10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þá er komin fram fyrsta yfirlýsingin frá einum af þeim mönnum, sem á undanförnum árum hafa haft sérstaklega með verð á landbúnaðarvörum að gera og ekki hafa stundum verið smeykir við að hækka þær, þ.e. hv. 2. þm. Rang. (IngJ), um það, að þessi benzínskattur muni óhjákvæmilega leiða til þess, að mjólk hækki í verði. Ég minntist á það í ræðu minni áðan, að svona hlyti að fara. Og nú hefur sá stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., sem er allra þm. einna kunnugastur verðlagningu landbúnaðarafurða, lýst því yfir, að það sé óhjákvæmilegt, að mjólk hljóti að hækka í verði, eftir að þessi skattur hefði verið lagður á, og hefur lýst því yfir, að hann sé fyrir sitt leyti á móti frv. Nú liggur mjög nærri að spyrja hæstv. ríkisstj., sem ég býst ekki við, að efist um réttmæti þess, sem hv. 2. þm. Rang. hefur sagt, hver sé hennar hugmynd og hvort hún hugsi þá ekki neitt fram á þann tíma, að mjólk muni hækka í verði og fleiri vörur og dýrtíðin aukast. Býst ríkisstj. kannske við, að hún muni sitja lengi úr þessu? Eða lætur hún sér nægja að gera þessar ráðstafanir núna, vitandi það, að afleiðing þeirra verður vaxandi dýrtíð og gerir enn þá erfiðara að ráða við dýrtíðina á eftir? Ég býst við, að eina hugmyndin, sem vaki fyrir ríkisstj. í þessu sambandi við þessar ráðstafanir, sé þessi: Ja, við fáum þó alltaf peninga í bili í tóman ríkissjóðinn með þessum hætti, og mjólkurhækkunin kemur ekki fyrr en ofurlítið seinna, og við vinnum þá tíma á meðan. Ég býst við, að ef hæstv. fjmrh. hafa ekki verið ljósar afleiðingar þess, ef þetta verður lögfest, þá hafi hann nú fengið staðfestingu á því hjá einum sérfræðingnum í verðlagningu landbúnaðarafurða, að hans ágæti stuðningsmaður vilji nú ekki fylgja honum í þessu máli. Ég skil þetta ákaflega vel. Það er ákaflega erfitt fyrir þá menn, sem hafa með það að gera að verðleggja landbúnaðarafurðir, að greiða atkvæði með svona till. eins og hér liggur fyrir. Menn hljóta að sjá, að hér eru á ferðinni ráðstafanir, þar sem aðeins er tjaldað til einnar nætur. En það versta er þó það, að þessar ráðstafanir gera allar úrbætur erfiðari seinna meir og eru til þess eins, að ríkisstj. geti haldið áfram á sinni vitlausu braut nokkrar vikur eða mánuði enn. Og þó hefur maður það á tilfinningunni, þegar þetta frv. er rætt, að sem allra flestir úr stjórnarflokkunum vilji skorast undan ábyrgðinni. Þetta tekjuöflunarfrv. er ekki flutt sem stjfrv. Að minnsta kosti er gefið til kynna, að ekki hafi verið neitt 100% samkomulag um frv. Það er flutt af meiri hl. fjhn., eins og oft kemur fyrir, en strax og þetta frv. kemur til Ed., rís einn af formönnum stjórnarflokkanna upp á móti því, og þegar það kemur til Nd., eru fulltrúar bænda úr Sjálfstfl. og Framsfl. ýmist búnir að koma fram með brtt., sem ýmsar mundu skerða þetta verulega, eða lýsa sig algerlega andstæðinga sjálfs málsins. Það er auðséð, að farið er að hrikta í og að þeir stjórnarflokkar sem þykir þetta koma harðast niður á sínum umbjóðendum, vilja gjarnan koma sér undan ábyrgð. Mér þótti mjög vænt um þessa yfirlýsingu hv. 2. þm. Rang., því að hún staðfestir það, sem ég hef haldið fram í þessu máli, og er ein ástæðan til þess, að þm. ættu að athuga vel sinn gang. Og ef þeir væru viðstaddir hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) og hv. 1. þm. Árn. (JörB), hefði ég mjög mikla ánægju af að heyra þeirra skoðun á þessu máli, því að ef að vanda lætur, hefur það áhrif á þá, þegar svona eindregin mótmæli koma fram eins og þau, sem komu frá hv. 2. þm. Rang.

Þá minntist hv. 2. þm. Rang. (IngJ) á það, að hægt hefði verið að hafa aðra aðferð um álagningu benzínskattsins. Hann hefur sjálfur komið hér fram með till. um mismunandi verð á benzíni. Af einhverjum var sagt þá, að þetta tíðkaðist í Rússlandi og væri því óhæfa hérna. Og ég vil líka minna á það, að ég minntist á það við 1. umr. þessa máls, að líka væri hægt, ef menn vildu láta þennan skatt koma fremur á lúxusbílana, að hafa hann hærri á þeim bílum, sem notaðir eru, til skemmtunar. En þetta hefur hvort tveggja litlar undirtektir fengið, og mundi víst lítið þýða að koma fram með brtt., sem færu í þessa átt. Væri þó hægt að haga þannig bifreiða- og benzínskattinum, að hann kæmi meira niður á þeim, sem eyða til óhófs, svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. vildi hafa þann hátt á um sína skattlagningu. Nú eru komnar hér fram tvær till., önnur frá hv. 2. þm. Rang. og hin frá hv. þm. V-Sk. (JG) og hv. þm. V-Húnv. (SkG), sem báðar ganga að nokkru leyti út á það að undanþiggja bændur þessu gjaldi. Ég vil segja það, að ef fara á að greiða bændum til baka af því gjaldi, sem á að leggja á þá, fer að verða athugandi líka, hvort ekki eigi einnig að borga þeim, sem eiga vörubíla og vinna við fiskframleiðslu og fiskflutninga, einmitt þá framleiðslu, sem allt benzín er keypt fyrir.

Ég býst ekki við, að höfuðatriðið, sem nú veldur því, að ríkisstj. hefur afnumið benzínskömmtunina, sé það, að ríkisstj. áliti okkur svo miklu ríkari af gjaldeyri, en við vorum 1947. Ef það hefði verið skoðun ríkisstj., þegar þessi reglugerð var sett, hefði hún varla farið svona í þetta. Ég býst við, að höfuðástæðan fyrir afnámi skömmtunarinnar sé ekki og geti ekki verið gjaldeyrissparnaður, heldur hitt, að benzínskömmtunin hefur ekki borið árangur, og svo mun hæstv. fjmrh. vanta meira fé. Ég held því, að þessi ósk frá Hreyfli um slíka reglugerð til bráðabirgða, á meðan bæjarráð, ríkisstjórn og Hreyfill undirbúa reglugerð, sé mjög sanngjörn og sé eðlilegt að verða við þeirri ósk, og ég álít, að hún hafi jafnmikla stoð í l. og ákvæði reglugerðarinnar frá 1947. Og ég efast um, að þörf sé á að útskýra tilgang þeirrar reglugerðar nánar, þar sem það, að þetta skuli vera sett samtímis og benzínskömmtunin er afnumin, gefur til kynna, að tilgangurinn sé sá sami og með reglugerðinni frá 23. sept., sem kemur fram í ósk Hreyfils. Hitt er rétt, sem hæstv. samgmrh. sagði áðan, að þessi mál um atvinnuréttindi eru alltaf viðkvæm mál, en ef þetta mál yrði útkljáð í haust og reglugerð sett þangað til, þá væri tryggt, að búið yrði að útkljá málið áður en Alþingi færi að fjalla um það.

Það er ekkert undarlegt, þótt komi hljóð úr horni hjá vissum félögum, þegar benzínskömmtunin er afnumin, og í rauninni er það ekki vegna sjálfrar benzínskömmtunarinnar, heldur vegna 7. gr. reglugerðarinnar, sem bifreiðastjórafélagið Hreyfill setur fram þessar óskir. Ég vil nú minnast á það hér, þó að það sé þessu máli óskylt, að úr því að ríkisstj. vill fara að afnema skömmtun, hvort hún sér sér þá ekki fært að afnema skömmtunina á kaffinu. Það yrði ábyggilega enginn mótfallinn afnámi þeirrar skömmtunar. En þetta er nú bara innskot. Heildarafstaðan til þessa skatts finnst mér raunar vera á þann veg hér í d., að hann eigi hér fáa formælendur, enda er þessi skattálagning óréttlát, þung og gagnslítil til þess að vinna á móti dýrtíðinni eða gera rekstur ríkisbáknsins heilbrigðari, en nú er.