16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það má raunar segja það sama um þetta frv. og það, sem nú er nýafgreitt, þ.e. um stuðning til síldarútvegsmanna, því er kastað fram á síðustu stundu, svo að þm. hafa varla tíma til að lesa það yfir, og svo illa samið, að naumast verður skilið. Og sagt er, að hespa verði málið af í skyndi. Og þetta er höfuðmál hæstv. ríkisstj., málið, sem átti að leysa dýrtíðarvandamálið, en því er kastað fram á síðustu dögum þingsins og á að hespast af í skyndi. Þetta er forkastanlegt og fyrir neðan allar hellur. Hér er verið að baksa við það ákvæði í þingsköpum að láta mál fara í gegnum þrjár umr. Slíkt er gert um minkamál og hrossageldingamál, en þegar um þýðingarmestu málin er að ræða, er þetta raunar ekki gert og þau hespuð í gegn umræðulaust að kalla. Mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. hafi gefizt nægur tími til að undirbúa mál þetta s.l. 2 ár með skaplegum fresti, svo að þm. hefði gefizt kostur á að athuga það frekar og það hefði getað fengið afgreiðslu á þinglegri hátt. Nú er það knúið í gegnum 1. umr. í dag og 2. og 3. umr. á morgun.

Það er fróðlegt að athuga, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur snúizt við þessu aðalverkefni sínu, að vinna bug á dýrtíðinni, minnka verðbólguna og tryggja rekstur atvinnuveganna. Hverjar eru ráðstafanirnar? Aðaltillaga ríkisstj. er að koma hér fram með frv., sem auka stórlega dýrtíðina og hækka verðlagið ekki um tugi millj., heldur hundruð millj. kr. Tollar hækka um 60–70 millj. kr. Söluskatturinn er nú um 34 millj. kr., eða svipaður og aðaltollurinn allur var metinn, er hæstv. ríkisstj. tók við. Allt þetta hefur stóraukið dýrtíðina, en samt sem áður hefur það ekki þótt nóg, og því er bætt við nýjum sköttum, benzínskatti, bílaskatti og bíóskatti, sem allir miða að því að hækka dýrtíðina. Útkoman fyrir atvinnuvegina er sú, að þessir hækkuðu tollar hafa skollið á þeim. Ekki er hægt að kaupa nokkurn hlut til endurnýjunar á bátunum án þess, að tollar leggist þar á og stórhækki útgerðarkostnaðinn. Þessir stórauknu skattar á þegnana kalla á hærra kaup frá atvinnuvegunum og auka þannig framleiðslukostnaðinn. Ég minnist þess, þegar núverandi hæstv. ríkisstj. var sett á stofn, að sumir ráðh. settu það sem skilyrði fyrir þátttöku sinni í henni, að verðbólgan yrði minnkuð, en virðast nú una sér þar vel, þótt þeir séu að auka verðbólguna nú í stað þess að minnka hana. Og í frv. frá því í fyrra lýsa þeir yfir því í 1. gr., að það sé til þess að minnka dýrtíðina, þó að reyndin væri þveröfug. En nú er sú bót í máli, að í þetta sinn hafa þeir sleppt því úr 1. gr. frv., að það sé til að minnka verðbólguna, það hefur ekki þótt fært lengur. Auk þeirra ákvæða, sem falizt hafa í frv. ríkisstj. í fyrra og nú, hefur það gerzt, að ríkisstj. hefur látið viðgangast aðrar hækkanir, sem hafa stórhækkað rekstrarkostnaðinn. Nokkru eftir að hæstv. ríkisstj. tók við, stórhækkuðu vextir bakanna, en það leiddi aftur af sér hækkanir á mörgum sviðum. Enn fremur hefur verið leyfð hækkun á aðflutningsgjöldum, sem hefur í för með sér hækkað verðlag í landinu. Allt þetta hefur gerzt í tíð núverandi hæstv. ríkisstj., sem taldi, að ómögulegt væri að stjórna í landinu, ef ekki yrði unninn bugur á dýrtíðinni. Um þetta frv. verð ég að segja það, að mér finnst það enn verra, en frv. í fyrra. Og mun nú koma að einstökum köflum eftir fljótan yfirlestur.

I. kaflinn er að mestu leyti eins og núgildandi ákvæði um fiskábyrgð, en nú er þessi ábyrgð handa hraðfrystihúsunum ekki veitt skilyrðislaust, heldur er hnýtt þannig ákvæði aftan við 2. gr., að ég get ekki skilið, að hægt sé að ganga að því. En í 2. málsgr. 2. gr. segir. „Ábyrgð ríkissjóðs samkv. 1. mgr. skal einungis taka til fisks, er seldur verður til landa, er ríkisstj. ákveður með hliðsjón af markaðshorfum á hverjum tíma.“ Eða með öðrum orðum fer það eftir vilja ríkisstj., hvort nokkurt ábyrgðarverð verður á fiskinum, og fer eftir því, hvort hún leyfir að selja hann til þessa eða hins landsins. Samkvæmt ábyrgðarákvæðum og öðrum lögum hefur ríkisstj. óskoraðan ráðstöfunarrétt á framleiðslu hraðfrystihúsanna og hefur stjórnað sölu á henni. En nú er því bætt við, að þessi ábyrgð komi aðeins til greina, að fiskurinn fari til einstakra landa, þar sem ríkisstj. telji markaðshorfur. En enginn getur byggt á þessu ákvæði, enda munu hraðfrystihúsin neita þessu og ekki hefja framleiðslu, meðan ábyrgðin er bundin þessu skilyrði. — Í 1. og 2. gr. er lagt til, að ábyrgð til báta og frystihúsa og í 3. gr. til saltfisksframleiðenda sé hin sama og í ár. Þetta er of lágt og óhugsandi, að fiskútflutningurinn geti staðið undir kostnaði með þessu verðlagi. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi vilyrði fyrir því, að bátarnir muni fara á sjó og frystihúsin verða starfrækt, ef þetta verður svona. Ég veit, að samtök þeirra hafa lýst öðru yfir. Ég var á fundi hraðfrystihúsaeigenda, þar sem skýrt var tekið fram, að þeir mundu ekki hefja rekstur á þessum grundvelli, enda hefur kostnaðurinn við fiskiðnaðinn farið svo verulega hækkandi þetta ár, að ekki er unnt að sætta sig við sama verð og nú er. Og nú er enn verið að íþyngja bátaútveginum og frystihúsunum svo, að ég er sannfærður um það, að ekki blessast að binda þetta ábyrgðarverð svo lágt, nema meiningin sé að setja þetta allt á hausinn og knýja fram skuldaskil og uppgjör, eins og hlýtur að leiða af þessu frv., og ná þannig kverkataki á þessum atvinnurekstri eins og síldarútveginum, — koma að óvörum án þess að hafa nokkurt samband við útvegsmenn og skella á skuldaskilum á þessa útgerð, en það er gert í þessu frv. og þvert ofan í vilja þeirra, sem þetta varðar. Og það er það furðulegasta, að Alþ. skipi skuldaskil á heila atvinnugrein. án þess að hafa leitað samkomulags við viðkomandi aðila. — Í 8. gr., þar, sem rætt er um fiskábyrgð, er skotið inn breyt., sem sýnist ekki nauðsynleg, þ.e. að ríkisstj. geti krafið útvegsmenn um rekstrarreikninga. Ef þessu verður beitt, er hægt að skylda alla smábátakarla til að senda ríkisstj. nákvæman rekstrarreikning sinn. Ég get ekki skilið, hvað þetta á að þýða, og vafasamar kröfur gagnvart frystihúsunum og bátunum, þar sem þau ganga út frá því, að það verð, sem þeim er tryggt, sé hið rétta verð og að ríkisstj. hafi ekki leyfi til að skyggnast inn í allan rekstur þeirra. Því er verið að skylda þessi fyrirtæki til að senda ríkisstj. allt sitt bókhald, þegar þetta er hið rétta markaðsverð? Því eru ekki allir kaupsýslumenn skyldaðir til að senda sitt bókhald? Á að stimpla útgerðina sem vandræða atvinnuveg, sem verði að vera undir ríkiseftirliti og verði að skila öllum þeim skýrslum, sem aðrir geta sloppið víð að sýna?

Í II. kafla eru svo ákvæði um skuldaskil. Það er sá kafli, sem ég tel vanhugsaðastan og hættulegastan af þeim öllum. Það mætti segja, að væri hugmyndin sú, að útgerðarmenn fengju gefið eftir það, sem ríkið hefur veitt þeim samkv. 12. og 13. gr., þá gæti það sett skilyrði fyrir þeim eftirgjöfum, eða ef ríkið lánaði útgerðarmönnum upphæðir og vildi gefa þær upp, væri ástæða til að setja skilyrði. En hér er ekki miðað við það, heldur það, ef þeir fá lán til að losa sjóveð, þá eru þeir skyldir til að þola skuldaskil, ef svo er mælt fyrir. En 15. gr. byrjar svo: „Jafnskjótt sem skilanefnd hefur tekið við aðstoðarbeiðni, skal það tilkynnt skiptaráðanda, og er þá hvers konar aðför vegna skulda útgerðarmanns óheimil á hendur honum og ábyrgðarmönnum hans, þangað til skilanefnd hefur afgreitt mál hans.“ Síldanefnd sú,sem hér er nefnd, er hin sama sem við síldarútveginn, og ef einhver útgerðarmaður snýr sér til hennar um lán, þá hefur nefndin vald til að fyrirskipa skuldaskil hjá þessum útgerðarmanni. En ef til vill er miðað við, að um útstrikanir á lánum sé að ræða, en svo er ekki í frv., eins og það er orðað nú. En hvernig mundi þetta verða í framkvæmd? Í 14. og 15. gr. er gert ráð fyrir, að ef útgerðarmaður hafi óskað eftir stuðningi, þá sé viðkomandi útgerðarmaður tekinn á sama hátt og bú til gjaldþrotaskipta og megi ekki ráðstafa neinu á eigin spýtur, þótt skipti þessi taki langan tíma. Meira að segja er orðalagið svo fast bundið, að útgerðarmaður, sem á bát eða frystihús eða annan rekstur og sækir um stuðning vegna bátsins, er gerður ómerkur gagnvart frystihúsinu og getur ekki rekið það og má ekki ráðstafa sínum eignum, meðan skiptin standa yfir. Það verður laglegt ástand í þeim bæjum, þar sem aðallega er stundaður bátaútvegur, meðan skuldaskilin standa yfir. Enginn þorir að eiga viðskipti við þessa vandræða atvinnugrein, sem liggur undir gjaldþrotaskiptum. Hverjir eiga svo að standa undir skuldaskilunum? Bátaeigendurnir eiga heima í nokkrum aðalfiskveiðabæjunum víðs vegar um landið, og það eru vélaverkstæði, dráttarbrautir og verzlanir á þessum stöðum, sem verða að standa undir skuldaskilunum og verða fyrir öllu tapinu. Verkamenn og sjómenn verða einnig að staðna undir þessum skuldaskilum og verða að þola það, að inneignir þeirra verði strikaðar út. En bankarnir og þeir, sem eiga veð í eignum útgerðarinnar, eiga óskerta sína ábyrgð allt að 100%. Bankarnir eru því öruggir, þar sem þeir hafa veð í bátum og veiðarfærum, og tapa því engu, nema í úrtökutilfellum. En nokkur fyrirtæki í útgerðarbæjum eins og Vestmannaeyjum, Norðfirði og Ísafirði eru látin standa undir öllum þunganum af þessum skuldaskilum. Það, sem Alþ. er að samþykkja með þessu, er að gefa ávísun á þessa fátæku bæi, og afleiðingin verður stærra og meira höfuðhögg í sambandi við útveg og bátaútgerð, en nokkru sinni hefur þekkzt áður. Menn hræðast þennan atvinnuveg, þeir munu varast að koma nærri útgerð. Fólkið flýr til Reykjavíkur, hættir að stunda þennan atvinnuveg, sem settur er á hausinn vegna þeirra, sem dútla í höfuðstaðnum, hnýta þar einhverjar slaufur, búa til öskjur, fást við verzlun og skriffinnsku og eru öruggir með sinn gróða eða sína vinnu. Þessir menn fá útborgað reglulega, þeir þurfa ekki að óttast að verða settir á hausinn, þar eru ekki gerð skuldaskil. En kannske er þetta lausnin, kannske er það þetta, sem koma skal. Þá þarf Alþingi ekki lengur að streitast við þann vanda að ráða fram úr því, hvernig greiða eigi töp útvegsins, ef það er laust við útveginn einu sinni fyrir allt og búið að draga allt líf úr þeim stöðum, sem standa fyrst og fremst undir þeim atvinnuvegi og eiga sitt fyrst og fremst undir honum.

Í 17. gr. þessa frv. hér er orðalagið þannig, að það er ekki einu sinni nóg með það, að hægt sé nú að taka þá útgerðarmenn til skuldameðferðar, sem studdir eru fjárhagslega af ríkinu vegna taps á síldveiðunum í sumar, heldur er orðalagið þannig, að ef tilraun, sem þar er nefnd, heppnast ekki, má setja reglugerð um skuldaskil allra útvegsmanna, sem gerðu út á síld í sumar, þar er enginn undanskilinn, engin undantekning. Ég býzt hins vegar ekki við, að það sé meiningin, en þetta orðalag er ágætt dæmi um það, hve flausturslega þetta frv. er samið. Ég býzt við, að ákvæðið um skuldaskil eigi aðeins við þá útgerðarmenn, sem hafa sótt um og fengið einhver stuðningslán hjá ríkinu.

Ég minntist á það áðan, að mér er fullkunnugt um það, að þessi skuldaskil eru lögð hér til alveg án samráðs og þvert ofan í vilja samtaka útvegsmanna. Það var minnzt á þetta á fundi L.Í.Ú. í haust, en það var einróma álit fundarmanna, að þessi leið væri engin leið og hreint neyðarúrræði. Og framkvæmdastjóri landssambandsins lýsti þessu sama sérstaklega yfir fyrir fáum dögum á fundi nefndarinnar. Þetta er því gert að samtökum útvegsmanna fornspurðum, þvert ofan í vilja þeirra og ályktanir, án nokkurs samráðs við þau. Ég vara alvarlega við þessum vinnubrögðum og að samþ. þetta frv. eins og það er. Ég vara ríkisstj. alvarlega við að fara eins að og ávallt áður, ef við sósíalistar höfum borið fram tillögur eða varnaðarorð, að lakka þá fyrir öll skilningarvit sín af þeirri ástæðu, að það eru sósíalistar, sem vara við eða gera tillögur til úrbóta. Þessi háttur hefur verið hafður á hjá hv. stjórn og liði hennar, hversu góðu máli sem hefur verið hallað. Hafi sósíalistar aðeins átt einhvern hlut að því, þá var það nóg, nægileg ástæða ein og út af fyrir sig til að lakka fyrir öll skilningarvit og hespa tillögur stj. sem fljótast í gegnum þingið og helzt að ræða málin sem minnst og umfram allt að taka aldrei undir neinum kringumstæðum neitt tillit til tillagna okkar sósíalista, hversu réttmætar og sjálfsagðar sem þær hafa verið. Þetta mál á nú að hespa og berja í gegn sem fljótast, svo að þingmönnum gefist sem minnst færi á að íhuga það, og helzt breytingalaust, og allar tillögur okkar sósíalista eru fyrir fram dauðadæmdar. Þessi málsmeðferð á að verða hin sama og með síldarkreppuna hér á dögunum, athugasemdir okkar sósíalista í sambandi við það mál voru allar réttar og munu sannast í veruleikanum og framkvæmdinni, en til þeirra var ekkert tillit tekið.

En ef skilja á orðalag þessa frv. hér beint, fullyrði ég, að síldarkreppan, sem samþ. var hér nýlega, er þar með gersamlega að engu orðin sem hjálp eða aðstoð, því að enginn útgerðarmaður mun af frjálsum vilja leggja í þessi skuldaskil, ekki þeir heldur, sem fyrri lögin eiga við. Þeir munu afsala sér fríðindum þeirra laga, ef vandkvæði og vandræði þessa frv. eiga að fylgja með eins og böggull skammrifi.

Þegar verið var að afgreiða hér mál útgerðarinnar rétt fyrir áramótin í fyrra, lögðum við sósíalistar fram okkar tillögur til úrlausnar. Hið sama höfum við nú gert, og vil ég koma nokkuð inn á tillögur okkar og muninn á þeim og þessum tillögum hér.

Í fyrsta lagi er á það bent, að það er auðveldlega hægt að lækka rekstrarútgjöld útgerðarinnar, ef Alþ. vill samþykkja það, og má fyrst nefna vexti í því sambandi, sem eru þungur baggi á útgerðinni, bæði vextir af stofnlánum, veiðarfærum og öllu rekstrarfé, sem útgerðin þarf að fá. Yfirleitt verður útgerðin að greiða 6–7% vexti af þeim lánum, sem á henni hvíla. Það er aðeins lítill hluti bátanna á stofnlánum með stofnlánadeildarvöxtum. Vextir af lánsfé til útgerðarinnar hafa verið hækkaðir og það jafnvel á síðasta ári, er verst gegndi, og vaxtaívilnanir þær, sem samþ. voru á síðasta þingi og hér er einnig lagt til, hafa verið þverbrotnar af bönkunum. Í fyrsta lagi hefur útgerðin aðeins getað fengið mjög litið af stofnlánum og því orðið að taka víxillán. Í öðru lagi, þar sem um bein rekstrarlán hefur verið að ræða, hafa þau ekki fengizt nema til þriggja mánaða. Það eru 4% lán, en til viðbótar koma svo framlengingarvextir og annar kostnaður, svo að við það hækka hinir raunverulegu vextir af þessum lánum yfirleitt upp í 6 eða 61/2%. Það er auðveldur hlutur og sjálfsagður, eins og rekstrarafkoma bátanna er annars vegar og bankanna hins vegar, að lækka vexti til útgerðarinnar til mikilla muna. Með því væru bátunum spöruð veruleg útgjöld, og bankarnir hafa grætt 20–30 millj. kr. á undanförnum árum, svo að það er ekkert auðveldara fyrir þá en að slaka til í þessu efni. En það vantar vilja bankavaldsins og skilning Alþingis, eða meiri hluta þess, sem ekki hefur viljað hlusta á tillögur okkar sósíalista í þessum málum fremur en öðrum.

Þá eru það vátryggingariðgjöld bátanna, sem eru 5–7%. Þau eru langtum of há, og ríkið á að lækka vátryggingariðgjöldin, sem hvíla á bátunum. Meðalbátur greiðir 15–30 þús. kr. á hverju ári í þessi útgjöld, og sér hver maður, að sú upphæð dregur ekki lítið, þegar útgerðin berst í bökkum að öllu leyti.

Þá er það annað atriði, sem einnig er augljóst mál, það eru samningar um afborganir af lánum til báta og frystihúsa. Lánstíminn er nefnilega allt of stuttur. Árlegar afborganir eru allt of háar, til þess að hægt sé að búast við, að reksturinn þoli þær eða beri uppi. Eða halda menn að öllum, sem til þekkja, sé ekki fullkunnugt um, að það er ekkert vit í að lána út á ný steinsteypt frystihús t.d. til aðeins 10–15 ára, þar sem þessi hús geta hæglega enzt í 100 ár og vélarnar í 20–30 ár. En mönnum er gert að greiða upp lán út á þessi atvinnutæki á 10-15 árum aðeins. Stofnlánin eiga að veitast til miklu lengri tíma, eins og víða tíðkast erlendis. Ef lánstíminn væri yfirleitt lengdur upp í 20–30 ár t.d., mundu rekstrarútgjöld útgerðarinnar stórlækka á ári hverju. Það er há upphæð, 200–400 þús. kr., sem frystihús þurfa að greiða í afborganir árlega, það þarf mikinn hagnað til þess, að reksturinn beri sig. En þetta verður að hafa upp eins og nú er, til þess að unnt sé að standa í skilum, af því að lánstíminn er allt of stuttur.

Þá kem ég að því atriði í tillögum okkar sósíalista að létta af útgerðinni þeim þunga bagga, sem hvílir á henni í sambandi við verzlunar- og gjaldeyrismálin. Við hv. þm. Siglf. höfum lagt til í frumvarpsformi, að útgerðarmenn fái til eigin þarfa töluverðan hluta þess gjaldeyris, sem þeir afla, fái hann til eigin ráðstöfunar, svo að þeir geti fyrir hann keypt og flutt inn það, sem þeir þurfa vegna atvinnurekstrarins, en þurfi ekki að kaupa nauðsynjar útgerðarinnar af heildsölum eða öðrum. Hvaða ástæða er nú til að neita þeim um gjaldeyri fyrir varahlutum, efni, vélum og öðru til rekstrarþarfa? Hvers vegna á að skylda bátana til að kaupa þessar vörur í gegnum einn til þrjá milliliði, sem hafa fengið gjaldeyri; heildsala, smásala og jafnvel fleiri aðila, þegar engin þörf er á þessu fyrirkomulagi. Mér dettur í þessu sambandi í hug að segja frá samtali, sem ég átti nýlega við frystihússtjóra, sem mér var kunnugt um, að hafði fengið 50 þús. kr. í frjálsum gjaldeyri, aðallega fyrir hrogn. Hann sagðist ekki hafa farið út í að verzla með þennan gjaldeyri að ráði. Í sama húsi og hann bjó heildsali, sem verzlaði með vélar, og lét frystihússtjórinn hann fá leyfi út á þennan gjaldeyri. Síðan flutti heildsalinn inn vélar fyrir og lagði á full 40%, og sömdu þeir um að skipta álagningunni með sér til helminga, og taldi heildsalinn sig þó stórgræða á þessum viðskiptum. Með þessu sparaði frystihússtjórinn sér a.m.k. 10 þús. kr., en þetta dæmi gefur enn frekara tilefni til að spyrja: Hví ekki að leyfa þeim, sem vinna við útgerð og gjaldeyrisöflun, að fá hluta af gjaldeyrinum frjálsan vegna þarfa atvinnurekstrarins og létta þannig af útveginum óþörfum milliliðum og þar með óþarfa kostnaði? Við þetta miðast okkar tillögur, og þar, sem gjaldeyrisöflunin er meiri en svarar til nauðsynja útgerðarinnar, hafi framleiðendur sama rétt til innkaupa og aðrir, sem fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Í þessum tillögum felst raunverulegur stuðningur við útgerðarmenn, og þetta mundu útgerðarmenn einmitt fara fram á. En hví þá ekki að sinna þessu á Alþingi? Er það af því, að ákafi manna hér við það að berjast gegn dýrtíðinni sé svo mikill, að þeir þurfi endilega að koma á nýrri verðhækkunaröldu? Það væri auðvelt, eins og við sósíalistar lögðum til strax í fyrra, að spara fúlgur á verzlunar- og gjaldeyrismálunum, en þær tillögur fengust ekki einu sinni ræddar.

Það eru svo nokkur atriði í sambandi við frv., sem ég vildi sérstaklega ræða um og spyrja hæstv. fjmrh. um. Þar er talað um 70 millj. kr. í dýrtíðargreiðslur af hálfu ríkisins fyrir yfirstandandi ár, og látið skina í það hér í umræðum, eins og mér skildist á hæstv. forsrh., að þessar greiðslur séu fyrst og fremst vegna fiskábyrgðarinnar. Hvaða tölur liggja fyrir um árið 1948 í sambandi við fiskábyrgðina og greiðslur vegna hennar? Það kemur mér ákaflega einkennilega fyrir sjónir, ef verulegar greiðslur þarf að inna af hendi vegna hennar í ár. Allar fisksölur til Englands, Hollands og Tékkóslóvakíu hafa verið á fullu ábyrgðarverði. Og nú síðast þessi margumtalaða Marshallgjöf, hún var reiknuð á því verði. Hvað er það þá? Hvernig er það með saltfiskinn, sem er einn aðalliðurinn? Saltfisksölurnar hafa verið mun hagstæðari í ár en í fyrra ætla ég, t.d. til Ítalíu. Þar var að vísu selt fyrir lírur, en það er auðvelt að selja þær til innflytjenda á fullu ábyrgðarverði. Til Grikklands var að vísu seldur saltfiskur undir ábyrgðarverði, það veit ég, en þar getur ekki verið um háa tölu að ræða, sem greiða þarf vegna ábyrgðarverðsins, það veit ég líka. Og sáralítið magn af ísfiskinum var selt með uppbótargreiðslum. Hvað er þá um að tala? Hversu háa upphæð hefur orðið að greiða úr ríkissjóði vegna fiskábyrgðarinnar 1948 nú þegar, og hvað má búast við að sú tala verði há fyrir allt árið, og hvernig sundurliðast hún? Ég veit, að hæstv. fjmrh. veit þetta og getur svarað. Mér er ekki kunnugt um annað, en hér sé um óverulega upphæð að ræða í heild. Einnig væri gaman að vita, hvað kostað hefur að verðbæta kjöt á þessu ári og hve miklu hefur orðið að kosta til úr ríkissjóði til að greiða niður verð á landbúnaðarvörum í heild. Ég held, að það sé ljóst mál, að dýrtíðargreiðslur ríkisins á þessu ári séu fyrst og fremst inntar af hendi vegna niðurgreiðslu á afurðaverði innanlands, svo einkennileg vindmylluaðferð sem þetta nú er hjá ríkisstj. til að glíma við dýrtíðina. En þær greiðslur, sem hér um ræðir, eru ekki fyrst og fremst vegna fiskábyrgðarinnar, heldur niðurgreiðslu innanlands.

Í III. kafla þessa frv. kemur svo dýrtíðarsjóður. Hann er í mínum augum ákaflega einkennilegur. Nú er allt í einu fundið upp þetta patent, að búa til sérstakt hólf í ríkissjóðnum, sem á að heita dýrtíðarsjóður. Hingað til hefur það verið ríkissjóður, sem tekjurnar hafa runnið í og gjöldin runnið úr. Ég hef ekki getað komið auga á; hvaða praktíska þýðingu þetta ákvæði á að hafa. Svo er í þessum kafla ákvæði um söluskatt, þennan ósanngjarnasta og versta skatt, sem nokkurn tíma hefur verið lagður á, eftir því sem núverandi hæstv. menntmrh. sagði á sínum tíma, meðan hann var utan við stj., hann stendur nú að því að leggja þennan skatt á í annað sinn, og nú hefur hann enn verið hækkaður frá því, sem áður var, efalaust með sérstöku tilliti til þess, að hann sé ósanngjarnasti skattur, sem nokkurn tíma hefur verið lagður á þjóðina. En samkvæmt þessum skatti er í fyrsta lagi ákveðið að leggja á 6% söluskatt, og í rauninni að hækka innflutningstoll á allri vöru, sem flutt er til landsins. Af hverri einustu vöru, sem til landsins er flutt og tollafgreidd, ber að greiða 6% og innheimta það í þennan skatt. Það sjá allir, að þetta ýtir undir hækkað verðlag. Þetta er ekkert annað en nýr aðflutningstollur, sem skellur verulega á bátaútveginum. Það er ekki hægt að reka bát nema flytja fjölda margar nauðsynjar inn til þess, og fjöldi af bátum, þótt nokkrir séu undanskildir, mundi verða fyrir þessum skatti. Það munar talsvert um það að fá 6% ofan á tollverð. Ég býst við því, ef tími væri til þess að rekja það, hvað mikli álagning er lögð á útgerðina og ýmsar fylgígreinar hennar, bæði í þessu frv. og öðrum frá ríkisstj., að þá færi nokkuð að vega salt það, sem á að heita stuðningur til hennar gegnum fiskábyrgðina. En svo þykir mönnum þægilegt að segja, að allt sé gert vegna útgerðarinnar. — Í 22. gr. eru nokkrar vörur undanþegnar þessum söluskatti, og ég tek eftir því, að tvö atriði hafa slæðzt þarna inn í, sem ekki voru í l. í fyrra, þ.e. dagblöð og vikublöð, en mánaðarblöð og tímarit skilst manni, að séu fyrir utan þetta. Þetta sýnist vera sett þarna inn af handahófi, því að ég skil ekki, hvaða samleið þetta á með benzíni, smurningsolíu o.s.frv., enda hafa mánaðarritin gleymzt í þessu sambandi. — Svo eru hér alveg ný ákvæði, sem eru allnýstárleg í sambandi við tolltekjur, en það er salan á innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Nú á beinlínis að fara að selja útgefin gjaldeyris- og innflutningsleyfi og það allt háu verði. Ef veitt er innflutningsleyfi fyrir kvikmyndum, þá á þar að greiða 100% af leyfisfjárhæð, og það er ráðgert, að þetta geri 1–2 millj. kr. í tekjum. Vitanlega verður þetta til þess í framkvæmdinni, að verð á aðgöngumiðum að kvikmyndahúsum hækkar. Þetta er tiltölulega mjög almenn skemmtun almennings og ódýr, og hana á að skattleggja. Það er rétt að gera sér það ljóst, að þetta hækkar skatt á alþýðu manna, því að hún notfærir sér þessa skemmtun. Þetta er enginn skattur á hátekjumenn, það er ekki verið að snerta við gróða bíóeigendanna sjálfra. Það er ekki verið að segja, að það eigi að taka bíóin og þjóðnýta þau og ríkissjóður eigi að taka hagnaðinn af því, sá hagnaður má ganga í þann vasa, sem hann hefur gengið, og það er sennilega meiningin með þessu að láta hina, sem kaupa sig inn í bíóin, borga þennan skatt í dýrtíðarsjóðinn. Svipað er að segja um allar þessar gjaldeyris- og innflutningsleyfavörur, sem gert er ráð fyrir í 29. gr., það þýðir aukin útgjöld hjá almenningi í flestum tilfellum.

Ég tók eftir því, að hæstv. menntmrh. gerði hér þann fyrirvara við þetta frv., að hér væri um samningamál á milli flokka að ræða og vitanlega hefði þetta verið á annan veg, ef hver flokkur fyrir sig hefði komið fram með sínar till., eins og hann hefði óskað.

Ég verð að segja það, að þetta er það gamla skálkaskjól, sem menn hlaupa alltaf í — um það er ekki að villast, nema þá að flokkur hæstv. ráðh. leggi fram sínar skýlausu till. þar um, því að öðrum kosti verða þetta alltaf að teljast hans till. og hans flokks, sú lausn, sem hann hefur fram að færa í dýrtíðar- og, atvinnumálum. Það er vitanlegt, að Framsfl. þykir heppilegt að geta sagt: Ég vildi eitthvað annað — án þess að hann segi, hvað hann vildi. Hverjar eru hans till., sem hann hefur gengið með svo lengi? Það er talað um að fara verðhjöðnunarleiðina að einhverju leyti, en því sýnir ekki Framsfl. þetta einhvers staðar? Meðan hann ekki sýnir það, verður að álíta, að þetta frv., sem hann stendur hér að og flutt er á hverju þinginu á fætur öðru, séu hans till. í dýrtíðar- og verðlagsmálum. Ef sérstaðan er ekki önnur en sú, að einhverjum framsóknarmanni hafi fundizt till. um bílaskattinn ekki eiga að koma á jeppabíla, ef það er ágreiningurinn, þá verður það ekki álitið af neinum sem neinn verulegur ágreiningur í sambandi við þessi stóru mál. Svo lengi sem Framsfl. ekki leggur fram sínar till. í dýrtíðar- og verðlagsmálum og skilgreinir þær til fulls, þá verður maður að álykta sem svo, að þetta séu hans till. Hann stendur því að fullu og öllu í sömu ábyrgð og aðrir flokkar í stj. gagnvart þessum till. — Ég get farið að ljúka máli mínu, en vil að lokum sérstaklega undirstrika það, að ég óska eftir því, að hæstv. sjútvmrh. upplýsi það, sem ég beindi sérstaklega til hans í sambandi við fjárgreiðslur úr ríkissjóði á þessu ári vegna fiskábyrgðarlaganna. — [ Fundarhlé.]