03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

118. mál, raforkulög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er að vísu ekki stórfrumvarp, a.m.k. ekki hvað snertir álögur á ríkið. Því er þannig komið fyrir, að ríkið þarf ekki að leggja fram fé fram yfir það, sem áður hefur verið lagt til raforkusjóðs, heldur er aðeins heimilað að jafna muninn milli þeirra, sem í strjálbýlinu búa, og hinna, sem búa í þéttbýlinu og eru þegar farnir að njóta góðs af stærri raforkuverum eða eru þannig settir, að tiltölulega auðvelt er fyrir þá að ná í raforku. Svo eru aftur heil héruð, þar sem erfitt er að koma upp stærri raforkuverum og vonlítið um rafveitur í náinni framtíð. En því er þannig farið nú orðið á heimilum í sveitum, eins og annars staðar, að það er orðin tízka að nota rafmagn og tæplega er hægt að komast af án þess að nota það að meira eða minna leyti, að talið er. Og það er a.m.k. ekki hægt, ef einhver þægindi eiga að vera á heimilinu, og það er nauðsynlegt að hafa þau. Hér er hvorki ætlazt til né gert ráð fyrir geysilegri rafmagnsnotkun, en hitt er það, að gott er að fá rafmagn til að elda við, og þá ekki síður fyrir þvottavélar og önnur slík tæki, sem létta undir með húsfreyjum í fólksleysinu, auk þess sem húsfreyjur ganga ekki ætið heilar til skógar.

Einnig er þannig ástatt víða í sveitum, að bændur hafa orðið að kaupa smámótora til mjalta, og ekki síður til súgþurrkunar, og til fleiri nauðsynlegra hluta. En ég tel réttara að taka stærri vélar, sem koma að meira gagni, en þurfa ekkert meiri pössun en smávélar, og geri ég það að skilyrði fyrir styrkjum og lánum í frv. mínu, að stöðvarnar séu ekki minni en 4 kílówatta. En þessar stærri vélar eru líka dýrari. 4–6 kw. stöðvar kosta sjálfar líklega 8–10 þús. kr., en vitað er, að allar lagnir og annar kostnaður við uppsetningu þeirra nemur annarri eins upphæð, þótt ekki séu reiknuð með þau áhöld, sem þyrftu að fylgja. En eins og ég tek fram í greinargerð frv. míns, eru nú margir bændur búnir að tæma fé sitt í byggingarframkvæmdir á jörðum sínum á undanförnum árum, svo að nauðsynlegt er að styðja þá í þessu efni á einhvern hátt. Ég játa, að mikið vantar á, að þetta frv. komi að fullu gagni, því að betur má, ef duga skal. Það væri því þegið með þökkum að minni hálfu, ef einhver vildi gera hér meira og ganga lengra. Ég vildi leita hér fyrir mér, hver vilji þingsins væri. Ég veit raunar, að hann er ekki nema góður, en það skortir fjármunina, og þó að fé væri fyrir hendi, þá mundi skorta erlendan gjaldeyri.

Hv. þm. Barð. er í iðnn., og skil ég ekki í öðru, en að hann leggi hér orð í belg, þar sem um gott mál er að ræða. Ef ég þekki hann rétt, þori ég að fullyrða, að hann gerir það. En ég vil taka fram, ef ég má leiðbeina n., að verið getur, að lánstíminn sé tiltekinn of langur og fleira þurfi að athuga, og bið ég n. þá að gera það.

Nú er það þannig orðið, að stærri mótorstöðvar hafa rétt til styrkja eða lána, en ekki hinar minni. En mér er tjáð, að hæstv. atvmrh. hafi látið falla orð í þá átt hér í þinginu, að hann væri velviljaður því að lána einnig til minni stöðva. En þar sem engin lög eru til um það, er nauðsynlegt að setja þau. Ég hef borið mig saman um þetta frv. við ýmsa flokksmenn mína hér, og þeir hafa verið sömu skoðunar og ég, að þetta sé upphaf að öðru meira, og vona ég, að svo verði.