03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

118. mál, raforkulög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið. Ég hygg, að það sé alveg rétt hjá flm., að þó að slíkar stöðvar kosti ekki meira en 8–10 þús. kr. sjálfar, þá sé kostnaðurinn samfara því að byggja slíka stöð á meðalsveitaheimili, þegar línan hefur verið lögð og tæki keypt, kominn upp í 30 þús. og þá sé um slíka upphæð að ræða, að full þörf sé fyrir flesta bændur að fá einhverja aðstoð til þess að koma slíku mannvirki upp.

Það hefur verið af hæstv. atvmrh. vikið að því hér, að rafmagnseftirliti ríkisins hefði verið falið að kynna sér vélar til slíkra stöðva, til þess að geta leiðbeint mönnum um val slíkra véla, sem helzt kæmu til greina.

Þeir eru orðnir margir bændurnir, sem hafa snúið sér til alþm. og beðið um upplýsingar viðvíkjandi þessum vélum. Ég hef fengið nokkur slík bréf frá bændum, og hef ég snúið mér af þeim ástæðum til rafmagnseftirlits ríkisins, þar sem vissulega eru hvergi eins margir sérfræðingar á því sviði saman komnir, og spurzt fyrir um, hvaða vélar þeir teldu helzt koma til greina fyrir sveitaheimill. En svör þessara manna eru á þann veg að helzt lítur út fyrir, að það sé alveg af sérstökum ástæðum gert, að þeir vilja ekki mæla með einni tegund frekar en annarri. Má vera, að þeir telji það rétt vegna nauðsynlegs hlutleysis gagnvart þeim, sem selja vélarnar. Ég er hræddur um, að það verði hending eða tilviljun, hvaða vélar menn yfirleitt kaupi, og það verði áður en langt líður svo mikill urmull af vélum til slíkra nota, að slíkt geti valdið óþægindum, vegna þess að illa er séð fyrir varahlutum til slíkra véla. Þess vegna hefði ég haldið, að heppilegra væri að binda þessar tilraunir, sem ég hygg, að megi kalla svo, á næstu árum við 2–3 vélategundir og helzt ekki fleiri keyptar í þessu skyni, ef það t.d. væri álit mótorfræðinga, að einhverjir sérstakir mótorar væru heppilegastir með tilliti til rekstrar og ganghraða.

En það er í sambandi við þetta mál eitt atriði, sem mig langar að vekja athygli á, og það er, að um fleiri möguleika er að ræða, en að byggja stórar rafstöðvar og diesel- og benzínmótorrafstöðvar. Að vísu er gert ráð fyrir því í raforkul., en ég er hræddur um, að það gleymist, þegar opnaðir eru slíkir möguleikar sem þessir, sem hér er um að ræða, ef þetta verður samþ., en það má að minni hyggju ekki ganga fram hjá góðum virkjunarskilyrðum vatnsafls á sveitaheimilum. Það eru kannske ekki að öllu leyti fjárhagsörðugleikarnir, sem valda því, að fyrr er hugsað um að fá mótorvélar, en að hugsað sé til þess að virkja á eða bæjarlæk, sem rennur við túngarðinn, heldur hitt, að erfitt er að undirbúa slíka framkvæmd fyrir sveitabóndann. Ég tek dæmi til skýringar. Fyrir hálfum mánuði síðan barst mér bréf úr Norður-Ísafjarðarsýslu um það að grennslast eftir, hvaða vélar væru tiltækilegastar og beztar fyrir rafstöðvar á 5 eða 6 sveitabæi. Ég hóf rannsókn í málinu, talaði við SÍS, rafmagnseftirlit ríkisins, landssmiðjuna o.fl. fyrirtæki, sem bjóða þetta fram. En meðan ég var að safna þessum gögnum, þá skrifaði ég og benti á, að hjá túnfætinum rynni á, sem hafði verið hugsað að virkja fyrir nærliggjandi þorp, en reyndist þó ekki nægilega vatnsmikil til þess. Þarna er um 6 bæi að ræða eða 6 bændur, því að tvíbýli mun vera á tveimur, sem liggja báðum megin árinnar, og eru þess vegna möguleikar á því að virkja þessa á með góðum árangri fyrir þessi 6 bændabýli, en nú virðast allir helzt hugsa sér að fá sér sína dieselmótorvél til raforku, en gleyma ánni. Hvað vantar bændur, til þess að athygli þeirra beinist fyrst og fremst að ánni? Þá vantar sérfróða leiðbeinendur um slíka hluti, hvort virkjun árinnar hentar þeim, hvort hægt er að virkja 25–30 hestafla stöð og hvort kostnaðurinn við slíka virkjun verður meiri, en að fá 5–6 mótorrafstöðvar á þessa bæi. Ef þeir ættu kost á, að þessi sérfræðilega athugun yrði framkvæmd með viðráðanlegum kostnaði eða þeim að kostnaðarlausu, þá hygg ég, að þarna væri miklu betri lýsing hugsanleg fyrir alla þessa bæi heldur en þó að þeir allir fengju sér mótorrafstöðvar. Það er ekki aðeins gagnvart þessu frv., sem ég vildi leiða þetta inn í umr., ég vildi minna á það, að við megum ekki verða svo ginnkeyptir að hugsa eingöngu um þær vélar, sem brenna gjaldeyri á hverju ári og hafa lítið rekstraröryggi, en ganga svo fram hjá möguleikum, sem kannske eru til í landareign sveitabæjanna, ef rétt aðstoð væri veitt af hendi ríkisvaldsins. Ég álít, að það mannafl, sem er í þjónustu ríkisins hjá rafmagnseftirlitinu, sé svo mikið, að hægt væri að sjá af, þótt ekki væri nema einum manni, og væri þá mjög vel varið hans vinnu til að athuga, hvort möguleikar séu fyrir hendi til virkjunar á vatnsafli á sveitabæjum, og væri þess vissulega full þörf, áður en keyptir eru mörg hundruð mótorar fyrir sveitirnar. Ég tel það t.d. sjálfsagt, að áður en farið væri að útvega þessum 6 bændum, sem ég nefndi, lán eða styrk til mótorrafstöðva, að senda þeim mann frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að athuga þessa á, Dvergasteinsá í Álftafirði. Mér dylst það ekki, að þar sem hægt er að leysa þessi mál fyrir einstök sveitaheimili með virkjun vatnsafls, þá sé það að öllu leyti bezta leiðin, miklu meira rekstraröryggi, miklu minni rekstrarkostnaður og minni gjaldeyriseyðsla við áframhaldandi rekstur. Ég vil gjarna, að það verði athugað af þeirri n., sem fær málið til athugunar, t.d. hvort ekki sé rétt að breyta raforkul. á þann veg, að sett yrði inn ákvæði, sem ýtti undir, að rafmagnseftirlit ríkisins hefði forgöngu um að athuga jafnframt, hvað henti bezt fyrir sveitaheimili. Væri hægt að koma upp slíkri stöð á sveitabýli, mundi stofnkostnaðurinn vissulega verða eins mikill og mótorstöðvar koma til með að kosta, en þá sjá allir, að það væri mikill munur með rekstrarafkomuna, sem yrði beinn hagnaður.

Það, sem ég vildi sérstaklega leggja áherzlu á í sambandi við þetta, er, hvort ekki væri hægt að gera mönnum miklu auðveldara fyrir að fá athuganir um slíka hluti framkvæmda af sérfróðum mönnum án endurgjalds fyrir bændur. Annars er ég þakklátur flm. fyrir þetta frv. og tel, að það mundi í mörgum tilfellum bæta úr fyrir sveitaheimilum, þar sem annars kostar er ekki völ, og mundi leysa úr brýnni raforkuþörf margra sveitabæja, sem annars fengju ekki þessa orku. Það má segja, að það sé enn brýnni þörf nú en áður fyrir bændur að fá rafmagn, þar sem fólkseklan er orðin svo mikil, að varla er hægt að gera ráð fyrir búskap í framtíðinni, nema heyið verði verkað annaðhvort með súgþurrkun eða í turnum, og þetta kostar hvort tveggja mótorafl. Og þegar það mótorafl er komið, þá vilja menn hafa raforku til fleiri hluta, enda þörfin mikil fyrir það.