03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

118. mál, raforkulög

Gísli Jónsson:

Ég hafði ekki ástæðu til að vera við, þegar hv. 1. þm. N-M. talaði. Mér hefur verið sagt, að hann hafi talað um það hér, að það hafi legið fyrir fjvn. beiðni um stórkostleg fjárframlög handa ýmsum rafveitum, sem ekki gætu sjálfar staðið undir vöxtum og afborgunum. Ég skal í þessu sambandi benda á, að í fyrsta lagi hefur ekki komið til kasta ríkissjóðs að greiða þetta fyrr en þá á þessu ári eða neitt til kasta fjvn. að ákveða neitt um það, hvort veitt væri til slíkra útgjalda. Það hefur fyrst nú legið fyrir fjvn. nokkur upphæð, sem sett er inn á fjárlagafrv. og ætluð er til þess að mæta vangoldnum vöxtum og afborgunum frá ýmsum fyrirtækjum í landinu, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, m.a. nokkrum rafveitum, en einnig nokkrum höfnum, og þetta er í fyrsta skipti, sem fjvn. hefur haft með slík mál að gera, og hún hefur rætt um það í alvöru, hvort ekki sé rétt, þegar svo stendur á eins og hér er nú komið á daginn, að setja slík fyrirtæki undir opinbera stjórn. Og hefur n. hugsað sér að láta þessi erindi ganga til félmrn. og rætt nokkuð við skrifstofustjóra þess ráðuneytis, sem hefur verið að nokkru leyti á þeirri skoðun, að í hvert skipti, sem ekki væru greiddar slíkar skuldir, vextir og afborganir af lánum, sem ríkissjóður væri í ábyrgð fyrir, þá sé horfið að því ráði að hafa eftirlit með viðkomandi fyrirtækjum. Hér getur verið að ræða um margt annað, en rafveitur, það er ýmislegt fleira, en fjvn., Alþ. og jafnvel ekki ráðuneytið hefur ekki nokkur tök á því að geta fylgzt með, hvort yfirleitt þær tekjur, sem koma inn til þessa eða hins fyrirtækisins, séu notaðar beinlínis til að borga útgjöld þess fyrirtækis eða teknar beint inn í sveitarsjóðinn, auk þess sem ekki er heldur tækifæri til að fylgjast með, hvort greiðsluþolið er notað til hins ýtrasta í sambandi við álagningu útsvara. Þess vegna þykir rétt að taka þegar upp þá stefnu yfirleitt, að fyrirtæki, sem rekin eru þannig með ábyrgð ríkissjóðs eða hann hefur gengið í ábyrgð fyrir að allt að 85% af kostnaðarverði, fái það aðhald, sem ég hef rætt um. Ég hygg, að þetta verði athugað síðar.

Hv. þm. er kunnugt um það, að ríkissjóður er í ábyrgð fyrir hundruðum milljóna króna hingað og þangað hjá bæjar- og sveitarfélögum, og hljótast af því áreiðanlega vandræði, ef ekki er tekið strax í taumana í sambandi við þau mál.

Í sambandi við málið sjálft vil ég leyfa mér að benda á, að málið fer í n., sem ég á sæti í og er formaður fyrir, og ég mun taka málið fyrir eins fljótt og hægt er, og skal ég láta taka til athugunar öll þau atriði, sem hér hefur verið minnzt á.

Ég vil ljúka máli mínu með því að benda á, að þetta er ekki nýtt mál, heldur mjög rætt í iðnn., þegar l. voru sett, einmitt í sambandi við 35. gr. og þá af raforkumrh., sem setti sig algerlega á móti þessu máli þá. Það var að vísu annar maður en nú er, núverandi viðskmrh. En af því að ráðh. setti sig á móti því, fékkst það ekki samþ., þegar l. voru samþykkt. Þetta ber ekki að skilja svo, að ég sé andvígur málinu, heldur skýri ég aðeins frá því, hvernig það hefur gengið áður.

Rafveitumálunum er skipt þannig, að það eru Rafmagnsveitur ríkisins annars vegar, þar sem ríkið leggur til allan stofnkostnað, og fær úr rafveitusjóði árlegan styrk til að greiða rekstrarhalla, þar til veiturnar fara að bera sig. Það er aldrei veitt úr ríkissjóði á annan hátt en í rafveitusjóðinn samkvæmt l., en úr honum til rafmagnsveitna ríkisins, sem áætlað er, að verði að veita hverri veitu fyrstu 3 árin, en fari svo minnkandi og féð verði síðan endurgreitt í sjóðinn aftur. Þetta gera héraðsrafveitur ekki. Og þessi kostnaður er mér sagt, að sé 15–20 þús. kr. á býli. Nú teldi ég sjálfsagt, ef þessi brtt. yrði samþ., að gera stóran greinarmun á því, sem fer til þess að leggja lagnir um hús, og gæta þess, að þær séu lagðar þannig, að rafmagnseftirlit ríkisins taki þær gildar fyrir raforku, sem kynni að koma frá raforkuverum síðar meir. En þá vaknar sú spurning: Er meiri ástæða til þess, að ríkissjóður taki að sér að greiða eða styrkja eða lána til þess að koma fram þessum hluta framkvæmdanna, þeim hluta, sem bændur verða að borga hvort sem er, þó að bændur hafi að öðru leyti allan kostnaðinn? Mér finnst þá síður en svo útilokað, að til þess gæti komið, að sams konar kjör yrði að gefa hinum öðrum bændum, sem verða sjálfir að kosta tengingargjaldið í hús sin, og sé ég ekki, að hægt sé að fara inn á þessa braut nema opna leið til þess, að þessir menn fái sömu aðstoð. Að því er snertir hina staðina, þar sem héraðsrafveitur eru og héruðin sjálf byggja veiturnar, t.d. á Siglufirði, þar fá viðkomandi aðilar engan styrk, en hins vegar 80% ábyrgð á kostnaðarverði til þess að koma þessu á hjá sér, en á þessum stöðum verða bændur og aðrir að borga allan innlagningarkostnað sjálfir, og hafa þessar stöðvar ekki fengið neinn styrk frá ríkinu, nema ef það kemur til nú, að þeir þurfi að fá hjálp til þess að komast yfir erfiðleika fyrstu áranna, eins og rafveitur ríkisins, og fyndist mér það ekkert óeðlilegt. Það yrði þá endurgreitt ríkinu, ef stöðvarnar gætu borið sig.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram. Sumar þessar héraðsrafveitur hafa orðið að kaupa stóra, dýra dieselmótora, og á s.l. ári var samþ. að skipta á fjárl. 250 þús. kr. milli þessara stöðva sem láni með hagkvæmum kjörum. Þessu var skipt milli nokkurra stöðva, og varð nokkur ágreiningur um það í rn., því að hér vildi rn. ekki fara lengra niður i vaxtabyrði en 4%, og fékkst um það samkomulag. Bentu þeir á þessi rök og sögðu: Bændur og aðrir, sem fá rafmagn frá aðallínunum, verða sjálfir að bera uppi allan kostnað við tengingu og innlagningu. Og þó að þessir hreppar eða héruð verði sjálf að koma upp sinni rafstöð, teljum við ekki óeðlilegt, að þeir beri af því sanngjarna vexti. — Þetta vildi ég láta koma fram.

Í sambandi við það, sem hv. 3. landsk. sagði, vil ég taka fram, að hann byggir þetta á misskilningi. Það er skýrt kveðið á um það í l., að úr raforkusjóði á að greiða þennan kostnað, sem hann talaði um. Rafmagnseftirlit ríkisins er skyldugt að framkvæma þetta og taka það gjald úr raforkusjóði. Og mér er kunnugt um það, að raforkumálastjóri hefur ekki verið neitt tregur til að láta þessa þjónustu í té. En það er annað, sem hann hefur haldið fram og kannske með réttu. Hann hefur sagt: Okkar byrjunarstig er það, að við viljum senda skýrar og góðar leiðbeiningar til viðkomandi aðila, til þess að þeir geti sjálfir látið fara fram mælingar á þessum vötnum og lækjum, sem vara að minnsta kosti eitt eða tvö ár. En margir bændur hafa ekki þolinmæði til þess að láta þessar athuganir fara fram, og auðvitað er útilokað fyrir rafmagnseftirlit ríkisins að hafa um allt land lið manna til þess að hafa slíkar mælingar með höndum, en þessar mælingar eru grundvallaratriði þess, að hægt sé að virkja.

Allt skal þetta verða athugað í n. og leitað upplýsinga frá viðkomandi aðilum, sem svo að sjálfsögðu verður skýrt í nál., þegar þar að kemur.