05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

118. mál, raforkulög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var rætt í n. voru ekki allir nm. viðstaddir. Ágreiningur varð um afgreiðslu málsins, en þó er nál. undirritað af öllum nm., sem við voru, þótt ekki væru þeir allir sammála, enda hefur einn þeirra flutt brtt. á þskj. 502. Hér er um það að ræða, hvort raforkusjóði eigi samkv. l. að vera heimilt að lána út á mótorrafstöðvar, þar sem ekki er í fyrirsjáanlegri framtíð mögulegt að fá ríkisrafveitur eða vatnsaflstöðvar fyrir heimilin. Mjög víða hagar svo til, að ekki er von til þess að fá rafmagn með vatnsafli, og þá er það, sem margir, er líta rafmagn hýru auga, vilja reyna að fá það með mótorvélum. Þær eru misstórar eftir þörf heimilanna og notkun og verða því misdýrar. Þar, sem hægt er að raflýsa með vatnsafli, er hægt að fá lán úr ræktunarsjóði og raforkusjóði. Lánin eru veitt til vissra ára, fleiri en hér er gert ráð fyrir til mótorstöðvanna og með lægri vöxtum, en gert er ráð fyrir í brtt. Raforkusjóður lánar til 17 ára með 21/2% vöxtum, og er lánið afborganalaust fyrstu tvö árin, en greiðist svo upp á 15 árum. Þar sem mótorrafstöðvarnar endast ekki eins lengi, eða ekki nema ca. 8–12 ár, þá höfum við ekki lagt til, að lánstíminn til þeirra væri lengri en 8 ár. Það er sú ending, sem rafmagnsstjóri telur þessar stöðvar yfirleitt hafa. Við höfum tekið 3% vexti inn í brtt., sem er gert til samkomulags, og hélt ég, að allir mundu sætta sig við það, en þó kysi ég persónulega, að lánskjörin fyrir þessar mótorstöðvar væru eins góð og fyrir vatnsaflstöðvarnar. Lánskjörin í báðum sjóðunum þyrftu einnig að vera hin sömu. Ræktunarsjóður lánar með 21/2%, og ef þessi á að lána með 3%, þá verður það til þess að öllu er þrýst yfir á ræktunarsjóð. Lánskjörin þyrftu því helzt að vera hin sömu, en ég gekk inn á hitt til samkomulags, en einn nm. kemur svo með brtt. á þskj. 502, enda höfðu nm. áskilið sér rétt til þess. En úr því að svo er, þá hef ég sterka tilhneigingu til þess að fá vöxtunum breytt úr 3% í 21/2%, svo að lánskjörin séu eins í báðum sjóðunum, og ég hugsa bara, að það sé heppilegast að gera það. Þá þótti okkur nm., að veðið fyrir lánunum væri heldur lélegt, og tókum því upp í till. okkar, að lánað skyldi aðeins út á fasteignaveð, og um það var ekki ágreiningur í n. Hins vegar var ágreiningur um það, hvort lána skyldi til aflstöðvanna einna eða einnig til leiðslna frá þeim og um húsið og jafnvel til rafmagnsáhalda í húsinu. Ég tel, að ekki beri að ganga lengra, en það að lána út á mótorstöðvarnar sjálfar, en ekki leiðslurnar, því að ekki eru veitt lán fyrir vatnsaflstöðvar nema til aflstöðvanna sjálfra, og ætti sami háttur að vera hafður á í báðum tilfellum. En meginatriði þessa máls er það, að þeim heimilum, sem ekki geta fengið rafmagn frá ríkisveitunum eða með vatnsafli, verði gert kleift að fá rafmagn með bærilegum kjörum. Ég veit, að sumir munu segja, að mótorstöðvarnar séu svo ódýrar — ca. 20–30 þús. kr., — að til þeirra þurfi ekki að veita lán. En þótt þetta sé ekki meira, þá eru margir svo staddir, að þeir hafa fulla þörf á lánum til þessara framkvæmda. Vænti ég því, að þetta réttlætismál nái fram að ganga.