11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú gefið nokkuð af þeim upplýsingum, sem ég bað um, og bætti við nokkrum hugleiðingum frá eigin brjósti um þetta mál, og mun ég ræða nokkuð það, sem hann flutti fram sem rök fyrir þessu frv.

Hæstv. ráðh. minntist á, að tekjustofnar ríkisins og þar með tekjuskatturinn mundi nú vera áþreifanlega að bila, og hæstv. ráðh. var að auglýsa eftir, hvernig við sósíalistar mundum vilja auka tekjustofnana og tryggja, að hægt væri að fá meira fé til ríkisins. Nú vil ég segja ráðh., að hann virðist ekki gera sér þess fulla grein, hvaða samband er á milli þeirra möguleika, sem hann hefur sem fjmrh. til þess að ná peningum í ríkissjóð, og þeirrar atvinnupólitíkur, sem ríkisstj. rekur. Grundvöllurinn fyrir því, að hægt sé að fá tekjur svo að um muni, er sá, að atvinnulíf þjóðarinnar sé rekið með fullum krafti. Sé atvinnulífið rekið þannig, að atvinnuhættir eru hagnýttir til hins ýtrasta og mönnum leyft að starfa eins og þeir vilja og geta, verða tekjur þjóðfélagsins mjög miklar og þá innheimtast útsvör og tekjuskattur mjög auðveldlega. En hver hefur verið pólitík ríkisstj. viðvíkjandi því að tryggja þetta. Sú pólitík hefur verið í því fólgin að rýra þessa möguleika. Ríkisstj. hefur sjálf beinlínis unnið að því að minnka tekjur manna í landinu. Fjmrh. er sem ráðh. í þessari ríkisstj. sekur um það að hafa tekið þátt í að banna mönnum framkvæmdir hér á Íslandi í stórum stíl. Þess vegna held ég, að fjmrh. ætti að stinga hendinni í eigin barm, ef honum finnst tekjuskatturinn gefa minna, en hann vildi. Ég vildi því benda hæstv. fjmrh. á, að það er enginn vandi fyrir hann að tryggja ríkissjóði meiri tekjur, en nú er gert. Ríkisstj. hefur vitandi vits minnkað tekjustofnana í þjóðfélaginu og gert beinar ráðstafanir til þess, að menn hefðu miklu minni tekjur en áður. Hún hefur bannað mönnum að vinna, bannað mönnum að framkvæma og flytja út og dregið úr atvinnuframkvæmdum og viðskiptum í landinu, með þeim afleiðingum, að tekjur manna hafa minnkað. Það er þess vegna út í hött, þegar ráðh. er að auglýsa eftir ráðum frá Sósfl. til þess að auka tekjur þjóðfélagsins. Þessi ríkisstj. hefur vald til þess sjálf. Margir menn í þessu landi vilja byggja hús. Það þýðir svo og svo mikla vinnu og tekjur til þeirra manna, sem við þetta vinna. En hvað hefur ríkisstj. gert? Hún hefur dregið stórkostlega úr húsbyggingum, beinlínis bannað mönnum að byggja. Byggingarefnið hefur bókstaflega verið eyðilagt, og úr vinnu landsmanna hefur verið dregið svo mikið, að fjöldi manns, sem hefði viljað vinna við byggingar, hefur ekki fengið að gera það. Byggingarsmiðir unnu oft mikla eftirvinnu. Ég er ekki að halda með eftirvinnu, en þeir smiðir, sem vildu leggja það á sig, gátu fengið að gera það, en er bannað það núna, þó að þeir vilji það af eigin hvöt og þjóðinni sé full þörf á því, því að við eigum að byggja upp land, sem er mikið til óbyggt. Það er búið að takmarka byggingarstörf svo mikið, að fjöldi þeirra manna, sem hafði áður starf við byggingar, er atvinnulaus. Þetta þýðir, að tekjur manna minnka, því að það, sem sérstaklega hleypti fram tekjum þeirra manna, sem störfuðu við byggingar, var eftirvinnan. Ég er ekki að mæla með eftirvinnu, en ef menn vilja leggja þetta á sig og þjóðin þarf á þessu að halda, er ekki nema eðlilegt að leyfa mönnum að gera það. En ríkisstj. hefur dregið úr allri þessari vinnu, og þess vegna verð ég að segja það, að það er ekki til neins fyrir fjmrh. að koma hér fram fyrir þessa d. og kvarta undan því, að þessir tekjustofnar bregðist, því að hann er jafnsekur um það og aðrir ráðh. Ef fjmrh. væri hér nærri, mundi ég gjarna vilja leggja fyrir hann spurningu í þessu sambandi, og væri gott, ef forseti vildi láta senda eftir honum. Ríkisstj. hefur beinlínis unnið að því á skipulagðan hátt að minnka tekjustofna þjóðfélagsins og draga úr tekjum manna með því að minnka þá atvinnu, sem menn hafa haft. Máske einhver af flokksmönnum hæstv. ráðh. vildi nú koma þeirri spurningu til hans, hvort hann hefur verið sammála þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið af hálfu fjárhagsráðs í umboði ríkisstj. og beinlínis hafa leitt til þess að minnka þá tekjustofna, sem hann á að byggja tekjur ríkissjóðs á. Er ekki nema eðlilegt, að fjmrh. svari slíkri spurningu fyrir hv. þd. Það er til lítils sóma fyrir hann og ríkisstj. að eyðileggja fyrst þennan tekjustofn og kvarta síðan fyrir d. yfir því, að hann bregðist. Það er hreinn skrípaleikur. Má vel svo vera, að ráðh. sé þetta sjálfum ljóst og vilji því ógjarna standa fyrir máli sínu frammi fyrir hv. deild. Mætti fresta þessum umr. þangað til ráðh. getur verið við.