11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Forseti (BG):

Það er ekki þægilegt viðfangsefni að fresta umr., þar sem hv. þdm. hafa verið ómakaðir hingað á fund. Hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir að koma hingað upp úr kl. 9 eða kringum það. Hann hafði fengið skilaboð um það í dag, að umr. hefði verið frestað af þeim sökum, að óskað væri eftir nærveru hans, en einhverjar hindranir hafa komið í veginn, svo að hann hefur ekki komið hingað enn. En mér skilst, að það mætti einnig koma að fyrirspurnum við 3. umr. málsins, því að hér er um 2. umr. að ræða. Ég vona, að hv. 2. þm. Reykv. skilji, að það er ekki þægilegt að fresta hvað eftir annað umr. um mikilvæg mál vegna þess, að einhver ákveðinn þm. eða ráðh. mæti ekki (EOl: Það er hæstv. ráðh. að sýna áhuga fyrir að fá mál sitt fram með því að mæta. Er hæstv. forseta verr við að fresta umr. enn?). Forseti kýs heldur, að málið tefjist ekki.