13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Ég get verið sammála þeim hv. þm., sem hnotið hafa um 4. gr. Ég fæ ekki skilið, að hægt sé að verða við þeim óskum bílstjóra, sem nú óttast offjölgun í stéttinni, ef benzínskömmtunin verður afnumin. Ég fæ ekki séð, að hægt sé að setja slíkar takmarkanir um fjölgunina með reglugerð. Ég er mjög í efa um, að hægt sé að setja um þetta almenna löggjöf, og ég er enn sannfærðari um það, að hvaða viðleitni sem sýnd væri til þess og hvaða aðferðum sem beitt yrði við að reyna að binda það með lagavaldi, að í þessari stétt mætti ekki starfa nema ákveðin tala manna, t.d. 300, að það væri ekki hægt að hindra menn, sem hafa réttindi, með reglugerð í því að reka atvinnu sína. Og þó að málið færi fyrir dómstólana, get ég ekki séð annað, en það færi á sömu leið. Ég held því, að það sé ekki aðeins óþarft að setja um þetta reglugerð, heldur væri það ólögleg athöfn, þótt það væri lögfest, eins og hv. frsm. n. taldi áðan. Það er áreiðanlega í óefni komið, ef farið væri inn á slíka braut, að setja reglur um, að í þessari stétt mættu vera 300 manns, í annarri t.d. 600 og í sjómannastéttinni t.d. 5.000 menn og þar fram eftir götunum. Hvað er þá orðið af atvinnufrelsinu, og hverjum ætti þetta að bjarga við? Ég held, að bílstjórarnir mundu sansast á þetta, ef þeim væri sýnt fram á það í hreinskilni, að þetta mundi leiða til ófrelsis í þjóðfélaginu, sem ekki er hægt að una við og heimilast varla af nokkrum lagalegum rétti. Hitt væri annað mál, þó að þetta væri ef til vill þolað, ef einhverjar brýnar ástæður væru til þess og þeir beittu þessu sem stéttarlegri ákvörðun til þess að vernda sinn hag, og í því formi gæti ég helzt sætt mig við það, að þeir beittu samtökum sínum til að stöðva í bili offjölgun í stéttina eða starfsgreinina, og væri það gert, þá meira valdi í því framvegis. Ég fæ ekki séð, að ríkisvaldið geti með reglugerð eða á annan hátt tekið í taumana og skammtað í stéttirnar, þessa töluna í þessa stétt og hina töluna í hina stéttina eða starfsemina, og væri það gert, þá er ég viss um, að þeir, sem yrðu fyrir barðinu á þeirri takmörkum, hlytu að líta svo á, að á þeim væri brotinn réttur til atvinnufrelsis í landinu.