03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

118. mál, raforkulög

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. 1. þm. N-M. Hann sagði, að ríkið hefði orðið fyrir stórkostlegum fjárútlátum vegna vatnsvirkjana þeirra, sem framkvæmdar hafa verið undanfarið. Hann nefndi í þessu sambandi Andakílsárvirkjunina og virkjunina fyrir Siglufjarðarkaupstað. Kostnaður við þessar virkjanir fór langt fram úr því, sem allar áætlanir gerðu ráð fyrir, og hafa þessi fyrirtæki ekki getað staðið undir sér, það sem af er. Er nú verið að reyna að bæta úr þessu með því, að ríkið ábyrgist lán til viðbótarvirkjunar, og hefur það verið gert til þess að losa ríkið við þennan bagga, og er eini möguleikinn að fullnota ,þá orku, sem stöðvarnar geta framleitt. Með því einu móti að auka orkuframleiðslu þessara virkjana eru möguleikar á því, að þessi fyrirtæki geti staðið undir sér, og þegar þessar nýju virkjanir hafa verið framkvæmdar og orka stöðvanna eykst, er von til þess, að ríkið geti losnað við þann bagga, sem það hefur haft af þessu. Það er eini möguleikinn til þess, að fullnotað verði það vatn, sem stöðvarnar hafa möguleika til að hagnýta.

Varðandi till. hv. 1. þm. N-M. um að flytja inn diselstöðvar, sem seldar yrðu aðeins innan ákveðinna héraða, þá held ég, að slíkt sé óframkvæmanlegt. Það er ekki hægt að skipa einum að kaupa, en synja svo öðrum um kaup, sem hefði í hyggju að koma sér upp rafstöð, aðeins sökum þess, að hann byggi í öðru héraði en hinn. Hitt er svo annað mál, hvort ekki skuli athuga, að þeir gangi fyrir með fyrirgreiðslu í þessu efni, þar sem sýnilegt er, að ekki eru möguleikar á að fá raforku frá öðrum orkustöðvum. Og það hefur verið venja hjá þeim mönnum, sem leiðbeina um þetta, að þeir hafa gert áætlun nokkuð fram í tímann, sem næst að ætla mætti, að gæti komið til greina. Og þeir hafa bent mönnum á, sem ætluðu að hefja smávirkjun, að það muni ekki koma til greina, að slíkar framkvæmdir verði styrktar.

Þá fann hv. þm. að því, að ég teldi sjálfsagt að flytja inn fleiri en eina tegund þessara véla fyrst um sinn, og má að vísu vitanlega fara of langt í því efni, en ég tel ekki rétt, þar sem ekki er enn fengin meiri reynsla hér á landi fyrir slíkum tækjum, að binda sig fyrir fram við eitt einasta tæki, þótt álitlegt sé. Ég vil, að það séu möguleikar fyrir því að flytja inn fleiri slík tæki nú fyrstu árin, en hins vegar er sjálfsagt, að látin verði fara fram rannsókn á, hvert þessara tækja er hentugast fyrir okkur, og þegar slík reynsla er fengin, er fyrst tími til kominn til að beina þeim kaupum í ákveðinn farveg. En hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm., að samhliða því, að aukin yrði útbreiðsla á slíkum tækjum, dieselvélum, til ljósa, þá er nauðsynlegt að koma upp leiðbeiningastarfsemi og viðgerðastarfsemi á þessum tækjum, og það er mál, sem fyllilega er tímabært að taka til athugunar.