10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og sjá má af grg. með frv., er með því farið í að lækka nokkuð upphæðir til niðurgreiðslu á kjöti. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur farið mikið fé til slíkrar niðurgreiðslu undanfarið. Ég hef nýlega í Sþ. lýst því yfir, að ríkisstj. mundi leitast við að bera fram frv. til þess að jafna greiðsluhalla á fjárl., en þetta er ein leiðin til þess. Þó er þannig farið í þetta, að það á ekki að snerta þá tekjulægstu, og eins og sýnir í 4. lið 1. gr., þá eru þeir, sem hafa vissar tekjur, miðað við persónufrádrátt, undanþegnir.

Ríkisstj. hefur beðið fjhn. að flytja þetta mál, og liggur það hér fyrir á þskj. 684. Ég vil ætla, að hér sé ekki svo stórt að gert, að hv. þm. muni ekki sjá sér fært að greiða frv. atkv. og vil mælast til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.