03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

118. mál, raforkulög

Eiríkur Einarsson:

Það þarf engan að furða á því, að þetta frv. er fram komið, því að þörfin úti um hinar dreifðu byggðir landsins er svo mikil, að um það er ekki hægt að efast, hvað hér er til umr. og hver áhugi fylgir máli. Af því að þetta er mikilsvert mál, verðskuldar það velvilja þeirra, sem eiga um það að fjalla, og því meira liggur á, að vel sé um alla hnúta búið, ef það kemst svo langt að verða að lagasetningu, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég á erfitt með annað en að ljá því atkvæði mitt.

Ég vildi leyfa mér að beina orðum mínum til þeirrar n., sem fær málið til athugunar. Eftir aðalgr. eru þetta heimildarl., að veita eins og þar getur. En í niðurlagi gr. segir, að ráðh. ákveði lán og styrki, að fengnum till. raforkun. Ég skil það svo að, að hve miklu leyti á að ganga á möguleika raforkusjóðs til þessara aðgerða muni ákveðið af viðkomandi ráðh. að fengnum till. raforkun. Mér finnst, að það væri öruggara að hafa þetta lögfest, því að reynsla, sem þegar er fengin, er í mörgum tilfellum mjög dýr. Þó að menn hafi verið að leggja í þann kostnað að raflýsa hjá sér, þá hefur það oft orðið skammvinn og dýr þægindi vegna vöntunar á leiðbeiningum um val vélanna. Ég staðhæfi, að þetta hefur átt sér stað, því er verr. En ef ætti að gera þessa úrlausn almennari, en verið hefur til þessa, og fullnægja fleiri mönnum þjóðfélagsins en verið hefur, þá þarf að treysta sem bezt, að svo mætti verða, og það ætti að koma fram í lagasetningunni sjálfri. Ég álít mjög nauðsynlegt, að áður en farið er að leggja í það að kaupa vélar til raflýsingar og leggja þannig í mikinn kostnað, þá þurfi að vera fengin reynsla fyrir þeim vélum og þar sé farið eftir áliti hinna sérfróðu manna, en ekki að menn kaupi vélar, sem lítil eða engin reynsla er fyrir, jafnvel þó að kaupgeta sé fyrir hendi. Það þarf að útiloka það, að menn kaupi köttinn í sekknum. Það er talað þarna um lán til 15 ára, og veit ég, að hv. flm. meinar allt vel með því, og kann ég vel að meta þann hug, sem liggur þar á bak við. En þá þarf um leið að vera trygging fyrir því, að þær vélar endist í 15 ár. Ég segi þetta bara í varúðarskyni. Ég vona, að hv. flm. taki það vel upp og hv. n., sem fær málið til athugunar, athugi það vel. Eins og tekið var fram áðan, hefur rafmagnseftirlit ríkisins yfir mikilli þekkingu að ráða á þessu sviði, og ætti það að geta gefið þær ráðleggingar, sem kæmu að hinum beztu notum.