13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í umr. um þetta mál nú. Það var rætt svo rækilega við 2. umr., að greinilega kom fram, hvað meiri hl. ætlar að gera og tilgangslaust að reyna að hafa áhrif á þá fyrirætlun eins og nú er komið. Hitt vildi ég aðeins minnast á, hvort ekki sé vilji til að koma í veg fyrir, að allur þessi skattur komi fram sem verðhækkun á benzíninu. Að vísu flutti ég hér brtt., sem var felld, en hún var þess efnis, að hvergi á landinu mætti hækka benzínverðið um meira, en skatthækkuninni næmi. En vera má, að málið horfi öðruvísi við, ef fellt væri úr till. orðin „hvergi á landinu“. Það sýnist ekki nema réttlátt, að olíufélögin beri einhvern hluta af þeirri hækkun, sem frv. fer fram á. Ég mun samt ekki flytja brtt. um þetta atriði, nema það fái einhverjar undirtektir í hv. d., en taldi rétt að vekja máls á þessu til að vita, hvort þm. vilja sporna við, að þessum skatti verði öllum velt yfir á almenning. — Ég vil líka benda á, að ekkert ákvæði er í frv. um það, hvað benzínverðið má vera, og sömuleiðis ekki minnzt á það í brtt. fjmrh. varðandi þær birgðir, sem til eru í landinu, heldur er aðeins talað um, að skatturinn skuli vera 31 eyrir.

Þetta þykir mér rétt að láta koma fram, ef þdm. sjá ástæðu til að setja ákvæði um þetta í frv.