýta enn þá nál. minni hl. Kom ég því þó til skila, strax og fundi lauk hjá okkur í fjhn., þannig að það er ekki mín sök, þó að það sé ekki komið. Þykir mér slæmt, að málið skuli vera tekið fyrir áður en það er komið, því að ég lét prenta sem fylgiskjöl álit, sem komu til Alþ. frá félögum bifreiðaeigenda í landinu viðvíkjandi þessu máli. — Ég vil þá í fyrsta lagi gera að umtalsefni afstöðu mína til þessarar hækkunar, sem farið er fram á og ég minntist á við 1. umr. málsins.

Um það er í fyrsta lagi það að segja, að þessi hækkun, sem ríkisstj. leggur hér til, að framkvæmd verði á innflutningsgjaldi af benzíni, kemur óhjákvæmilega til með að lenda að miklu leyti á almenningi í landinu. Það er vitað, að kostnaður við atvinnurekstur, kostnaður við landbúnaðarframleiðslu og flutning á mjólk og ýmsu öðru kemur til með að hækka við þessa álagningu. Og verði þá þeir einstaklingar, sem fyrst koma til með að borga þennan skatt, bílstjórar, bændur og aðrir, ekki látnir bera byrðarnar, verður þeim velt yfir á almenning í landinu, sem verður svo til þess að skapa vaxandi dýrtíð. Það er augljóst, að með þessu er verið að auka dýrtíðina í landinu, þvert á móti því, sem ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún ætlaði að vinna á móti dýrtíðinni. Þar sem ég hef gert þetta áður ýtarlega að umtalsefni, að ríkisstj. reki ranga fjármálapólitík með þessari hækkun á skattinum og þyngi þannig álögur á almenning í landinu, ætla ég ekki að gera það frekar að umtalsefni, en vil taka fram, að það er fyrsta ástæðan til þess, að ég er á móti þessu frv. og legg til, að það verði fellt.

Að öðru leyti kemur þessi skattur, að svo miklu leyti sem hann leggst ekki á almenning, til með að lenda tilfinnanlega á einstökum stéttum hinna vinnandi manna í landinu. Bændur, sem hann kemur vafalaust til með að lenda hart á, eiga hér sína fulltrúa, sem ég býst við, að komi með kröfur frá þeirra hálfu, og mundi ég álíta þau mótmæli eðlileg. Hins vegar hafa þeir lakari aðstöðu til þess, en aðrar stéttir vinnandi manna að mótmæla í krafti sinna samtaka slíkri álagningu. Það hafa hins vegar þær stéttir, sem ég gat um sérstaklega, gert. Það lágu fyrir n. og liggja fyrir Alþingi sameiginleg mótmæli frá félögum bifreiðaeigenda. Ég vil leyfa mér, fyrst málið er tekið svona snemma fyrir, að lesa hér nokkuð upp úr því áliti, sem bifreiðastjórafélagið Hreyfill segir um þetta mál. Eftir að hafa lýst þeirri hækkun, sem nú þegar hefur verið framkvæmd í tíð núv. stj. á rekstrarkostnaði fólksbifreiða vegna laga, sem sett hafa verið af Alþ. s.l. tvö ár, segir, að þessi rekstrarkostnaður nemi:

„Vegna lagasetningar á árinu 1947 kr. 3.000.00 Vegna lagasetn. í ársbyrjun 1949 — 4.834.89 Vegna fyrirhugaðrar hækkunar nú — 1.909.00“ Þetta gerir hvorki meira né minna en kr. 9.743,89 á hverja fólksbifreið.

Og síðar segir félagið í þessu sambandi: „Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill telur það hina mestu óhæfu, að þegar skattar eða tollar eru hækkaðir, þá skuli hækkanirnar alltaf vera látnar verka þannig, að þær komi þyngst niður á launþegunum, sem hafa takmarkaðar tekjur, svo og, að þegar slíkar hækkanir eru gerðar, skuli þær ávallt koma þyngst niður á atvinnubifreiðarstjórum og á tekjur þeirra með fimm- til sexföldum þunga, miðað við aðrar stéttir. Þetta á þó alveg sérstaklega við um leigubifreiðastjóra á mannflutningabifreiðum, en þeim er nú gert að greiða hærra gjald af bifreiðainnflutningi en til dæmis vörubifreiðastjórum og innflytjendum jeppabifreiða. Bifreiðastjórafélagið Hreyfill telur þetta vera hámark þeirra aðgerða ríkisvaldsins, sem virðast miða að því að útrýma atvinnubifreiðastjórum sem stétt, og vítir Hreyfill harðlega þau sjónarmið ríkisvaldsins að mismuna þegnunum eftir því, hvar í stétt þeir standa. Félagið telur, að við slíkt verði ekki öllu lengur unað, því að með slíku fyrirkomulagi er atvinna leigubifreiðastjóra algerlega dauðadæmd, vegna þess að ekki er nokkur leið til þess, að þeir geti haft kaup í þessari vinnu, sem nokkuð nálgast laun annarra stétta og þeim ber með hliðsjón af kaupi og kjarasamningum bifreiðarstjóra, sem bein laun taka.“

Síðar ræðir félagið í þessu áliti nokkuð um það, að frv. gerir ráð fyrir hækkuðu ökugjaldi, og segir um það á þessa leið:

„Enda þótt frv. þetta geri ráð fyrir, að atvinnubifreiðarstjórum skuli tryggðar með auknu ökugjaldi tekjur, sem beri uppí þessar auknu álögur, þá telur Bifreiðastjórafélagið Hreyfill það ekki rétta leið með tilliti til dýrtíðarinnar í landinu og að hætta muni vera á því, að atvinna þeirra minnki við það og tekjurnar rýrni að sama skapi.“ Og síðar segir: „Enn fremur skorar Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill á Alþingi að sjá svo um, að gerðar verði ráðstafanir til þess, a.m.k. til bráðabirgða, að leigubifreiðum til mannflutninga fjölgi ekki, vegna hins gífurlega atvinnuleysis, sem í stéttinni er um þessar mundir.“

Af þessu má sjá, að þetta félag mótmælir þessum nýju álögum mjög harðvítuglega og álítur, að þær verði til þess að rýra verulega kjör þeirra bifreiðastjóra, sem hafa af þessu atvinnu. Þeir kvarta nú þegar undan því, að atvinnuleysi sé mikið í þessu landi og að ekki megi velta þessu yfir á almenning, eins og dýrtíðin í landinu sé orðin mikil.

Þá eru hér mjög ákveðin mótmæli frá vörubílstjórafélaginu „Þrótti“. Segir þar m. a.: „Atvinnuleysi er nú þegar mjög mikið í stéttinni, og hækkun á leigugjaldinu mundi siður en svo bæta úr því, auk þess mundi sú hækkun ófrávíkjanlega auka almenna dýrtíð í landinu, sem að sjálfsögðu mundi bitna á vörubílstjórum engu síður en öðrum þegnum þjóðfélagsins.

Vörubílstjórar mótmæla því eindregið framkomnu frv. um hækkun á benzínskattinum og telja, að lífsafkoma atvinnubílstjóra hafi nú þegar verið rýrð það freklega með tollum og sköttum á nauðþurftir til bifreiða, að þar sé ekki á bætandi.“

Félag vörubifreiðastjóra hefur þess vegna líka samþykkt mjög eindregin mótmæli gegn benzínskattinum. Sýnir sig þess vegna, að tvö af þeim félögum starfandi manna í landinu, sem sérstaklega hafa atvinnu sína af bifreiðaakstri, hafa mjög eindregið mótmælt þessari aðferð, sem ríkisstj. leggur til, að höfð sé, með tilfinnanlegum álögum á þessa starfsgrein. Telja bæði félögin, að þetta mundi rýra lífsafkomu þeirra og auka atvinnuleysi í stétt þeirra, ef þeim væri gefið tækifæri til að velta þessu á aðra, þannig að hvernig sem að yrði farið, mundi það hafa í för með sér tilfinnanlega kjararýrnun fyrir þessar stéttir, ef skatturinn yrði hækkaður.

Félag sérleyfishafa tekur líka fram, að það sé mjög andstætt þessum álögum, og segir þar meðal annars:

„Svo sem augljóst má vera af því, sem að framan er sagt, getur þess ekki orðið langt að bíða, að sérleyfishafar neyðist til þess að hætta þessum atvinnurekstri vegna hinna þungu skatta og tolla, sem á hann eru lagðir.

Með tilvísun til þess, sem áður segir, leyfir Félag sérleyfishafa sér að mótmæla þessum síauknu álögum á stéttina.“

Í sömu átt fara ummæli Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, þannig að það er alveg auðséð, að þau félög í landinu, sem sérstaklega eru málsvarar þeirra manna, sem þessi skattur er fyrst og fremst lagður á, hafa sent mjög eindregin mótmæli, og býst ég þó ekki við, að ríkisstjórnin geti borið því við, að þessi mótmæli séu að einhverju leyti runnin undan rifjum stjórnarandstöðunnar hér, því að það er vitað, að stjórnin hefur ekki síður átt ýmsa fylgjendur í þessum félögum, þannig að ég býst við, að ríkisstj. verði að líta svo á, að þegar mótmæli koma frá svona félögum, sé það rödd þjóðarinnar, sem mótmælir, án tillits til flokka og hvar sem menn hafa staðið fram að þessu.

Ég minntist á það við 1. umr. þessa máls, hvort ríkisstj. hefði hugsað sér að gera nokkrar ráðstafanir til þess, að olíufélögin tækju að einhverju leyti á sig eitthvað af þeirri álagningu, sem hér er um að ræða. Það er auðséð á frv. ríkisstj., að hún gengur út frá því, að þessari byrði verði sem heild velt á þá, sem benzínið kaupa, og almenning að svo og svo miklu leyti. Það hefði verið hægt að gera ráðstafanir til þess að láta olíufélögin að einhverju leyti bera þetta, en mun litið þýða að koma fram með till. um slíkt, þar sem það fær sjálfsagt ekki góðar undirtektir hjá ríkisstj. Hitt hafði ég hugsað mér, að óþarfi væri að láta olíufélögin beinlínis græða á þessari hækkun á benzínskattinum. Það er svo, að svo framarlega sem þetta frv. verður samþ., mun að öllum líkindum bætast þar við sölugjald, þar sem líklegt er, að tilhneiging verði til þess að leyfa að einhverju leyti álagningu á menn vegna þess, að olíufélögin mundu leggja út fé vegna hækkunar skattsins og reikna kostnað sinn út frá því. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 700, sem er á þá leið, að aftan við 1. gr. komi ný mgr., svo hljóðandi: „Vegna þessarar hækkunar á innflutningsgjaldi má hvergi á landinu hækka benzínverð um meira, en þessari hækkun nemur.“ Ég sé, að e.t.v. væri heppilegt að orða þetta öðruvísi, vegna þess að 1. gr. hljóðar ekki bara um hækkun, heldur er ákveðið þar, hvernig innflutningsgjaldið skuli vera nú. Verður líklega að breyta þessari till. þannig, að segja: Vegna þeirrar hækkunar á innflutningsgjaldi, sem felst í þessari gr. samanborið við fyrri lög, má hvergi á landinu hækka benzínverð um meira en þessari hækkun nemur. — Ef þessi till. mín yrði samþ., mundi það í fyrsta lagi þýða það, að olíufélögin mættu ekki hækka benzínverð um meira en það, sem nemur hækkun á innflutningsgjaldi, sem er 22 aurar, og þess vegna mætti ekki leggja þar á neina hækkun í viðbót. Það mundi þýða, að olíufélögin græddu, ekki á þessu innflutningsgjaldi og söluskatturinn mundi að minnsta kosti koma á þau. Í öðru lagi mundi þessi till., ef samþ. yrði, hafa það í för með sér, að ekki væri hægt að hækka benzín í kaupstöðum, t.d. í Rvík og öðrum stöðum við sjávarsíðuna, um meira en næmi þeirri hækkun, sem nú yrði framkvæmd til þess að setja verðið lægra annars staðar. Ef vilji væri fyrir því að hafa það lægra annars staðar, yrði það beinlínis að vera á kostnað ríkissjóðs. Það er líka komin fram till. frá hv. þm. V-Sk. (JG) um það, að bændum í erfiðustu héruðum landsins verði gert kleift að fá benzín við lægra verði. En ég álít, að ef menn vilja verða við þeirri sanngjörnu kröfu, eigi það að verða á kostnað ríkissjóðs, en ekki, að því verði jafnað niður á bæjarbúa með því að hækka benzínið enn meira þar og auka kostnað við mjólkurflutninga og annað slíkt og auka þannig dýrtíðina í landinu. Ef ég þess vegna fengi fyrirheit frá hæstv. ríkisstj. eða stuðningsmönnum hennar um það, að framkvæmd þessarar till., ef samþ. væri, yrði á kostnað ríkissjóðs, gæti ég verið með þessari till.

Það hefur einu sinni áður tekizt að velta hækkun á benzínskatti algerlega yfir á olíufélögin. Það var hægt, þó að þau kvörtuðu. Það er enginn búmaður nema sá, sem kann að berja sér. Þau eru voldug og hafa komið ár sinni vel fyrir borð, en svo framarlega sem reynt er til þrautar, er hægt að láta þau bera nokkurn hluta skattsins og ef til vill allan, en ég vil vita, hvaða undirtektir brtt. fá, einkum till. á þskj. 700. Þá er hér till. á þskj. 697, en ég veit ekki, hvort mælt hefur verið með henni, þar sem ég heyrði ekki alla ræðu hv. 3. þm. Reykv. (AG: Ég mælti ekki fyrir henni.) Þá vil ég fara nokkrum orðum um hana. Það hefur komið fram ósk frá bílstjórafélaginu Hreyfli, að gerðar verði ráðstafanir til að bílum til fólksflutninga fjölgaði ekki frá því, sem nú er, vegna atvinnuleysis í stéttinni. Og í bréfi frá Hreyfli segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Bifreiðastjórafélagið Hreyfill telur það hina mestu óhæfu, að þegar skattar eða tollar eru hækkaðir, þá skuli hækkanir alltaf vera látnar verka þannig, að þær komi þyngst niður á launþegunum, sem hafa takmarkaðar tekjur, svo og, að þegar slíkar hækkanir eru gerðar, skuli þær alltaf koma þyngst niður á atvinnubifreiðastjórum og á tekjum þeirra með fimm- til sexföldum þunga, miðað við aðrar stéttir. Þétta á þó alveg sérstaklega við um leigubifreiðastjóra á mannflutningabifreiðum, en þeim er nú gert að greiða hærri gjöld af bifreiðaflutningi en t.d. vörubifreiðastjórum og innflytjendum jeppabifreiða. Bifreiðastjórafélagið Hreyfill telur þetta vera hámark þeirra aðgerða ríkisvaldsins, sem virðist miða að því að útrýma atvinnubifreiðastjórum sem stétt, og vítir Hreyfill harðlega þau sjónarmið ríkisvaldsins að mismuna þegnunum eftir því, hvar í stétt þeir standa. Félagið telur, að við slíkt verði ekki öllu lengur unað, því að með slíku fyrirkomulagi er atvinna leigubifreiðastjóra algerlega dauðadæmd vegna þess, að ekki er nokkur leið til þess, að þeir geti haft kaup í þessari vinnu, sem nokkuð nálgist laun annarra stétta og þeim ber með hliðsjón af kaupi og kjarasamningum bifreiðastjóra, sem bein laun taka.“

Og síðar í bréfinu: „Enn fremur skorar Bifreiðastjórafélagið Hreyfill á Alþingi að sjá svo um, að gerðar verði ráðstafanir til þess, a.m.k. til bráðabirgða, að leigubifreiðum til mannflutninga fjölgi ekki, vegna hins gífurlega atvinnuleysis, sem í stéttinni er unz þessar mundir. Hins vegar er að taka til starfa nefnd, skipuð af bæjarráði, Bifreiðastjórafélaginu Hreyfli og væntanlega af ríkisstj., sem á að gera till: um skipulag bifreiðaaksturs á leigubifreiðum til mannflutninga.“

Meiri hl. fjhn. hefur því viljað, að aftan við 3. gr. bættist ný gr., svo hljóðandi:

„Enn fremur er ríkisstj. heimilt að setja reglur um atvinnuréttindi bifreiðastjóra samtímis því, sem benzínskömmtun væri afnumin.“

Í grg. ríkisstj. er minnzt á að afnema benzínskömmtunina, og þetta félag hefur bent á vissa annmarka á afnámi hennar, ef ekkert er gert til að takmarka innstreymið í þessa stétt. Það má vera, að hæstv. ríkisstj. hafi í huga breyt. í þá átt að afnema benzínskömmtun, en meiri hl. n. þótti rétt, ef svo færi, að skömmtunin væri afnumin, að fá heimild til að verða við kröfum Hreyfils, að gerðar yrðu til bráðabirgða ráðstafanir til að hindra offjölgun í þessari stétt, svo að ekki komi til tilfinnanlegs atvinnuleysis. Að tilhlutun félagsins og bæjarstjórnar Rvíkur mun verða hafinn undirbúningur að reglugerð, og er ætlazt til þess, að hæstv. ríkisstj. taki þar þátt í.

Ég vísa síðan til þess, sem ég sagði áðan, og væri æskilegt, að hv. nm. athuguðu það. Ég hef nú gert grein fyrir brtt. þeim, sem ég flyt eða stend að. Ég segi, að ég er á móti frv., og legg til, að það verði fellt, en bar þessar brtt. fram til að laga það, ef það yrði samþ.