13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Út af þessari nýju 4. gr., sem Nd. setti inn í frv., þá álit ég hana þess eðlis, að rétt væri að láta frv. ganga aftur til n. til athugunar. N. heldur fund í fyrramálið og getur þá athugað málið. Ég sé ekki, að það sé rétt að binda saman skömmtun eða að henni verði aflétt og atvinnuréttindi og akstursreglur bifreiðastjóra. Það er óeðlilegt og gæti orðið til þess að hæstv. ráðh. sæi sér ekki fært að létta af skömmtuninni vegna þess vanda, sem skapaðist vegna þessarar 4. gr., því að þó það sé æskilegt að hafa reglur um atvinnuréttindi bifreiðastjóra, þá virðist það vera krafa bílstjóra, að stéttinni sé lokað, og það kemur hæstv. ráðh. í vanda að ráða fram úr slíku máli. Áður en núverandi skömmtun var sett á, gátu menn keypt benzín án hindrunar, en þá var ekkert slíkt á döfinni hjá bílstjórum, að loka þyrfti stéttinni á þeim tíma. Þess vegna tel ég, að taka verði því með varúð, þegar sú stétt, sem mest var á móti skömmtuninni, telur nú, að ekki megi létta henni af, af því að frjáls sala á benzíni eyðileggi atvinnu hennar. Hitt er það, að ég skil vel, að það sé hagur fyrir mennina í þessari stétt, að henni sé lokað, því að þá fá þeir auðvitað einkarétt á þessari vinnu, en ég tel mjög viðsjárvert að fara inn á slíka braut og hætt við, að slíkt dragi dilk á eftir sér.