05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

118. mál, raforkulög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera grein fyrir brtt. minni, því að hv. flm. heldur, að ég meini annað, en ég geri. Í raun og veru tel ég vafasamt að fara nokkuð inn á þá braut að gefa hagkvæmari kjör til þess að koma upp motorrafstöðvum. Þegar raforkul. voru til umr., var þetta mjög rætt í iðnn. báðum, og það var þá einróma álit, að ekki ætti að fara inn á þessa braut, því að það væri óráðlegt að festa fé í vafasömum dieselmótorum og það gæti orðið til þess að tefja fyrir vatnsaflsvirkjun. Síðan hef ég fengið upplýsingar um, að fjöldi bænda óski eftir að kaupa slíkar mótorrafstöðvar, svo að í því mundu bindast þó nokkrar milljónir, ef að því ráði yrði horfið. Ég hef í dag talað við mann, sem haft hefur í eitt ár sjö kílóvatta stöð. Kostnaðurinn við eldsneyti, smurnings- og dieselolíur hefur á einu ári orðið 5 þús. kr. Ef þessar upplýsingar eru réttar, er það vafasamt, hvort það er ekki bjarnargreiði að styrkja menn til þess að koma upp þessum stöðvum. Þetta er ein af ástæðunum til þess, að ég hef ekki getað fylgt þessu máli.

Í 35. gr. raforkulaganna er svo ákveðið, að einstakir bændur, sem sameinast um að reisa vatnsraforkustöðvar til heimilisnota, geti fengið lán úr raforkusjóði allt að 2/3 kostnaðar með 2% vöxtum. Þetta er allt annars eðlis. Reynsla er fyrir því, að þessar stöðvar geta enzt í marga áratugi, viðhaldið er ekkert og til rekstrar þeirra fer enginn erlendur gjaldeyrir. Ég held, að það væri betur farið að styrkja bændur til þess að koma upp slíkum stöðvum ,en að veita þeim styrk eða lán til þess að koma upp mótorrafstöðum. Samkvæmt l. njóta þessar vatnsraforkustöðvar hagkvæmustu kjara, því að önnur lán eru ekki veitt úr raforkusjóði gegn 2% vöxtum, og hvergi sést sú trygging, sem hv. flm. vill, að sett sé hér. Aðrir útlánsvextir raforkusjóðs eru breytilegir, þar sem miðað er við, að þeir megi vera allt að 21/2% lægri, en forvextir Landsbankans, og á síðasta ári ákvað stj., að þeir skyldu vera 4%.

Það er líka annað, sem gerir, að ég er ekki sérstaklega fús að fylgja þessu máli, þó að ég muni ekki leggja stein í götu þess. Ég sé ekki, af hverju menn ættu ekki sjálfir að standa undir þessum kostnaði, eins og þeir bera kostnaðinn við það að leggja til sín heimtaug frá héraðsrafmagnsveitu. Heimtaug frá aðalveitu kostar á sveitaheimili um 6 þús. kr. Fyrst verður að borga alla lögnina og inntökugjald, sem er álíka upphæð og sú aflstöð kostar, sem hér er talað um. Mér finnst því, að þeir, sem þær fengju samkvæmt þessu frv., yrðu betur settir. (ÞÞ: Guð hjálpi þm.) Já, guð hjálpi hv. þm. Dal. til að skilja þetta.

Þá er komið að því, hvort eðlilegt er að krefjast þeirra trygginga, sem hér er gert ráð fyrir. Hv. þm. sagði, að ekki hefði verið ágreiningur um trygginguna. Hann hefur gleymt því, að ég gerði strax ágreining í n. Ég sé ekki, hvernig hægt er að ákveða, að maður, sem ætlar að nota sér þetta, geti veðbundið jörð, sem hann á ekkert í. Hann verður þá að fá leyfi landeiganda til þess að veðbinda fasteign fyrir lausafé, sem hann getur þotið burt með fyrirvaralaust, sem hægt er að keyra burt á hjólbörum eða tveir menn geta borið á milli sín. Auk þess er engin trygging fyrir því, að vélarinnar sé gætt svo, að verðmæti hennar rýrni ekki. Ef óhapp ber að höndum, getur hún verið verðlaus eftir nokkrar vikur eða mánuði. Ég get ekki talið það rétt að gera það að skilyrði að veðbinda fasteignina, því að þá er útilokað, að menn geti notað þetta. Auk þess er ég á móti því, að ráðh. ákveði þessi lán að fengnum till. raforkuráðs, þar sem ég tel, að raforkuráð eigi að hafa ákvörðunarvaldið. Ég hef því borið fram brtt. á þskj. 502 um, að orðin „til átta ára með 3% ársvöxtum og jöfnum afborgunum og veði í aflvélinni og fasteign, sem raforkuráð tekur gilt, og má lánið vera“ falli burt. Þá hljóðar gr. þannig: „Einnig er heimilt að veita úr raforkusjóði einstökum bændum, er reisa á heimilum sínum rafstöðvar, reknar með vélaafli (mótorstöðvar), lán allt að 3/5 af kostnaðarverði vélarinnar.“ Síðari till., sem ég ber fram á þskj. 502, er þannig: „Lán þessi ákveður ráðh. samkvæmt till. raforkuráðs, með þeim lánskjörum og gegn þeim tryggingum, sem ráðið ákveður.“ Raforkuráð getur bezt um það dæmt, hvað hagkvæmt er og viturlegt í þessum efnum, og því eðlilegast, að það hafi þetta með höndum.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á þessar till. mínar. Ég mun þó ekki greiða atkv. á móti frv., þó að þær verði felldar, svo mikið kapp legg ég ekki á þær, en ég tel meiri tryggingu í því, að þetta sé í höndum manna, sem hafa þetta að lífsstarfi, en í höndum ráðh., sem koma og fara. Þó að lánskjörin geti verið breytileg, fara þau í nokkuð fastar skorður, þegar það er sama stofnun, sem ákveður þau.

Erfiðleikar raforkusjóðs eru svo miklir, að ekki þótti gerlegt í fyrra eða í ár að taka þá litlu upphæð úr sjóðnum, er ákveðið er að veita sem lán til dieselrafstöðva yfir 100 hestöfl. Hún var því sett sem sérstakur liður á fjárl. Nú er beðið um miklu hærri upphæðir en hægt er að veita, og þó var samþ. að hafa framlagið 100% hærra en ráðh. lagði til. Ég hef skýrt mína afstöðu og læt svo atkv. ganga um málið.