16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. sósíalista, en áður vildi ég taka undir orð hæstv. menntmrh., er hann sagði, að þetta frv. væri byggt á samkomulagi milli hinna þriggja flokka, sem að ríkisstj. standa. En það er þannig í okkar þingræðislega þjóðskipulagi, að þar sem einn flokkur er ekki svo sterkur, að hann geti einn saman tekið að sér stjórnina, þá verður að gera samninga til þess að koma málunum áleiðis.

Hv. 2. þm. S-M. kvartaði undan því, að seint væri ríkisstj. á ferð með frv., er það væri ekki lagt fyrir þing fyrr en komið er fram undir jól og árið komið á enda. Ég hélt, að ég hefði tekið það nógu skýrt fram í minni framsöguræðu, að ríkisstj. hefði látið gera miklar athuganir í sambandi við þetta mál og hafa þær dregið það. Ég minnist þess einnig, að þegar fyrst var farið hér hjá okkur inn á þessa braut, að ákveða atvinnuvegunum visst tiltekið verð fyrir sínar útflutningsvörur, — það var í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., sem kommúnistar áttu sæti í, — þá var það mál afgr. á tiltölulega mjög skömmum tíma, rétt fyrir jólin í líka tíð og væntanlega þetta mál verður afgreitt. Þá var stigið fyrsta sporið í þá átt að taka ákvörðun um verð á útflutningsvörum bátaútvegsins. Ég held, að hv. 2. þm. S-M. hafi ekki kvartað undan því, að þá kæmi málið nokkuð seint til Alþ. og ekki til fullnustu undirbúið, því að ef ég man rétt, varð nokkuð að hnika til og breyta því frv. á Alþ. og í n., áður en það var endanlega afgreitt. Ég held,. að það sé sannast sagna, að þegar svo stendur á eins og nú er og þá var að, að steðja nokkrir örðugleikar, rétt áður en ný vetrarvertíð byrjar, þá megi varla búast við því, að mál eins og þetta verði afgreitt löngu áður á Alþ. og á löngum tíma. Ég held, að það séu til þess fullgild rök nú, eins og var í árslok 1946, að þetta mál komi nokkuð seint fyrir Alþ., en þó allmikið undirbúið, og það verði að afgreiða það á tiltölulega skömmum tíma. Það er oft svo með stór mál á þjóðþingum, að þau eru afgreidd á ekki mjög löngum tíma, eftir að tekin hefur verið endanleg stefna þeirra manna, sem farið hafa með stjórnir og hafa haft að baki sér meiri hl. löggjafarvaldsins.

Hv. 2. þm. S-M. talaði einnig um það og undirstrikaði það, að ábyrgðarverðið, sem hér er greint á fiskinum, væri of lágt. Ég gerði því atniði nokkur skil í minni frumræðu, þ.e. þeim ástæðum, sem lægju til grundvallar fyrir því, að ríkisstj. treystist ekki til að fara fram á það við Alþ., að ábyrgðarverðið væri hærra, en vildi auk ábyrgðarverðsins gera aðrar ráðstafar, sem ætla mætti, að kæmu útgerðinni að verulega miklu gagni. — En það er ákaflega auðvelt að koma með yfirboð, sérstaklega fyrir algerlega ábyrgðarlausa menn — gersamlega ábyrgðarlausa menn eins og nú eru í stjórnarandstöðu — raunverulega ábyrgðarlausa, hvort sem þeir eru í stjórnarandstöðu eða stjórnaraðstöðu. Það er auðgert, þegar ríkisstj. býður fram hjálp, að bjóða yfir og segja tveir, þegar ríkisstj. segir einn, og þegar ríkisstj. segir tveir, þá að bjóða yfir og segja þrír. Það er létt verk og löðurmannlegt, en auðvelt verk. Og í þessum frumvarpsóskapnaði, sem hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. S–M. hafa lagt fram, þá er gert ráð fyrir stórkostlegum auknum útgjöldum ríkissjóðs, svo að skiptir jafnvel tugum millj. kr., án þess að gerðar séu nokkrar ráðstafanir né um það rætt yfirleitt að koma málefnislega nokkurs staðar við það, — hvort peningar séu fyrir hendi eða ekki. Það skiptir stjórnarandstöðuna ekki nokkru máli, hvort peningar séu til. Það á að hrópa á þá, ef ske mætti; að þeir menn, sem eru illa staddir og þurfa á aðstoð að halda, létu blekkjast af því, að þarna væru þeirra miklu vinir, sem gerðu háar kröfur fyrir þeirra hönd. En ég hygg, að flestir útvegsmenn séu svo þroskaðir og veraldarvanir, að þeir vænti lítils trausts og halds frá hópi þeirra manna hér á Alþ., sem nú þykjast vilja gera mestar og stærstar kröfur fyrir þá. — Ríkisstj. hefði áreiðanlega kosið, ef hægt hefði verið að ábyrgjast hærra útflutningsverð fyrir útgerðina. En allar skynsamlegar líkur mæla með því að hver hækkun um eyri á ábyrgðarverðinu fyrir útflutningsafurðir þessar, sem um er að æða, mundi kosta 1,3 millj. kr. úr ríkissjóði, Og það verður áreiðanlega ekki gert að gamni sínu fyrir neina ríkisstj. né neitt þjóðfélag að gera slíkar ráðstafanir algerlega út í bláinn. Það er þeim einum fært, sem vilja umgangast ríkissjóðinn eins og höfuðóvin sinn.

Hv. 2. þm. S-M. talaði um það, að hér eigi að skella á skuldaskilum án vilja og samráðs við bátaútvegsmenn. Ég hygg, að sjútvn. þessarar hv. d., sem flutti till. um það, að ríkið gæfi eftir fjárframlög sín til kreppu hjálpar bátaútvegsins, og miðaði sjálf við það, að á þann hátt væri hægt að koma útgerðinni á öruggan grundvöll, hafi gert það vegna þess, að þeir hafi vitað það, að útvegsmenn, sem hafa sínar miklu skuldir að bera og stóru skuldabagga, er hafa í för með sér miklar fjárgreiðslur árlega í vöxtum og afborgunum, teldu það nokkurs virði, að þessar skuldir væru lækkaðar og þar með rekstrarkostnaður þeirra minnkaður. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að útvegsmenn skilja það mæta vel og meta, að gera á nú tilraunir til þess að lækka skuldabagga bátaútvegsins. Og þeir vita það, að það er stórkostleg hjálp í sambandi við rekstur bátaútvegsins í framtíðinni. — Sami hv. þm. var að tala um það, að það væri ógerlegt fyrir útvegsmenn að þola skuldaskil. Telja menn virkilega, sem svona tala, að ríkisstj. vilji færa sex millj. kr. úr ríkissjóði bara til þess að gera útvegsmönnum óleik og til þess að gera þeim verra fyrir, að setja það sem skilyrði fyrir þessari eftirgjöf, að hægt verði einnig að lækka aðrar skuldir? Ég held, að allir, sem hlut eiga að máli, skilji það mæta vel, að hér er um verðskuldaða og eðlilega hjálp að ræða til útvegsmanna vegna þess, hve hag þeirra er illa komið, og það sé vissulega af góðum vilja og skilningi gert að gera þessa tilraun til bjargar eða meiri háttar aðstoðar.

Svo hafði ég gaman af þeim einkennilega tvísöng, sem kom fram í ræðum þeirra flokksbræðranna úr hópi kommúnista, sem hér hafa talað í sambandi við þetta mál. Annars vegar talaði hv. 2. þm. S–M. um það, hversu óskaplegt það væri, ef ætti nú bæði að hindra það, að lausaskuldakröfueigendur, kaupsýslumenn og verkstæði gætu gengið að útgerðarmönnum, hversu ógurlegar aðfarir þetta væru. Hins vegar talaði hv. 2. þm. Reykv. um sníkjudýrin á — útgerðinni, kaupsýslumennina, sem seldu útgerðarmönnum vörur, verkstæðin, sem gerðu við bátana þeirra og vélarnar þeirra, og að að þessum mönnum yrði að þjarma. Það verður alltaf svo, þegar auglýsingapólitík er rekin í stórum stíl og eingöngu er um það hugsað að ná eyrum manna, sem illa eru staddir og reyna að telja þeim trú um, að þeim eigi að hjálpa, að það kemur fram ósamræmi í þessari auglýsingapólitík.

Hv. 2. þm. S-M. fór nokkrum orðum um einstakar gr. frv. og leitaðist við að gagnrýna þær. En flest sú gagnrýni virtist mér vera þann veg, að annaðhvort væri byggt á misskilningi eða fullkominni hártogun, eins og þegar hann t.d. var að tala um 17. gr. frv., þar sem hann vildi halda því fram, að þar væri gert ráð fyrir því, að allir útgerðarmenn ættu að fara í lögþvinguð skuldaskil samkv. þeirri gr., ef svo bæri undir. Ég veit, að jafngreindur maður og hv. 2. þm. S-M. sér það, ef hann les þennan kafla, hversu mikill barnaskapur er að halda þessu fram. Það þarf ekki annað, en að lesa fyrirsögn kaflans og greinarnar næstu á undan, 12. og 15. gr., til þess að sjá, hvað við er átt. En það er langt seilzt til raka og áróðurs, þegar slíkar athugasemdir eru gerðar. — Þessi hv. þm. talað um það, að þetta frv. væri illa og flausturslega samið. Ja, aðrir hefðu nú meiri ástæður til að beina þeirri gagnrýni heldur en hann og hans félagar. Ef tekið væri fyrir frv. það, sem þeir hafa lagt fram hér á Alþ. um dýrtíðarráðstafanir, þá mætti frekar þann dóm leggja á það frv. en frv. ríkisstj., sem fyrir liggur hér. — Þessi sami hv. þm. sagði, að það væri reginmunur á till. sínum og félaga sinna í frv. á þskj. 219 og frv. ríkisstj. Það er rétt. Það er reginmunur þar á. Frv. þeirra kommúnistanna er sýndaryfirboð, þar sem alls ekki er gerð nokkur tilraun til þess að undirbyggja möguleika ríkisins til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem ríkinu væru lagðar á herðar, ef það frv. væri samþ. Aftur á móti er frv. ríkisstj. miðað við það, sem ætla mætti, að gæti komið bátaútvegsmönnum að svo miklu gagni, að þeir héldu áfram atvinnurekstri sínum, samtímis því sem séð væri fyrir, að ríkið hefðu tiltæka þá peninga, sem það heitir, til þess að standa við skuldbindingar sínar. Annars vegar er raunhæf, alvarleg og undirbyggð tilraun til þess eftir mætti ríkisvaldsins að hjálpa aðþrengdum bátaútvegi. Hins vegar er órökstutt yfirboð ábyrgðarlausra manna. Þarna er reginmunur á, ég skal játa það. — Sami hv. þm. talaði um það, að einum hluta dýrtíðarsjóðs ætti að verja, eins og ég tók skýrt fram í minni ræðu, til þess að halda áfram niðurgreiðslum á nauðsynjavörum, og öðrum hluta hans til þess að standa undir þeirri ábyrgð, sem ríkið tekst á hendur um verðlag á fiskafurðum bátaútvegsmanna á erlendum markaði. Hæstv. fjmrh. mun á sínum tíma skýra frá því, hvernig þessar greiðslur hafa skipzt, að svo miklu leyti sem vitað verður, á árinu 1948. En frá sjónarmiði ríkisstj. er þetta hvort tveggja jafnnauðsynlegar dýrtíðarráðstafanir, til þess að fólkið í landinu, sem minnsta kaupgetuna hefur, geti fengið neyzluvörur sínar við ódýrara verði en ella, með því að ríkissjóður leggi nokkurt fé af mörkum til þess að greiða niður verðlag á þeim og til þess hins vegar að tryggja útvegsmönnum ákveðið talsvert hátt verðlag á afurðum þeirra erlendis. Ég er alveg viss um það, að ef það væri hætt við þessar niðurgreiðslur, sem nú eru gerðar á kjöti, mjólk og kartöflum og öðrum nauðsynjavörum almennings í landinu, þá mundi margur alþýðumaðurinn finna verulega til, það mundi verða þrengra á heimili alþýðufjölskyldumannsins, ef þessum niðurgreiðslum væri hætt, sem hafa verið framkvæmdar með fé úr ríkissjóði, sem þó að verulegu leyti — þó kannske að of litlu leyti er aflað með tekjum ríkisins frá efnuðum mönnum og tekjuháum og atvinnurekstri ríkisins. Þessu fé er varið til þess að halda niðri verði á nauðsynjavörum. Þetta eru leiðir, sem allar þjóðir hafa farið inn á meira og minna og talið algerlega nauðsynlegar. Í tveimur nágrannaríkjum okkar eða þremur, þar sem jafnaðarmenn hafa hreinan meiri hluta á þingi, Stóra- Bretlandi, Noregi og Svíþjóð, þar eru verðniðurgreiðslur framkvæmdar í mjög stórum stíl Og ef tekinn er t.d. samanburður á niðurgreiðslum bæði í Bretlandi og Noregi og miðað við tekjur ríkissjóðs í þessum löndum og það borið saman við niðurgreiðslur íslenzka ríkisins í þessum efnum, miðað við tekjur ríkissjóðs Íslands, þá er það alveg áreiðanlegt, að það er ekki minna fé varið hlutfallslega í þessum löndum til þessa heldur en á Íslandi. Það eru því frá mínu sjónarmiði raunhæfar dýrtíðarráðstafanir að greiða niður með almannafé nauðsynjar almennings. Það heldur í skefjum verðbólgu að verulegu leyti, og það gerir það að verkum, að það er hægt að halda uppi betri kjörum fólksins í landinu. Ef því væri hætt og öllu sleppt og látið leika lausum hala, þá mundi verðlagið á nauðsynjavörum í landinu verða svo margfaldað, að alþýðan neyddist til þess að stórhækka kaup sitt. Og hvernig mundi það allt enda? Mundi það ekki enda á því, að íslenzki bátaútvegurinn strandaði? Mundi það ekki verða gráasti leikurinn við íslenzka bátaútveginn að fara inn á þær brautir?

Hv. 2. þm. S-M. sagði að síðustu, og beindi að vísu sínum orðum þar til hæstv. fjmrh., að það væri gamla skálkaskjólið, sem hann og við aðrir í stjórnarflokkunum flýðum inn í, er við töluðum um það, að um samkomulagstillögur sé hér að ræða í frv., sem fyrir liggur. — Ég hygg nú, að íslenzkir kommúnistar, sem áttu fulltrúa í ríkisstj. í rúm tvö ár, hafi orðið þess varir þá, að þeir gátu ekki komið öllu því fram, sem þeir vildu, og þeir urðu að semja við og taka tillit til samstarfsflokka sinna. Þeir hafa sjálfir beinlínis þreifað á þessu og hafa sjálfir undan því kvartað. En svo þegar aðrir flokkar eiga samstarf, þar sem þeir eru ekki með, þá dugar ekki fyrir neinn af þeim flokkum að halda því fram, að það hafi orðið að gera samkomulag um málin. Ósamræmið er svona allt á eina lund í málflutningi þessara manna.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um ræðu hv. 2. þm. S-M., því að verulegur hluti af ræðu hans var sama efnis eins og ræður þær, er hann hefur flutt í öðrum málum hér í hv. þd. í sambandi við nýafgreidda löggjöf út af stuðningi við bátaútveginn vegna aflabrestsins 1948, og sérstaklega á þetta við þann hluta ræðu hans, sem fjallaði um skuldaskilin. Og hefur hæstv. fjmrh. í þeim umr., sem þá fóru fram um það nýafgreidda mál, gert þeim atriðum fullkomin skil, og er engan ástæða til að endurtaka þær umr. hér. — En ég þarf að víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Reykv. Það voru nú hans venjulegu stórpólitísku hugleiðingar, sem við alþm. höfum svo oft heyrt hér á undanförnum árum, með mismunandi blæbrigðum, en svipuðu orðalagi eins og oftast áður. Það var um stríðið, sem hann hélt fram, að háð væri milli kaupsýsluauðvaldsins og útgerðarmannanna. Ég vildi nú segja það fyrst, að í eina skiptið, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur staðið að og stutt ríkisstj., þá held ég, að kaupsýsluauðvaldið hafi aldrei blómgazt jafnmikið eins og á því tímabili — aldrei nokkru sinni — og hann jafnvel átti nokkurn þátt í því sjálfur. Ég held, að hann hafi með sínum ráðstöfunum, þar sem vald hans náði til, ekkert úr því dregið, að hagur þess, sem hann kallar kaupsýsluauðvald, gæti orðið sem allra beztur. Ég held líka hins vegar, að á stjórnartímabili þessarar ríkisstj., sem nú er, sé það svo, að sjaldan áður hafi verið þrengt jafnmikið að kaupsýslustéttinni eins og á þessu tímabili. Ég gæti fært fyrir því góð og gild rök. Það hefur verið kostað kapps um og teknar ákvarðanir um það, að þeir, sem kaupsýslu stunda, megi minna leggja á vörur sínar, en áður. Það hafa á þessu tímabili verið lögð innflutningsgjöld á vörur, sem þeir hafa orðið að innheimta og bera ábyrgð á innheimtu á, án þess að mega nokkuð á vörurnar leggja vegna þessara innflutningsgjalda. Og vörur, sem mestur gróði hefur verið af að selja, hafa verið minna fluttar inn í landið á þessu tímabili, en á löngu tímabili áður o.s.frv., o.s.frv. Ég held því, að það sé alveg áreiðanlegt, að ef kaupsýslumenn ættu að velja um tvö tímabil, tímabil þessarar ríkisstj., sem nú er, eða tímabil fyrrv. ríkisstj., þá mundu þeir ekki vera í vafa um, að þeir kysu fyrra tímabilið, einmitt þegar kommúnistar áttu fulltrúa í ríkisstj. Ég er nú ekki að segja, að það hafi verið sök þeirrar ríkisstj., sem ég studdi og var með, að svo var mynduð, heldur voru tímarnir allt aðrir þá en þeir eru nú. Og þeir tímar voru þannig, að einmitt innflytjendur höfðu ódáinsdaga á þeim árum. Ég segi það líka með stolti, hvað snertir sjávarútveginn, að á tímabili fyrrv. ríkisstj. var gert stórkostlega mikið til þess að fá ný og fullkomin framleiðslutæki inn í landið. Sú nýsköpun, sem þá var framkvæmd, hafði geysilega mikla þýðingu. En það var nokkuð þægilegra um vík fyrir útveginn á þeim tíma að koma framleiðslunni í verð en nú, og aðstæður á mörkuðum erlendis og annað slíkt var nokkru þægilegra þá heldur en nú. Og ég hygg, að í raun og veru hafi þessi núverandi ríkisstj. reynt að gera það, sem máttur íslenzka ríkisins hefur náð til, til þess að styðja og styrkja sjávarútveginn, ekki sízt þar, sem mest er þörfin á því, þ.e. bátaútveginn. Það er vegna þess, að ríkisstj. er fullkomlega ljóst, eins og ég tók fram í minni frumræðu, að hann er svo þýðingarmikill undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, að ríkisvaldið annars vegar og þeir, sem reka þennan atvinnurekstur, hins vegar verða að leggjast á eitt um það, að sá atvinnuvegur stöðvist ekki, heldur vinni áfram með von um það, að það sé hægt að halda rekstrinum í því horfi, að hann beri sig. Ég er ekkert að þakka ríkisstj., þó að hún vilji gera þetta. Og það er í raun og veru heldur ekki hægt að skamma ríkisstj. fyrir, að hún skuli ekki gera enn þá meira. Henni ber skylda til þess að gera það, sem hún getur. En að gera meira en hún getur og ríkið hefur ráð á, það leyfir engin ríkisstj. sér að gera, sem hefur nokkra ábyrgðartilfinningu og kann að meta sína ábyrgð. — Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að gerð væri árás á sjávarútveginn með þeim frv., sem ríkisstj. hefur staðið að og flutt hafa verið. Er það árás á sjávarútveginn að verja 6 millj. kr. til þess að létta sjóveðum og lögveðum af bátunum? Er það árás á sjávarútveginn að gefa honum eftir 16 millj. og nota það til að fá honum til handa viðbótareftirgjöf annars staðar frá? Er það árás á sjávarútveginn að reyna að tryggja, að skuldheimtumenn geti ekki gengið að útgerðarmönnum, þegar verst gegnir og vertíð er að hefjast. Það er að hafa hausavíxl á hlutunum, gera rétt að röngu, hvítt að svörtu, að halda fram, að þetta sé árás. Það er aðstoð, veitt að vísu af takmörkuðum mætti, en aðstoð, sem er skylt að gera og láta í té vegna þess, um hvað þýðingarmikinn atvinnurekstur er að ræða.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um örfáa liði í 29.31. gr., þar sem stj. hefur lagt til, að leitað sé nokkurra nýrra leiða í tekjuöflun til að standa undir þeim dýrtíðarsjóði, sem á að halda niðri verðlagi á nauðsynjavörum almennings og tryggja ákveðið verð á útflutningsvöru bátaútvegsmanna. Í því sambandi fór hann með alls konar fleipur og bollaleggingar, sérstaklega út af bílunum og möguleikum til að ná þar í tekjur. Það er varla hægt að búast við öðru en eitthvað verði flutt inn af bifreiðum á árinu 1949. A.m.k. virðist allstór hópur manna í þinginu telja sjálfsagt að flytja inn sérstaka tegund bifreiða, sem sé jeppa, í stórum stíl. Tveir stærstu flokkar þingsins hafa nú flutt till. um það. Bílakostur landsmanna er nú orðinn talsvert mikill og mikill hluti af honum er nú notaður í almennings þágu. Hér á landi eru engar járnbrautir, en akvegir, sem eru mörg hundruð km. á lengd. Bílanotkun hér er því mikil, og ganga bílarnir því allmikið úr sér á hverju ári. Bifreiðastöðvar og bifreiðarstjórar, sem þar reka atvinnu sína, kvarta undan að fá ekki næga endurnýjun. Það verður því að flytja inn eitthvað af bílum, þó að vegna gjaldeyrisins verði að skera það við nögl. En ég verð að segja, að betur er sá bílstjóri, sem stundar atvinnu á bílstöð, leikinn með því að fá nýjan bíl frá útlöndum, þó að álag sé á hann lagt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., en að kaupa bíl á svörtum markaði. Ég álít, að ef nokkuð væri flutt inn að ráði af bílum, þá ættu þeir ekki hvað sízt að fara til stöðvarbílstjóra, og er þeim þá gefinn kostur á að fá betri bíl og nýrri bíl við miklu lægra verði, en almennt svartamarkaðsverð er, með því að sæta þeim kaupum, sem þeir fengju, þó að þessi skattur væri lagður á. Það væri hægt að gera tvennt í senn, ef viturlega væri á haldið og kostur væri af gjaldeyrisástæðum, að flytja eitthvað af bifreiðum inn, sem menn þurfa nauðsynlega að nota, bæði bifreiðarstjórar og læknar og aðrir, sem nauðsynlega á bílum þurfa að halda, og láta þá fá slíka bíla, þó að með þessu leyfisgjaldi sé, svo að þeir þurfi ekki að leita á svarta markaðinn í vandræðum sínum og kaupa þar verri bíla með miklu hærra verði, og um leið fær ríkissjóður nokkrar tekjur. Ég ætla því, þegar á þetta er litið og maður skoðar það frá þessu rétta sjónarmiði, að ekki sé ástæða til að ætla, að þetta verði til að auka brask og gróða einstakra manna á svörtum markaði, heldur þvert á móti til að draga úr honum og stuðla að því, að þeir, sem helzt þurfa með, geti fengið góða bíla á réttu verði.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ríkisstj. væri með ráðstöfunum sínum að gera bátaútveginn gjaldþrota. Ég hef í raun og veru svarað þessum fáránlegu fullyrðingum með þeim aths., sem ég gerði áður í ræðu minni. Þó að einhverjir standi hér upp á Alþingi Íslendinga og segi slíka fjarstæðu eins og þessa, að ríkisstj. sé með ráðstöfunum sínum að reyna til, að mér skildist af sérstökum illvilja við bátaútveginn, að gera hann gjaldþrota, þá munu bátaútvegsmenn líta nokkuð öðruvísi á það mál, sem hafa á því meiri skilning og meiri sanngirni. Hitt kann að vera rétt, að bátaútvegsmenn vildu gjarna fá meiri aðstoð, hærra ábyrgðarverð og meiri styrk úr opinberum sjóðum til rekstrar síns en hér er lagt til. Og þó að segja mætti, að ástæða gæti verið til þess, þá takmarkast allt af því, að ríkið getur ekki gert meira af sinni hálfu en það, sem geta þess og fjáröflunarmöguleikar ná til. ríkisstj. þykist spenna bogann svo hátt sem unnt er í fjáröflun og að sú fjáröflun verði þó aðeins til að standa straum af því ábyrgðarverði, sem gert er ráð fyrir í frv. stj., því sama og áður hefur verið. En eins og ég hef margoft tekið fram og vil að lokum undirstrika, þá er það ekki það eina, sem stj. vill gera og leggur til, heldur hitt, sem er stórkostleg aðstoð við rekstur bátaútvegsins, að reyna að klippa verulegan hluta af þeim skuldahala, sem bátaútvegurinn verður nú að veifa. Og þar með er þá létt af bátaútveginum þeirri byrði, sem þessir þm. kommúnista hafa talað mjög um, að væri tilfinnanleg fyrir hann, og ég mæli ekki gegn. Það er hægt að draga verulega úr þeim erfiðleikum, ef tekst að lækka þessar skuldir til muna. Það kemur fram á rekstrinum í stórum stíl. Bátaútgerðarmenn kunna að reikna dæmið og láta ekki villa sér sýn með yfirboðum manna og skrumi hér á þingi, sem hafa það eitt að marki að reyna að nota sér erfiðar ástæður þeirra til þess að æsa þá upp til þess að standa á móti skynsamlegum ráðstöfunum, sem gerðar eru með till. stj.