10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið við þeim tilmælum að flytja þetta frv., en vildi mega beina því til hæstv. fjmrh. í sambandi við 4. lið 1. gr., af því að við í fjhn. gátum ekki athugað þetta sem skyldi, þar sem það kom fyrir n. fyrst í morgun, hvað þetta mundi þýða fyrir skattþegnana hvað auknar álögur snertir og hvenær þetta komi til greina. Eftir orðalaginu þarna gæti orðið ágreiningur um þetta. Í öðru lagi er nauðsynlegt að fá upplýst, hvað mikið hæstv. ríkisstj. hyggst spara með þessu móti. — Það er vitað mál, að framfærsluvísitalan hefur verið svo mikið fölsuð undanfarið, að það er hart að ætla að fara að afnema þá leiðréttingu, sem framkvæmd var í henni með því að taka upp kjötuppbæturnar, því að gefið mál er, að það þýðir sama og auknir skattar, og hefði e.t.v. verið eðlilegra hjá hæstv. ríkisstj. að koma með þessar álögur í því formi, því að þá væri þó hægara að vita, hvað þetta þýðir fyrir hina ýmsu þegna. Mér finnst nú fljótt á litið sem með þessu frv. sé seilzt það langt niður í tekjustigann, að fyrir meginið af launþegum sé þetta nokkuð tilfinnanlegt og virðist koma við allan þorra þeirra launþega, sem hafa haft sæmileg kjör fram að þessu, svo sem iðnaðarmenn, faglærða verkamenn og sjómenn. Það fer ekki hjá því, að þessi lagabreyt. hefur í för með sér tilfinnanlega tekjurýrnun fyrir mikinn hluta launþeganna. Þetta er einn liðurinn í þeirri fjármálapólitík hæstv. ríkisstj. að láta álögurnar lenda á launþegum og verkalýð fyrst og fremst. En með þessu er hún í raun og veru að færa sig enn lengra upp á skaftið, en gert var með vísitölubindingunni. Ég tel auk þess frv. svo úr garði gert, að óvíst sé samkv. 4. lið 1. gr., hvar takmörkin eru sett. Þetta hefur ekki verið athugað svo vel í fjhn., að ég sé viss um, að það, sem ákvæði eru um í 4. lið 1. gr., sé ekki í rauninni óframkvæmanlegt. Það er orðið svo með mörg lagafrv. hér á Alþ., að það er svo illa frá þeim gengið, að þegar á næstu þingum þarf að fara að laga þau og breyta þeim. En aðalatriðið er þetta, að með þessari gr. er verið að þyngja skatta á launþegum, sem undanfarið hafa verið það þungir, að menn hafa yfirleitt verið sammála um, að ekki mætti þyngja þá enn meir. Ofan á það bætist nú það, að í ár munu útsvör yfirleitt verða 1/3 hærri á landsmönnum en áður, og geta manna fer síminnkandi til að standa undir þessum greiðslum. Það fer því fjarri, að rétt sé að auka nú skattana á launþegunum, og vil ég því mótmæla þessu fyrir hönd þeirra launþega, sem það nær til, enda þótt þeir kunni að vera skár settir, en ýmsir aðrir. Ég veit, að það verður sagt, að með þessu sé verið að afnema skattfríðindi handa hátekjumönnum, en drýgstu tekjurnar munu nú renna í ríkissjóð frá launþegunum vegna þessara ákvæða. En til þess að fá að vita þetta nákvæmlega, þætti mér vænt um, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa, við hvaða tekjumark, miðað við 5 manna fjölskyldu, menn hætta að fá uppbæturnar greiddar og eins hitt, hve miklar tekjur ríkisstj. hyggst að fá með þessum ráðstöfunum. (Fjmrh.: Ég vildi fá leyfi til að svara þessum spurningum hv. 2. þm. Reykv. við 2. umr. málsins.)